132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Málefni aldraðra.

174. mál
[16:10]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tek eftir að sá sem hefur valist sem framsögumaður þessa nefndarálits, hv. þm. Pétur H. Blöndal, ritar ekki undir það með fyrirvara. Það þýðir að hann er, og ég bið hann að svara því ef það er ekki rétt hjá mér, í fyrsta lagi samþykkur því að nefskattur sé til eilífðarnóns hafður um þetta málefni og í öðru lagi að nefskatturinn sé innheimtur m.a. til rekstrar. En þessum skatti var upphaflega komið á, til fróðleiks fyrir Pétur Blöndal sem er mikill andstæðingur skatta, til að gera átak í byggingum á sviði hjúkrunarrýma og að ég held fleiri byggingarframkvæmda fyrir aldraða.

Ég geng út frá því ef hann svarar þessu ekki að hann sé þessu hvoru tveggja samþykkur og sé ákaflega ánægður með þennan skatt á landsmenn.