132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:30]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef menn vilja teyma þetta lengi þá er það svo sem hægt. Það skiptir engu máli hvort það er ríkisstjórn Framsóknarflokks eða Sjálfstæðisflokks eða Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins eða Vinstri grænna. Það er jafnþýðingarmikið, ef það eru rétt kjörin stjórnvöld sem vinna að slíkum þjóðþrifamálum, að það standi sem ríkisstjórnin gerir og menn geti treyst því að slíkt samkomulag verði að lögum. Það skiptir engu máli hverjir semja eða á hvaða tíma. Það er jafnnauðsynlegt.

Að gera því skóna að í framtíðinni, ef ógæfan yrði sú að Samfylkingin færi í ríkisstjórn, mundu einhverjir vondir sjálfstæðismenn gera einhverja vitleysu er náttúrlega draumsýn sem ég vona, virðulegi forseti, að aldrei muni reyna á. En það eru rétt að koma jólin þannig að ég ætla ekki að trufla menn með því meira. En ef menn trúa því að svona séu hlutirnir (Gripið fram í.) virðulegi þingmaður, þú getur ábyggilega talað einhvern tíma seinna, þá hefur slíkt samkomulag oftast reynst farsælt. Ég hvet menn til þess til framtíðar að efla traustið á ríkisstjórn Íslands á hverjum tíma þannig að það geti orðið áframhald á því. Það er tilgangslaust að reyna að snúa út úr því.