132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[22:53]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þessi 3. umr. fjárlaga er eiginlega miklu frekar framhald 2. umr. heldur en 3. umr. fjárlaga því að engar breytingar hafa orðið sem hægt er að tala um á milli þessara umræðna. Þegar þinginu var breytt í eina deild í staðinn fyrir tvær lögðu menn mikla áherslu á að þær umræður sem færu fram hér kæmu í staðinn fyrir deildaskiptinguna að þessu leyti. Ég er á þeirri skoðun að menn eigi ekki að setja sér það að markmiði að ekkert geti breyst í málum á milli 2. og 3. umr. Því er kannski ástæða til að tala meira almennt um þessi mál, enda búið að ræða mikið um þau í dag, en að ég fari að ræða hér einstaka liði. Það er auðvitað sama snið á áætlunum ríkisstjórnarinnar og verið hefur. Tekjur og gjöld hafa verið vanáætluð ýmist mikið eða lítið á undanförnum árum og það er gríðarleg spenna í samfélaginu, viðskiptahallinn er gríðarlegur, heimilisbókhaldið er kannski í lagi hjá ríkissjóði en fjölskyldumeðlimirnir eyða um efni fram og ekki lítið.

Það er góðæri hjá ríkissjóði og góðærið veitir ríkissjóði og þeim sem stjórna málum í landinu frelsi. „Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil“, segir í frægum dægurlagatexta. Og menn geta þess vegna merkt það á því hvernig ríkisstjórnarflokkarnir fara með frelsið hver stefna þeirra er. Það er nefnilega ekki endilega hægt að sjá hver stefnan er af því sem menn hafa lýst yfir. Það getur verið munur á því hvað menn gera og hvað menn segjast ætla að gera, en framkvæmd stefnunnar segir okkur hver hún er hjá ríkisstjórninni. Sú stefna og forgangsröðun sem ríkisstjórnin sýnir okkur með ákvörðunum sínum er auðvitað komin mjög skýrt fram eftir tíu ár með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum og tólf ár með Sjálfstæðisflokknum. Í velferðarmálum sjáum við að eftir allan þennan tíma eru aldraðir og fatlaðir settir hjá í góðærinu. Þetta hefur verið sannað á undanförnum missirum og árum með mjög skýrum hætti þó að menn gangi í ræðustól og haldi öðru fram. Það er auðvitað gríðarlegur munur á því hvernig þetta fólk hefur upplifað góðærið og aðrir í samfélaginu.

Ég tók eftir því að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson benti á það til huggunar fyrir fatlaða að meiri möguleikar væru fyrir þá að taka þátt í atvinnulífinu hér en í öðrum löndum. Er það svo? Er hægt að halda því fram að meiri möguleikar séu fyrir það fólk að taka þátt í samfélaginu sem upplifir það að bæturnar eru teknar af því að mestu leyti ef það vogar sér út á atvinnumarkaðinn? Ég held ekki. Þessi stefna í velferðarmálum er stefna sem felur í sér aukna misskiptingu í samfélaginu og það er niðurstaðan af þeim tíma sem ríkisstjórnin hefur haft völdin.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan að ekki þyrfti að hafa neina peninga í fjárlagafrumvarpinu vegna aldraðra, ekki væri þörf á því. Hann orðaði það kannski ekki svona en meiningin var þessi. Allir vita hvernig ástandið er hvað varðar öldrunarstofnanir og hjúkrunarheimili og það ástand er ekki að koma upp núna. Það ástand hefur varað árum saman. Endalaus togstreita milli sveitarfélaganna og hins opinbera um rekstur þessara heimila hefur staðið árum saman án þess að tekið hafi verið því máli. Það er auðvitað ríkisstjórninni til algerrar skammar hvernig staðið hefur verið að málum hvað varðar rekstur öldrunarstofnana og hjúkrunarheimila. Og að ekki skuli vera hægt að gera neitt í því núna þegar góðærið stendur sem hæst segir auðvitað eitthvað um stefnu núverandi ríkisstjórnar. Hún móast endalaust við í þessum málum eins og hægt er.

Í menntamálum, sem hafa verið mest til umræðu í dag, skortir metnað og samræmi. Það eru skólagjöld á Íslandi og hafa verið lengi en ég tók eftir því að hæstv. menntamálaráðherra talaði um að í stað skólagjalda fengju háskólarnir framlög vegna rannsókna. Er það stefnan að annars vegar fái háskólar að taka skólagjöld og hins vegar fái þeir rannsóknarstyrki? Er þetta boðlegt? Auðvitað eiga háskólar að fá rannsóknarstyrki í samræmi við rannsóknir og auðvitað eiga þeir að hafa sambærilega möguleika til skólagjalda ef þau eru á annað borð höfð.

