132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[14:41]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Eins mótsagnakennt og það kann að hljóma þá er það að vissu leyti gott að þetta leiðinlega klúðursmál skuli hafa komið fram. Vegna þess að það hefur þegar orðið og á enn eftir að verða tilefni til að þjóðin gaumgæfi þá kjaraþróun sem er að verða á Íslandi og hefur orðið á Íslandi á undanförnum árum. Þetta mál hefur orðið til þess að veita okkur innsýn í þjóðfélagið að þessu leyti. Ákvörðun Kjaradóms í lok desembermánaðar olli mikilli reiði í þjóðfélaginu. Hvers vegna? Vegna þess að Kjaradómur hafi ekki farið að lögum? Var það vegna þess að menn töldu að hann hefði ekki hlýtt þeim reglum sem honum voru settar? Ég held að reiðin hafi ekki orðið til að þeim sökum, því að í 5. gr. laga um Kjaradóm og kjaranefnd eru þessar reglur skilgreindar á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

„Við úrlausn mála skal Kjaradómur gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem hann ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar. Enn fremur skal Kjaradómur taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði.“

Ég held að hjá mjög mörgum sé sá skilningur lagður í þessi orð að sambærileg störf vísi til stöðu innan fyrirtækja og innan stjórnsýslunnar. Það er hinn almenni skilningur á því sem hér stendur. Þegar þróun kjara þeirra hópa er skoðuð, hvort sem er hjá ríkinu eða fyrirtækjum á markaði, þá hefur hún orðið umtalsvert meiri, þ.e. hækkanir hafa orðið umtalsvert hærri hjá þessum hópum en öðrum í þjóðfélaginu. Að þessu leyti endurspeglar Kjaradómur eða ákvörðun hans þann veruleika. Menn eru ekki að reiðast út af þessu. En síðan er á hitt að líta að leggja má annan skilning í orðin sambærileg störf og sambærilega ábyrgð. Hvor ber meiri ábyrgð, heilaskurðlæknir á sjúkrahúsi eða matráðskonan? Heilaskurðlæknirinn hefur einn mann undir hnífnum hverju sinni en matráðskonan ber ábyrgð á heilsu alls sjúkrahússins, allra þeirra sem þar eru og getur valdið umtalsvert meiri heilsufarslegum usla á stofnuninni ef út í þá sálma er farið. Hvor ber meiri ábyrgð?

Og hvað með ábyrgð þeirra sem sinna fötluðu fólki eða öldruðum á hjúkrunarheimilum og þurfa að vaka yfir þeim mörgum hverjum veikum og ósjálfbjarga allan sólarhringinn alla daga ársins? Hvor ber meiri ábyrgð, sá aðili eða forstjóri í fyrirtæki, svokallaðir stjórnendur? Það er þetta sem þjóðin er að horfa á. Hún er að horfa á þá gliðnun sem er að verða á milli þeirra sem stýra fólki og peningum og axla þess konar ábyrgð og hins vegar hinna sem sinna öðrum verkefnum og þurfa að sönnu að axla sína ábyrgð sem að mínum dómi er ekki minni. Þegar ákvörðun Kjaradóms varð lýðum ljós í desembermánuði þá varð hún táknræn um þessa gliðnun í samfélaginu og fólk reis réttilega upp.

Það hefur stundum verið sagt að það sé mjög mikilvægt að alþingismenn, ráðherrar og dómarar séu á mjög háum launum. Ég held að það sé mikilvægt að allir búi við góð kjör, þingmenn, dómarar og ráðherrar, en það á að sjálfsögðu við um aðrar stéttir líka. Ég vísaði til þeirra sem sinna fötluðum, sem sinna erfiðum störfum á sjúkrahúsum eða annars staðar í þjóðfélaginu, á sjó og landi. Ég held að það skipti máli að alþingismenn séu í talsambandi við þorra þjóðarinnar að þessu leyti og það verða þeir því aðeins að þeir deili kjörum með fólki eins og þau eru almennust. Ef menn trúa því virkilega að það safnaðist meiri úrvalssveit en hér er til staðar á þingi núna með því að stórhækka laun þingmanna þá held ég að það sé mikill misskilningur. Ef við horfum inn í fyrirtæki landsins, horfum á þetta fólk sem hefur tekist að klóra til sín milljónir og jafnvel tugi milljóna á mánuði, þá gef ég ekki mikið fyrir þann mannskap. Reyndar gef ég ekki mikið fyrir þá sem stýra núna þjóðarskútunni og vilja firra sig allri ábyrgð á því sem er að gerast. Eða vilja menn heyra hvað hæstv. viðskiptaráðherra Valgerður Sverrisdóttir sagði í morgunútvarpi Ríkisútvarpsins 6. janúar?

