132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

314. mál
[17:18]
Hlusta

Frsm. minni hluta umhvn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir minnihlutaáliti umhverfisnefndar á þskj. 578 og vil áður en ég fer beinlínis að horfa ofan í það lýsa því yfir að mér þykir málflutningur hv. framsögumanns meiri hlutans vera með hreinum ólíkindum. Og áður en lengra er haldið tel ég nauðsynlegt að undirstrika það hér að minni hluti umhverfisnefndar telur að opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög, beri mikla ábyrgð á öryggi varðandi skipulag og búnað leiksvæða barna. Að sjálfsögðu erum við þeirrar skoðunar að sveitarfélögin hafi lagt sig fram um að hafa öryggismál í lagi og við höfum fylgst með því á hvern hátt sveitarfélögin hafa verið að reyna að bæta innra eftirlit sitt til að tryggja að ekki verði slys á börnum sem leika sér á opnum svæðum sem sveitarfélögin eiga að annast. Mér þótti mjög miður að heyra hvernig hv. þingmaður lét að því liggja að þeir sem ekki rituðu undir meirihlutaálit umhverfisnefndar hlytu þar með að láta sér í léttu rúmi liggja slys á börnum. Ég mótmæli slíkum málflutningi og því sem lá í orðum hv. þingmanns.

Í meðferð þessa máls í umhverfisnefnd var ýmsu ábótavant. Í fyrsta lagi var málið tekið flausturslega á dagskrá nefndarinnar í fyrrakvöld eftir að búið var að segja nefndinni að það yrði ekki pressað á að málið yrði afgreitt fyrir jól. Á skyndifundi í fyrrakvöld var lagður fyrir nefndina bunki af umsögnum um málið sem bæði voru mjög umfangsmiklar, þykkar og miklar, og mjög gagnrýnar á málið og sömuleiðis aðrar sem studdu það mjög. Við höfðum því sjónarmið sem voru sitt hvorum megin á þessum ás, ýmist með eða á móti. Við höfðum ekki fengið tækifæri til að lesa umsagnirnar fyrir fundinn og ekki var gefinn tími til að lesa þær yfir á fundinum. Það átti því að taka málið út úr nefndinni og var raunar gert án þess að nefndarmenn hefðu lesið þær umsagnir sem borist höfðu.

Frú forseti. Það er auðvitað ekki annað hægt en að mótmæla harðlega slíkri málsmeðferð. Hún er vanvirðandi fyrir þingið og fyrir þá aðila sem eiga að starfa eftir lögum sem við samþykkjum hér.

Einhverra hluta vegna var kippt í einhverja spotta þannig að hv. formaður umhverfisnefndar, Guðlaugur Þór Þórðarson, kallaði nefndina aftur saman í hádeginu í gær þar sem málið var tekið aftur inn í nefndina. Þá var fenginn á fund okkar gestur, Sigurður Óli Kolbeinsson, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sem átti raunar sæti í þeirri nefnd sem um getur í greinargerð með frumvarpinu, nefnd þeirri sem gerði þær tillögur sem reglugerðin felur í sér. Reglugerðina skortir í sjálfu sér lagastoð og það er kannski meginástæðan fyrir því að við erum hér með þetta frumvarp.

Á þessum hádegisfundi í gær var ekki hægt að leggja fyrir nefndina upplýsingar, sem ég þó hafði óskað eftir kvöldinu áður, um slys á börnum á leiksvæðum og opnum svæðum í umsjón sveitarfélaga. Það sem ég tel nauðsynlegt að umhverfisnefnd fái að vita er hversu mörg af þeim slysum sem verða á slíkum svæðum megi rekja til ónógs eftirlits með leiktækjum á þessum svæðum. Þær upplýsingar lágu ekki fyrir.

Sömuleiðis var ljóst að Samband íslenskra sveitarfélaga hafði ekki sent inn skriflega umsögn og vegna upplýsinga minna um ósætti stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga við málið þá þótti mér skorta skriflega umsókn frá sambandinu og taldi nauðsynlegt að slík umsögn lægi fyrir. En það var ekki tími til að bíða og málið var tekið út öðru sinni í hádeginu í gær og enn án þess að nefndin hefði lesið yfir umsagnirnar, þ.e. sameiginlega eins og þó er tilhlýðilegt að gera og vani er í nefndarstarfi á Alþingi.

Enn fremur hafði ósk okkar um að frumvarpið yrði kostnaðarmetið verið hunsuð og ég verð að fá að koma að leiðréttingu í máli hv. formanns umhverfisnefndar áðan. Hann segir réttilega að reglugerðin hafi tekið gildi árið 2002 en honum láðist að geta þess að þá var samkomulagið um kostnaðarmat á frumvörpum milli ríkissjóðs og sveitarfélaga ekki undirritað. Það samkomulag lá ekki fyrir fyrr en síðar. Reglugerðin var því ekki kostnaðarmetin og þess vegna var eðlilegt að sveitarfélögin samþykktu hana á sínum tíma eða gerðu ekki athugasemdir við hana en að sama skapi óeðlilegt að sveitarfélögin skuli ekki gera athugasemd við það þegar lagastoð fyrir reglugerðinni er sett í lög að þá skuli ekki eiga að kostnaðarmeta þann kostnað sem sveitarfélögin þurfa að bera vegna breytinganna. Sem sagt, árið 2002 lá ekki fyrir það samkomulag sem nú liggur fyrir þannig að núna höfum við enga afsökun fyrir því að kostnaðarmeta ekki þau frumvörp sem leggja aukinn kostnað á herðar sveitarfélaganna.

