132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Norðlingaölduveita.

[13:46]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég tek undir með hæstv. forsætisráðherra. Þetta mál er til meðferðar hjá skipulagsyfirvöldum, bæði í samvinnunefnd miðhálendisins og eins hafa sveitarfélögin sem í hlut eiga ekki lokið vinnu sinni. Ég tel því rétt að þessi mál fái að þroskast í þeim farvegi. Ég tel líka að nægur tími sé til að skoða málið heildstætt.

Hins vegar tel ég að við eigum að taka ýmislegt í málinu til gaumgæfilegrar athugunar. Ég tel t.d. að það kæmi fyllilega til greina að stækka friðlandið. Ég mótmæli því sem var fullyrt áðan af hv. þingmanni Kolbrúnu Halldórsdóttur, að ekkert skipulag sé í gildi á svæðinu. Gamla skipulagið er auðvitað í gildi á svæðinu. Ég tel mjög nauðsynlegt, og við höfum nægan tíma til þess, að fara vandlega yfir þessi mál. Við þurfum að skoða þau heildstætt og í samhengi við fyrirætlanir um náttúruvernd í landinu og í samhengi við önnur virkjanaáform sem við höfum til skoðunar. Mér sýnist að eins og málin standa í dag hafi Norðlingaalda þegar hafa verið sett á ís. Það er engin sérstök þörf á að fara í þá framkvæmd á þessari stundu.

Þannig snýr málið við mér. Ég legg áherslu á að Þjórsárverin eru gríðarlega verðmætt svæði. Ég legg líka áherslu á að við erum að vinna mjög markvisst í náttúruverndarmálum.