132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Fyrirspurnir á dagskrá.

[15:25]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er svo, eins og komið hefur fram í þingsköpum, að munnlegar fyrirspurnir skulu teknar á dagskrá eigi síðar en átta virkum dögum eftir að þeim var útbýtt. Um skriflegar fyrirspurnir gildir það að ráðherra á að senda forseta svar eigi síðar en 10 virkum dögum eftir að fyrirspurn var leyfð. Þó er þar tekið fram „að jafnaði“. Ég held að það sé undantekning með a.m.k. skriflegar fyrirspurnir að þær komi á tilsettum tíma og eins og hefur komið fram getur munnleg fyrirspurn beðið í marga mánuði. Mig minnir að dæmi hafi verið um að hæstv. fjármálaráðherra sem þá var sjávarútvegsráðherra hafi tekið fjóra eða fimm mánuði í að svara tiltölulega einfaldri fyrirspurn frá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni. Þá verður þetta að gerast sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir sagði, það verður að vera þannig að ráðherrarnir sýni þá kurteisi að skýra frá því þegar komið er fram yfir þennan frest, skýra þingmanninum frá því og gera það í samráði við hann.

Sjálfur bað ég um skriflegt svar við fyrirspurn í byrjun nóvember og fékk það ekki fyrr en í lok mánaðar. Það kom í ljós að mjög einfalt var að svara því. Það gerðist ekkert í millitíðinni. Hæstv. utanríkisráðherra sem átti að svara því hafði ekkert samband við mig og ekkert gerðist dag eftir dag. Svo var þessu svarað að lokum. Það kunna að hafa verið einhver vandræði en ég hefði glaður framlengt þennan frest og verið með ráðherra í að ákveða hvenær svar ætti að koma. Þegar ráðherrarnir bregðast verður forseti sem er fulltrúi okkar allra gagnvart framkvæmdarvaldinu að grípa í taumana og ég tek undir þá ósk sem hér kom fram áðan til forseta um að gera það framvegis.