Þarna er á ferðinni vandræðagangur sem hefur verið allan tímann og nú er hálfur annar áratugur síðan Sjálfstæðisflokkurinn tók við menntamálaráðuneytinu. Þessi einn og hálfur áratugur íhaldsins ber vitni um stefnuna að bjarga sér frá degi til dags. Það liggur ekki fyrir hvað menn ætla sér, heldur verða menn að ráða í hvað fram undan er í menntamálum.

Hvernig er svo stefnan í byggðamálum? Það er nú býsna fínt að hér skuli vera staddur fyrrverandi formaður stjórnar Byggðastofnunar (Gripið fram í: Sem þekkir þetta afar vel.) sem þekkir þessi mál býsna vel. Byggðastofnun er lokuð, liggur í brotum. Það er búið að hluta hana niður, fleygja hinum og þessum verkefnum Byggðastofnunar út um hvippinn og hvappinn. Lánastarfsemi stofnunarinnar er strand.

Það kom skýrsla frá starfshópi sem fjallaði um þessi mál. Í henni kemur ýmislegt fram sem væri alveg ástæða til þess að fara hér yfir. Starfshópurinn leggur það til að stofnunin haldi áfram lánastarfsemi þrátt fyrir að hún hafi ekki stöðu til þess samkvæmt mati lánastofnana eða þeirra sem um það eiga að fjalla. Það er talað um að þróa fjármögnunartæki og samstarf við fjármálafyrirtæki og að til greina komi t.d. að veita ábyrgðir og það er talað um það að halda lánastarfsemi Byggðastofnunar áfram með sama hætti og hún hefur verið á undanförnum árum. Það er talað um einhvers konar samstarf við aðrar lánastofnanir.

Úr hvaða heimi tala menn? Halda þeir að ábyrgðir kosti ekki peninga í fjármálastarfsemi? Auðvitað. Ef Byggðastofnun ætlar að stunda lánastarfsemi og hjálpa þannig fyrirtækjum á landsbyggðinni, þar sem erfiðleikar eru við það að koma upp nýrri starfsemi eða halda starfsemi áfram, þá mun það kosta fjármuni. Sú starfsemi getur aldrei orðið fullkomlega sjálfbær. Ef menn ætla að fara aftur af stað með bundið fyrir augun munu þeir upplifa það aftur að fara í strand með starfsemina. Ef hún gæti verið sjálfbær þá þarf ekki á Byggðastofnun að halda, vegna þess að aðrar lánastofnanir geta auðvitað séð um það sem er sjálfbært hvað varðar fjármálastarfsemi í landinu.

Það er talað um að þróa samstarf við atvinnuþróunarfélögin og aðra aðila sem vinna við atvinnuþróun og nýsköpun og að nýta vaxtarsamninga sem tæki til að efla samstarf á þessu sviði og sérstaklega er bent á Impru, Iðntæknistofnun, Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins í því sambandi.

Ég nefni þetta vegna þess að ég sagði það áðan að það hefði verið búið að hluta Byggðastofnun niður. Það er komið að byggðamálum úr ýmsum áttum, fjölmörgum áttum, en ekki í gegnum Byggðastofnun sem var þó sett á lappirnar til þess að vera miðja þeirra verkefna sem tilheyra því að standa við bakið á veikum byggðum landsins. Þetta er auðvitað gjaldþrot í stefnu ríkisstjórnarinnar og alveg sérstaklega í byggðastefnu byggðamálaráðherrans, sem tók við þeim verkefnum fyrir fimm árum og hefur því haft forustu um að veikja Byggðastofnun. Það má því segja að líklega ætti maður að fagna yfirlýsingu hæstv. ráðherra um að nú standi til að skoða það að koma aftur á einhvers konar starfsemi í tengslum við stofnanirnar sem ég hér nefndi.

Í skattamálum kemur stefna ríkisstjórnarinnar býsna skýrt fram. Skattleysismörkin lækka og lækka á stjórnartímanum, hátekjuskatturinn er tekinn af, eignarskattar eru teknir af, það er lækkuð prósenta í álagningunni og það eru lækkaðir skattar á fyrirtæki, en þeir sem eru lægst launaðir í samfélaginu sitja uppi með að borga meiri skatta en áður. Stefnan er aukin mismunun og hún fer ekki á milli mála, það er aukin misskipting sem af henni hlýst, þannig að hún er alveg ljós þó að henni hafi ekki verið lýst yfir. Gerðin segir allt um það hver stefnan er.