Hún sagði um hið nýja Ísland launamisréttisins, með leyfi forseta:

„Já, ég er náttúrlega hissa og ég geri mér grein fyrir því að fólki ofbýður dálítið að þetta skuli vera orðið hið nýja Ísland, að laun forstjóra séu orðin svona há. Það er ósköp eðlilegt að fólki ofbjóði en hins vegar er þetta náttúrlega mál sem stjórnmálamenn geta ekki haft áhrif á að öðru leyti en því að setja ákvæði í lög eins og ég mun beita mér fyrir.“

„Eins og ég mun beita mér fyrir.“ En hæstv. ráðherra hefur beitt sér fyrir lagasetningum og keyrt þær í gegnum þingið í tíu ár og afleiðingarnar birtast okkur öllum stundum. Hvernig? Þær hafa birst okkur í skattkerfisbreytingum ríkisstjórnarinnar og við höfum farið yfir það reglulega, t.d. fyrir rétt rúmu ári þegar breytingar voru gerðar á tekjuskattskerfinu og eignarskattskerfinu. Þar kom í ljós að einstaklingur með eina milljón kr. í mánaðartekjur eykur ráðstöfunartekjur sínar um 12,4% vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar á meðan láglaunamaðurinn eykur þær um 7,7%, þ.e. einstaklingur með 100 þús. kr. Reyndar er það svo að þeir sem minnstar hafa tekjurnar eru núna farnir að greiða skatta sem þeir gerðu ekki áður. Lækkun tekjuskatta ofan á niðurfellingu hátekjuskatts í áföngum, sem þegar er lögfest og kemur til framkvæmda á þessu kjörtímabili, veldur því að einstaklingur með 12 millj. kr. árstekjur kemur til með að hagnast um eina millj. kr. á ári vegna tekjuskattsbreytinga ríkisstjórnarinnar. Og eins og ég gat um áðan er ávinningur þessa einstaklings 12,4% hærri ráðstöfunartekjur en hann hefur nú.

Í þessu samhengi höfum við ítrekað ábendingar Öryrkjabandalags Íslands að sú breyting hafi orðið á högum öryrkja að lífeyrisþegi sem ekkert hefur nema bætur almannatrygginga sé nú farinn að greiða jafngildi tveggja mánaða útborgunar á ári hverju í beina skatta. Enn augljósari er ávinningur hátekju- og stóreignafólks af niðurfellingu eignarskatts. Fram hefur komið að einstaklingar sem eiga skuldlausa fasteign á bilinu 50–100 millj. kr. greiða að meðaltali 385.749 kr. í eignarskatt. Þeir sem eiga skuldlausa eign að verðmæti meira en 100 millj. kr. greiða sem nemur að meðaltali 895.187 kr. Það er skattapakki ríkisstjórnarinnar sem kemur þessum hópum, hátekjufólkinu og stóreignafólkinu vel.

Í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum við verið því fylgjandi að breyta eignarskattinum þannig að skattviðmið verði hækkað verulega en að stóreignamenn verði hins vegar ekki undanþegnir skatti. Út á þetta ganga tillögur okkar. Við viljum létta sköttum af þeim sem ekki eru aflögufærir en láta hina sem mala gullið greiða af eignum sínum og tekjum og við höfum flutt tillögur í þá átt. Þetta er eitt af lagaákvæðunum sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra vísar til.

Annað sem ríkisstjórnin hefur gert er að taka stofnanir og umbreyta þeim í hlutafélög. Það hefur aukið á kjaramismun í þjóðfélaginu. Forstöðumenn, forstjórarnir og sá hluti stjórnsýslunnar sem er í þeim fyrirtækjum hefur stóraukið tekjur sínar en hinir lægstu hafa staðið í stað og í sumum tilvikum hafa tekjur þeirra lækkað að raungildi, ég get komið með dæmi um það ef menn óska eftir þess.

Síðan er á það að líta að þegar litið er á kjarasamninga ríkisins við opinbera starfsmenn þá hefur hlutfallslega verið gert betur við þá sem hafa hærri tekjurnar og hærri launin en hina sem eru á meðaltekjum eða á lægstu laununum. Þetta eru staðreyndir og þetta eru gjörðir ríkisstjórnarinnar.

Það er annað sem ég hef staldrað við í umfjöllun ríkisstjórnarinnar eða fulltrúa hennar og stjórnarmeirihlutans um þessi mál og það kom einnig fram í tali bankamálaráðherrans, viðskiptaráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, í morgunútvarpinu 6. janúar. Þar kom fram að það er ekki misréttið sjálft heldur upphlaupin sem verða þegar fólk áttar sig á misréttinu sem valda ríkisstjórninni og atvinnurekendasamtökunum áhyggjum, ekki misréttið sjálft, heldur að fólk skuli koma auga á það.

