132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Aðgangur að opinberum háskólum.

114. mál
[15:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Umfangsmiklar frávísanir nemenda í opinberu háskólana eru rof á þeirri samfélagssátt sem hefur verið um það að þeir sem sækja í skólana og hafa til þess réttindi fái þar inni, a.m.k. í Háskóla Íslands. Þetta hefur breyst á síðustu árum. Fyrir tveimur árum fór fyrst að bera á því að Háskóli Íslands hætti að nýta heimild til að taka aðra en þá sem hafa formlegt stúdentspróf inn í skólann til að spara fjármuni. Í inntökuskilyrðum til náms í Háskóla Íslands segir að nemendur skuli hafa lokið stúdentsprófi af bóknámsbraut eða öðru sambærilegu prófi frá erlendum skólum. Heimilt er þó að veita öðrum en þeim sem uppfylla þetta skilyrði rétt til þess að hefja nám við skólann ef þeir að mati viðkomandi deildar búa yfir hliðstæðum þroska og þekkingu sem stúdentsprófið veitir.

Grundvallaratriði í menntamálum er að veita öðrum, líka fullorðnu fólki sem vill snúa til náms og hefur sambærilega lífsreynslu eða aðra menntun en stúdentspróf, leyfi til að fara inn í skólana.

Það er mikilvægt að fá upplýsingar um hve mörgum sem sóttu um skólavist í Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands var vísað frá haustið 2005, sundurliðað eftir deildum og skorum eins og fyrirspurnin hljómar. Það er mikilvægt að þessar upplýsingar komi fram og liggi umræðum um fjármögnun og framtíðarmarkmið opinberu háskólanna til grundvallar. Eftirspurn eftir námi hefur aukist gífurlega um allan hinn vestræna heim.

Fyrir nokkrum missirum, tveimur áratugum eða svo, voru um 5% af meðaltali mannafla á vinnumarkaði á Vesturlöndum með háskólapróf. Innan 20 ára héðan í frá stefnir í að þetta hlutfall verði á bilinu 35–50%, mismunandi eftir löndum. Við Íslendingar erum verulegir eftirbátar margra sambærilegra þjóða, ekki síst út af því að enn þá ljúka heil 40% af hverjum árgangi ekki öðru prófi en grunnskóla. Í rauninni er lítil aukning á því. Einungis 12% af fólki á vinnumarkaði á landsbyggðinni eru með háskólamenntun og 22% af fólki á vinnumarkaði á höfuðborgarsvæðinu þannig að við eigum mjög langt í land til að ná þeim löndum sem best eru sett. Því þarf að fjárfesta í háskólunum. Aðgengi að þeim er sjálfsagt algert grundvallaratriði þarna, bæði fyrir landsbyggðina þar sem Háskólinn á Akureyri gegnir lykilhlutverki, bæði einn og sér og sem fjarnámsveitandi annarra háskólasetra og fræðslunet úti um allt land, en sérstaklega skiptir þó máli aðgengi að Háskóla Íslands og það að hann vísi ekki frá hundruðum nemenda á hverju ári út af því að hann hafi ekki fjármuni til að mennta þá. Þessu þarf að bregðast við og því kalla ég eftir upplýsingum við þessum spurningum:

Hve mörgum sem sóttu um skólavist var vísað frá haustið 2005 í Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands, sundurliðað eftir deildum og skorum?