Í samgöngumálum er ýmist niðurskurður eða átök í samgöngumálum. Því fylgir gjarnan hástemmt tal um afrek og eiginlega er með ólíkindum hvernig menn tala um samgöngumál þegar stefnan á undanförnum árum er skoðuð. Við höfum séð að með reglulegu millibili kemur niðurskurður í þeim málum og síðan kemur nýtt átak með svona reigingslegum yfirlýsingum um stórhug og framsýni, en langtímahugsun er ekki til staðar. Við erum að tapa gríðarlegum fjármunum á því að hún skuli ekki vera til.

Það er t.d. ástæða til að nefna Ísafjarðargöngin í því sambandi. Ef fyrir lægi langtímastefna í samgöngumálum væri ljóst hvar og hvenær ættu að koma göng í gegnum Tröllaskaga til að tengja saman Skagafjörð og Eyjafjörð. Ef það lægi fyrir hvar og hvenær þau göng kæmu hefðu menn aldrei farið í Héðinsfjarðargöng. En það er áfram farið með kíkinn fyrir blinda auganu hjá ríkisstjórninni. Hentistefnan er stefnan í samgöngumálum.

Í atvinnumálum er stóriðjustefnan aðalstefnan. Henni er samt ekki lýst þannig að fólk viti hvert menn ætla, menn verða að ráða í það. Það standa yfir athuganir á alls konar stóriðjukostum, það eru fjölmargir aðilar á ferðinni sem vilja byggja stóriðjuver hér á Íslandi, virðist vera af fréttum. Menn tala um Húsavík, Helguvík, Straumsvík, Skagafjörð. (Gripið fram í.) Já, og rafskautaverksmiðju í Hvalfirði.

Umhverfisráðherra var að fara úr landi núna. Skyldi hæstv. umhverfisráðherra vita hver stefnan er? Skyldi hæstv. umhverfisráðherra geta sagt félögum sínum eða kollegum á þessu sviði hvað Íslendingar vilji í þessu efni, hvort það standi til að kaupa kvóta fyrir þessa starfsemi á Íslandi, hvort það standi til að sækjast eftir meiri undanþágum? Ríkisstjórnin er ekki með stefnu í þessum efnum. Hún hefur ekki lýst því yfir. Þó er þetta nokkuð ljóst af verkunum og því sem er í gangi. Viljinn sést á verkunum þótt stefnan sé ekki yfirlýst.

Í sjávarútvegsmálum, sem eru auðvitað kannski stærstu byggðamálin úti um landsbyggðina, geta menn kannski velt því fyrir sér hvort þau mál samræmist yfirlýsingum um vilja í byggðamálum í landinu. Byggðastofnun er í brotum eins og ég sagði áðan, það er ekki gert ráð fyrir neinum fjármunum á fjárlögum til þess að rétta hana við, hún á bara að halda áfram. Það er gefin út tilskipun um það að þar skuli menn halda áfram uppteknum hætti þó að ástandið hjá stofnuninni sé eins og lýst hefur verið.

Mikilvægasti atvinnuvegur fólks á landsbyggðinni, sem er sjávarútvegurinn, hvernig skyldi nú líta út þar? Það er þannig að fjölmörg byggðarlög horfa fram á mikil vandamál á næstunni. Sjávarútvegurinn á í miklum vanda vegna hás gengis en ekki bara það, heldur er sú stefna sem hefur verið rekin — og hv. þm. Birkir Jón Jónsson var að hælast yfir hér í dag — þannig að í smærri byggðarlögum við sjávarsíðuna sér enginn fram á neina framtíð í aðalatvinnuveginum sem skapaði þessi byggðarlög. Það sér enginn möguleika á að stofna ný fyrirtæki í sjávarútvegi, aðalatvinnuveginum. Hver verður þá trú á slíkt byggðarlag til framtíðar? Hún verður auðvitað ekki mikil.

Stefnan ber vott um að því hefur aldrei verið lýst yfir hvert eigi að fara, aldrei verið sagt hvað eigi að gera, ekki berum, beinum orðum. Hún snýst um að einkavæða þjóðarauðlindina en því hefur aldrei verið lýst yfir, ekki í eitt einasta sinn. Samt er þetta stærsta einkavæðing Íslandssögunnar, upp á svona 350, 400 milljarða. Það hefur ekki farið fram heiðarleg umræða um það að menn væru að einkavæða fiskimiðin við Ísland og það hefur ekki verið lagt fyrir með neinum slíkum hætti.

