132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:01]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég styð þetta mál heils hugar. Ég er á því að ýmsir þingmenn, t.d. sá sem talaði á undan mér og er þingmaður Reykvíkinga, þekki einfaldlega ekki ástandið úti á landi. Það er mikil þörf á að styðja félagastarfið úti á landsbyggðinni. Við getum litið til staða eins og Bíldudals, þar sem frystihúsið hefur verið lokað frá því snemma í sumar. Þrátt fyrir loforð stjórnvalda hefur ekki verið komið til móts við fólkið þar.

Með þessari tillögu gætu stjórnarliðar t.d. komið til móts við börnin á Bíldudal þar sem búið er að svipta foreldra þeirra vinnu. Mér finnst að stjórnarliðar ættu að sjá aumur á þeim og samþykkja þetta mál. Það er full þörf á því.

Ef einhverjir eru með blekkingar þá eru það þingmenn sem hafa hvað eftir annað flutt tillögu um að koma á þessu kerfi, slíkum sjóði. En síðan þegar hefur átt að veita í það fjármuni hafa þeir neitað að greiða því atkvæði sitt. Mér finnst það frekar vera blekking.

Ég hef trú á því að stjórnarliðar, ef þeir fara (Forseti hringir.) yfir málið, séu nokkuð örugglega sammála mér, frú forseti. Ég segi já.