132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:20]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get líka spurt: Hvaða endemis vitleysa er þetta? Ég hef farið yfir það að gert var samkomulag þriggja aðila. Að því komu þrír aðilar, þ.e. ríkisvaldið, vinnuveitendur og Alþýðusambandið. Þegar þrír aðilar gera með sér samkomulag er það höfuðnauðsyn fyrir ríkið, sem ber ábyrgð á samkomulaginu, að það standi. Ef það breytist þá breytist það þannig að það hallar á annan aðilann. Um það voru allir sammála og margir af stjórnarandstæðingum hafa sagt það. Samkomulagið var um lágmark sem einhver kallaði lágmarkssamnefnara, þ.e. einhver úr stjórnarandstöðunni. Ég veit það ekki. Ég var ekki í þessum samningum.

Samkomulagið var milli þriggja aðila. Ég bendi á að ef slíkt samkomulag gengur ekki, stenst ekki í meðförum þingsins, þá getur verið slæmt upp á framtíðina. Það grefur undan trausti þessara aðila á að standa að slíku samkomulagi. Sagan sýnir okkur að oftar en ekki hefur samkomulag af því tagi verið til farsældar. Ég tel þetta því hættulegt atvik og endurtek áskorun mína til stjórnarandstöðunnar um að draga breytingartillögu sína til baka.