132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Fyrirspurnir á dagskrá.

[15:32]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Það var afskaplega skemmtilegt að heyra í hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni. Þetta er akkúrat það sem þingmenn eru að gera með fyrirspurnum, þeir eru að koma sér í fjölmiðla og þess vegna hefur fyrirspurnum fjölgað alveg gríðarlega. 80 fyrirspurnir liggja núna fyrir þinginu sem ráðherrar verða að svara og ég vil taka fram að hæstv. forseti Alþingis, Sólveig Pétursdóttir, hefur lagt mikla áherslu á að fyrirspurnum sé svarað. Hún hefur aukið við fyrirspurnatímann. Heill aukadagur var tekinn í að svara fyrirspurnum og mikið svigrúm hefur verið veitt í dagskrá þingsins einmitt til að svara fyrirspurnunum. (Gripið fram í.)

Mjög margir vilja koma með stuttar athugasemdir inn í fyrirspurnatímann af því að þetta er í rauninni mjög skemmtilegt form í þinginu, það er skemmtilegt form þegar verið er að ræða málefni sem okkur þykja áhugaverð. Þess vegna komast færri fyrirspurnir að. Þegar kannski upp í 10 þingmenn vilja gera stuttar athugasemdir teygist heldur betur úr tímanum og því komast færri fyrirspurnir að.

Í dag er fyrirspurnatími og fyrirspurnum er deilt niður á flokkana. Það verða þrjár fyrirspurnir frá Samfylkingunni, ein frá Framsóknarflokki, ein frá Sjálfstæðisflokki og ein frá Vinstri grænum þannig að ég tel að forseti þingsins hafi reynt að vinna afskaplega vel úr þessu máli og komið til móts við þingmenn.