Síðan gerðist það þegar líða tók á daginn í gær að skrifleg umsögn barst frá umhverfissviði Reykjavíkurborgar og í morgun barst skrifleg umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Hvað kemur í ljós? Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur auðvitað í ljós að þau sjá í hendi sér að reglugerðin um öryggi leikvallatækja og eftirlit með þeim sem sett var á árinu 2002 muni fela í sér verulegan kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin þegar ákvæði um úttekt faggiltra aðila verður virkt um næstu áramót. Það virðist því ekki vera neinn gleðitónn í umsögninni sem barst í dag og undirrituð er af framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga. Síðan segir í umsögninni að komið hafi fram athugasemdir frá sveitarfélögunum um að ákvæði reglugerðarinnar um tíðni og framkvæmd eftirlitsins sé of umfangsmikið og að reglulega aðalskoðun sé nægilegt að framkvæma á þriggja ára fresti í stað árlegrar skoðunar eins og segir í reglugerðinni og að innra eftirlit sveitarfélaganna geti þess á milli tryggt fullnægjandi öryggi.

Þetta er samhljóða þeim umsögnum sem nefndinni bárust frá einstökum heilbrigðisfulltrúum og Félagi heilbrigðisfulltrúa sem taka fram að hér sé verið að stilla sveitarfélögunum upp við vegg og gera þau skyldug til að greiða þess vegna einkaaðilum háar fjárhæðir fyrir það eftirlit sem hér um ræðir því að við skulum ekki gleyma því, frú forseti, að einkaaðilar standa við dyrnar og bíða eftir því að þessi lagastoð fáist til að hægt sé að krefja sveitarfélögin um það eftirlit sem hér um ræðir. Hverjir eru það sem búnir eru að fá fullgildingu til að annast þetta eftirlit nú þegar? Það eru ekki sveitarfélögin. Þau hafa ekki sent sitt fólk á námskeið til að læra Evrópustaðlana í Englandi. Ónei, en það hafa einkafyrirtækin verið að gera þannig að einkafyrirtækin bíða núna í röðum eftir því að fá að annast þetta eftirlit og gera kröfu á sveitarfélögin um að þau sinni því. Þetta styð ég með tilvitnun í umsögn frá Samtökum iðnaðarins þar sem segir að mikilvægt sé að mörkuð verði sú stefna að faggiltir aðilar sem starfa á samkeppnismarkaði taki í meira mæli en nú er að sér að fylgjast með því að farið sé að lögum og reglum og að samtímis sé dregið úr umfangi opinbers eftirlits. Þetta er staðfesting á því að hér gætum við verið að sigla inn í umhverfi sem væri sambærilegt við hið einkavædda rafmagnseftirlit sem þjóðin hefur auðvitað engst undan eftir að það var innleitt. Hér er verið að innleiða í lög opna heimild en ekki heimild sem takmarkast við eftirlit á leiksvæðum eða opnum svæðum. Það er því alveg ljóst að þetta frumvarp gerir ráð fyrir því að reglugerðir eða reglur um aðra þætti en þá sem lúta að leikvallamálum verði settar og þá kemur Alþingi ekkert að þeirri reglusetningu.

Ég fullyrði hér, fyrir hönd minni hlutans í umhverfisnefnd, frú forseti, að þetta mál er fullkomlega vanreifað í umhverfisnefnd og það er til vansa fyrir formann nefndarinnar að fara með málið svona flausturslega í gegn því í grunninn er þetta ekki slæmt mál. En það er fullkomlega vanreifað og það liggur ekki lífið á að koma þessu máli í gegnum þingið fyrir áramót. Við getum tekið vel á málinu um leið og við komum saman eftir jólahlé og klárað það á örfáum vikum, á mjög skömmum tíma með glæsibrag. En eins og málin standa núna getur minni hlutinn ekki annað en gagnrýnt þetta flaustur og það harðlega og við lýsum því yfir að við getum ekki samþykkt þetta frumvarp. Við verðum að leggjast gegn því á þessu stigi málsins eins og það er búið í hendur okkar og eins og hv. formaður umhverfisnefndar hefur komið því í gegnum nefndina. Það er til mikils vansa. Ég tel afar nauðsynlegt að hv. Alþingi sem hlýðir á orð mín taki þessi orð okkar í minni hluta umhverfisnefndar til skoðunar og samþykki ekki einhverjar álögur á sveitarfélögin eða eitthvert sjálfkrafa eftirlit með sveitarfélögunum sem kemur til með að kosta, guð veit hvað, formúur á hverju ári. Ég hvet hv. þingmenn til að hugsa sig tvisvar um áður en þeir samþykkja þetta.