Fólkið í landinu hefur verið á móti þessari stefnu allan tímann, það hefur alltaf legið fyrir. Ég vil halda því fram að þetta sé einhver óheiðarlegasta pólitíska aðgerð sem hefur verið gerð í landinu vegna þess að hún hefur verið framkvæmd undir sauðargærunni, vegna þess að menn hafa aldrei sagt hvað stæði til, hvað þeir væru í raun og veru að gera.

Ég ætla ekki að halda langa ræðu en í lokin langar mig til þess að tala um þau mál sem bar hér á góma áðan, þ.e. þau vandamál sem menn sjá núna uppi vegna stöðu krónunnar. Ég held að það sé eitthvert erfiðasta viðfangsefni stjórnvalda sem fram undan er, þ.e. að sjá fram úr því hvernig hægt verður að stjórna efnahagsmálum í landinu. Það er undarlegt að hlusta á sumar vangaveltur manna um hvernig nú sé hægt að hafa áhrif á gengi krónunnar. Það er eins og helst skipti máli hvernig menn orði hlutina, það skipti öllu máli jafnvel hvernig menn eru í málrómnum þegar þeir tala um krónuna, þegar talað um stöðu gjaldmiðilsins. Menn eru svona að ráða í hlutina og velta þeim fyrir sér. Seðlabankinn velur vaxtastig og hækkanir af mikilli kostgæfni með það fyrir augum hvernig það sem gert er verði síðan útlistað og hvaða setningar fylgi því þegar menn lýsa yfir vaxtahækkuninni í hvert sinn.

Gengið stendur býsna hátt og það eru ekki bara sjávarútvegsfyrirtækin sem eiga í erfiðleikum vegna þess. Það eru hátæknifyrirtækin í landinu, það eru útflutnings- og samkeppnisgreinarnar í heilu lagi sem líða fyrir þetta gengi. Eitt ætti þetta þó að hafa fært mönnum heim sanninn um og það er að íslenska krónan verður erfið viðfangs inn í framtíðina. Hún er orðin enn þá smærri í samanburði við efnahagslífið en hún var áður. Það er búið að opna það upp á gátt gagnvart samskiptum við útlönd og það er ekki gott að sjá hvernig stjórn á gengismálum muni geta fært okkur eitthvað sem við gætum kallað jafnvægi eða stöðugleika í framtíðinni.

Ég held að það sé eitthvert brýnasta verkefni í stjórnmálum á Íslandi að menn fari yfir stöðuna og reyni að koma sér upp hugmyndum um hvernig halda megi utan um stjórn efnahagsmála þannig að menn geti trúað því að hægt sé að ná jafnvægi. Ef menn finna ekki þá leið verða þeir að horfast í augu við að ekki sé hægt að treysta á íslensku krónuna til framtíðar. Staðan sem er uppi núna er að mínu viti sú að krónan sé ónýt. Og það er ekki bara ég sem hef þá skoðun. Margir í atvinnulífinu hafa hana. Samtök iðnaðarins hafa margoft lýst því yfir að það sé ekki hægt að búa við þær sveiflur sem íslenska krónan skapar í atvinnulífinu.

Þess vegna tel ég að hið stóra verkefni fram undan hljóti að vera það að íslenskir stjórnmálamenn geri upp við sig hvort hægt sé að treysta einhverri leið sem hægt er að fara til að halda jafnvægi í þjóðarbúskapnum og ef sú leið finnst ekki þá horfist menn í augu við að það verði að finna aðra leið en þá að treysta á íslensku krónuna.

Ég ætla ekki að hafa orð mín mikið fleiri. 3. umr. um fjárlög er búin að vera löng hér í dag. Samfylkingarmenn hafa farið mikið yfir sérstaklega menntamálin. Menn hafa talað um vandamál sem ríkisstjórnin virðist ekki hafa vilja til að leysa, vandamál aldraðra og öryrkja. Það fólk ætlar að halda útifund á næstu dögum og gefa þingmönnunum jólagjöf. Sú jólagjöf er ætluð til þess að vekja athygli enn einu sinni á því að stjórnvöld hafa ekki staðið sig í því að veita réttlæti inn í samfélagið. Það liggur fyrir skýrsla um stöðu öryrkja á Íslandi og það liggja fyrir fullkomlega skýrar og klárar sannanir um stöðu aldraðra.

Það sem ekki liggur fyrir er hvort ríkisstjórnarflokkarnir ætla að taka mark á þessu. Reynslan af ríkisstjórnarsamstarfi segir okkur að það sé staðföst ákvörðun ríkisstjórnarinnar að halda þessu fólki við hungurmörkin, en það er sú stefna sem hefur verið rekin. Ég verð að segja það að í þessu gríðarlega ríka samfélagi sem Ísland er í raun og veru þá er sú stefna stjórnvöldum íslenska ríkisins til skammar.