Hæstv. ráðherra sagði eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Svo er það sem hefur verið bent á að þarna sé um fyrirtæki að ræða sem séu að starfa á alþjóðamarkaði og það má rétt vera að svo sé og er rétt. Engu að síður þá þarf að koma alla vega þessum málum í þann farveg að það verði ekki þetta upphlaup í þjóðfélaginu þegar eitthvað svona kemur upp og þá held ég að ráðið sé það að hluthafarnir beri ábyrgð, að það séu hluthafarnir í viðkomandi fyrirtæki sem beri ábyrgð.“

Hér er verið að vísa í umræðu sem varð í tengslum við starfslokasamninga hjá FL Group, sem ég held að það heiti núna, gamla flugfélagið okkar. Það þarf sem sagt að koma í veg fyrir upphlaup í þjóðfélaginu og það er það sem segir einnig í 1. gr. í því frumvarpi sem við erum að ræða hér. Þar er vísað í það að þess skuli gætt að það valdi ekki röskun á vinnumarkaði. Þá eru menn að horfa á mótmæli sem verða í þjóðfélaginu og þá hættu að kjarasamningum verði sagt upp þegar möguleikar eru á því. Það er í þessa veru sem ríkisstjórnin er nú byrjuð að spinna sig áfram í þessum málum.

Hafa menn tekið eftir því að þau frumvörp sem hafa komið fram að undanförnu um nýjar opinberar stofnanir, einkum þær sem sinna fjármálaumsýslu af einhverju tagi, að æðstu stjórnendur, stjórnendur fyrirtækisins eru teknir út úr, ekki bara kjarasamningsumhverfinu heldur eru þeir líka teknir undan kjaranefnd og Kjaradómi? Hvers vegna? Vegna þess að það á að vera hægt að borga þeim hærri laun, enn hærri en kjaranefnd og Kjaradómur mundi ákvarða og það sem er enn betra, það er hægt að fela ákvörðunina. Þetta á að vera samningsatriði milli stjórnar, stofnunar og æðstu stjórnenda. Þetta var t.d. gert með nýjum lögum um Fjármálaeftirlitið. Þetta var gert með lögum um Íbúðalánasjóð og fleiri stofnanir. Með öðrum orðum, í þeim anda að ekki megi valda röskun og uppþotum þá segir ríkisstjórnin að það eigi að fela þessar ákvarðanir.

Ég hef verið talsmaður þess og flutti um það þingmál árið 1995 að ákvarðanir um launakjör alþingismanna og ráðherra eigi að taka hér í þessum sal og menn hafa sagt: Það er mjög erfitt. En er ekki líka erfitt að ákvarða kjör öryrkja eða kjör atvinnulausra? Er það ekki erfitt líka? Og það reyndist mönnum nú ekki ofviða að taka ákvarðanir um eigin eftirlaunakjör, um lífeyrisfrumvarpið, það gerðu menn. Það sem fylgdi í kjölfarið var umræða vegna þess að fólk gerði sér grein fyrir því að ábyrgðin var hér og það er mikilvægt að það sé alltaf ábyrgð á bak við þær ákvarðanir sem eru teknar um umdeild og umdeilanleg mál. Það er gert í kjarasamningum. Þar eru atvinnurekendur annars vegar og það eru verkalýðsfélögin hins vegar, samningar eru bornir undir atkvæði. Það er hægt að setja forsvarsmenn beggja aðila af ef því er að skipta.

En hér erum við búin að búa til einhvern óskapnað sem heitir kjaranefnd og Kjaradómur og sumir vilja kalla dómstól, sem er náttúrlega enginn dómstóll, þetta er nefnd í stjórnsýslunni sem heitir þessu nafni en er nú ekki virðulegri en svo að þetta er bara ósköp venjuleg nefnd sem starfar samkvæmt lögum og þau lög eru meira að segja mjög matskennd, eins og ég gat um hér áðan. Ég held að það væri miklu hreinna að taka þessar ákvarðanir inn í þingið að nýju.

En hér tala ég sem einstaklingur og ekki fyrir hönd flokks. Ég held reyndar að þessi mál séu í eðli sínu þverpólitísk. Ég held að fólk hafi mismunandi skoðun á þessu í öllum flokkunum. En um hitt erum við sammála í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og ég hygg að það eigi við um stjórnarandstöðuna almennt, að gjörðir ríkisstjórnarinnar á undangengnum tíu árum hafa leitt til aukins kjaramisréttis í þjóðfélaginu og ákvörðun Kjaradóms núna um kjör þingmanna, ráðherra, dómara, forseta og annarra sem hann tekur til eða ákvarðanir hans taka til, endurspegla reiði fólks vegna þess sem hér er að gerast, þar sem einstaklingar eru að kaupa og selja í fyrirtækjum fyrir mörg þúsund milljónir. Er að undra þótt mönnum blöskri og ofbjóði? Það eru hins vegar þingmenn og ráðherrar sem eru gagnrýndir fyrir þessa þróun og það er að vissu leyti alveg rétt og alveg réttmætt þó að við í stjórnarandstöðunni vísum ábyrgðinni alfarið á hendur ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum í því efni.