132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

314. mál
[17:16]
Hlusta

Frsm. meiri hluta umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég vísi aftur í það þá vinna menn eftir þessari reglugerð nú þegar þannig að kostnaðurinn er til staðar eins og ég nefndi er ég tiltók sveitarfélag sem nýtir sér þessa þjónustu og er að taka út þessi leiksvæði.

Varðandi það að slíkt eigi við fleiri aðila þá kom það fram í umræðum í nefndinni, að ég tel, að menn viti ekki til þess að hægt sé að koma á innra eftirliti á fleiri svæðum en þessum leiksvæðum þó að menn hafi leitað að því og hafa fyrst og fremst sett þetta inn af lagatæknilegum ástæðum. Nú þegar, eftir því sem ég best veit, er til staðar heimild fyrir umhverfisráðherra um að annað eftirlit skuli sæta úttekt faggilts aðila. Það hefur ekkert komið fram í meðförum málsins sem bendir til þess að hér sé um einhvern annan kostnað að ræða fyrir þá aðila sem þurfa á eftirliti að halda. En ef svo er þá er það eitthvað sem a.m.k. formaður nefndarinnar veit ekki af.