132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[17:05]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það kom fram í máli síðasta ræðumanns, hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, að ýmsir annmarkar eru á þessu máli og er nokkurra þeirra getið í bréfi Dómarafélags Íslands sem hv. þm. vitnaði í. Fleiri annmarkar komu upp í hugann eftir fréttaflutning þann 19. desember. Sigurður Líndal háskólaprófessor kom þá fram í fréttum fjölmiðla og sagði að það væri stjórnarskrárbrot að taka til baka launahækkun þá sem Kjaradómur hafði ætlað forseta Íslands — álitamálin eru hér greinilega nokkur. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd á fyrir höndum erfitt verk að fara ofan í þá annmarka sem virðast til staðar og auðvitað er eðlilegt að hlutirnir séu skoðaðir afar gaumgæfilega út frá þeim ábendingum sem hafa borist og þá ekki hvað síst núna frá Dómarafélaginu.

Þetta bréf frá Dómarafélagi Íslands sýnir auðvitað líka að alþingismenn eru ekki eyland. Þeir eru ekki afmarkaður hópur í samfélaginu, aðrir hópar heyra undir Kjaradóm með sama hætti og þeir. Og þó að alþingismönnum, þjóðkjörnum fulltrúum þjóðarinnar, hafi brugðið við þá ákvörðun Kjaradóms að laun til fólks í þessum sal skyldu hækka um rúmlega 8% á sama tíma og almenn taxtalaun hækkuðu um 2,5% þá verður að segja eins og er að alþingismenn, þessir 63, geta harla lítið gert annað en það sem að þeim snýr í þessu tiltekna máli. Þá spyr maður sjálfan sig og um leið forsvarsmenn í Samtökum atvinnulífsins hvort það séu þeir 63 einstaklingar sem hér sitja sem eru að setja þjóðfélagið á annan endann eða slíta í sundur friðinn á launamarkaði. Mér er nú til efs, frú forseti, að svo sé. Vandamálið er auðvitað miklu, miklu stærra og miklu alvarlegra en svo að þeir 63 einstaklingar sem sitja í þessum sal og þiggja laun úr opinberum sjóðum geti með því að lækka sín laun kippt því í liðinn.

En hvers vegna erum við í þessari stöðu hvað launamál varðar? Hvernig stendur á því að gliðnunin á milli þeirra sem bera mikið úr býtum í launalegu tilliti og hinna sem minnst bera úr býtum er orðin svo mikil sem raun ber vitni? Og í framhaldi af því: Á ríkisstjórnin kannski einhverja sök í því máli? Kann að vera að stefna ríkisstjórnarinnar eigi þar hlut að máli? Mitt svar við því er já. Ríkisstjórnin ber mikla ábyrgð í þessu máli og kippir engu í liðinn með því að leggja fram þetta frumvarp um að ógilda síðustu niðurstöðu Kjaradóms. Vandamálið er miklu, miklu stærra en svo að hægt sé að klóra yfir það með því frumvarpi sem við ræðum hér.

Ef við skoðum mynd af því hvernig laun hafa þróast í landinu sést að frá 1995 hefur orðið gríðarleg breyting í þeim efnum. Þegar hinn svokallaði Gini-stuðull er skoðaður og útreikningar tengdir honum hvað varðar þau 20% sem mest hafa í íslensku samfélagi og hin 20% sem minnst hafa þá var bilið á milli þessara tveggja hópa árið 1995 talan 2,5. Ég veit að hv. þm. Pétur Blöndal er að skrifa þetta hjá sér, stærðfræðingurinn sem hann er fer strax af stað og skoðar málið út frá vísindum fræðigreinarinnar sem hann þekkir miklu betur en ég. Þessi stuðull — talan 2,5, sem árið 1995 myndaði bilið á milli þeirra þeirra 20% sem höfðu mest og hinna 20% sem höfðu minnst — hefur hækkað og er á árinu 2004 4,5. Á sama tíma og bilið á milli þessara 20% beggja megin á ásnum er orðið þetta mikið hjá okkur er sambærileg tala í Danmörku 3. Hvað segir það okkur? Launabilið á milli þeirra sem mikið bera úr býtum og hinna sem minnst bera úr býtum er orðið miklu, miklu meira hér en á Norðurlöndunum sem eðlilegt er að við berum okkur saman við.

Hvert stefnum við þá? Eigum við að skoða Bandaríki Norður-Ameríku á þessum sama skala? Ef við skoðum þau 20% sem mest hafa í Bandaríkjunum og hin 20% sem hafa minnst er umrædd tala 8. Í því samfélagi er ójöfnuður á milli ríkra og fátækra langmestur. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Er það þangað sem við stefnum? Erum við komin að gömlu deilumáli vinstri og hægri manna? Ætla íslensk stjórnvöld að stefna til Bandaríkjanna og gera Ísland að einni stjörnu í viðbót í því flaggi? Er raunhæft að við spyrjum þeirrar spurningar í dag? Mér sýnist það. Það er greinilega að draga miklu meira í sundur með ríkum og fátækum hér á Íslandi en í nágrannalöndum okkar.

Þá spyr maður sig: Hvaða aðferðum beita ríkisstjórnir í nágrannalöndum okkar í þessu tilliti? Er ekki rétt að ríkisstjórnin okkar skoði það afar gaumgæfilega til þess að við getum sveigt af þeim kúrs sem við erum á núna? Ef við viljum ekki svona mikið launabil skulum við grípa til aðgerða annarra en þeirra að klóra yfir síðustu niðurstöðu Kjaradóms. Það er engin leiðrétting í því fólgin, það lagar ekki grunninn í málinu. Það er grundvallaratriði að stefna ríkisstjórnarinnar í launamálum kallar þetta yfir okkur.

Sem dæmi má nefna fyrirtækjavæðingu stofnana hins opinbera og einkavæðing opinberra stofnana er annað dæmi. Við vitum það öll sem hér sitjum og höfum auðvitað oft tekist á um það að við einkavæðingu ríkisfyrirtækja breytist í fyrsta lagi launastrúktúr fyrirtækisins. Forstjórinn sem trónir á toppnum í hlutafélaginu, sem áður var ríkisstofnun, þarf nú einungis að ræða um laun sín við stjórnarformann í viðkomandi fyrirtæki. Við þekkjum öll hneykslismálin sem fjölmiðlar og almenningur fóru mikinn yfir, starfslokasamninga hjá FL Group þar sem forstjórarnir og stjórnarformaður fyrirtækisins sátu á skrafi um það hversu mörg hundruð milljónir eða margir tugir milljóna ættu að falla í hlut forstjóranna við starfslok.

Ég spyr, frú forseti: Er það eðlilegur framgangsmáti að einkavæða ríkisfyrirtæki, gera þau að hlutafélögum til þess að skapa þann jarðveg að hægt sé að semja á þessum nótum við forstjórana um ofurlaun af því tagi sem við sjáum að nú á sér stað? Ég er mjög hugsi yfir þessu öllu saman. Ég tel að ríkisstjórnin hafi sveigt af þeirri braut sem mörkuð hefur verið í okkar samfélagi, þeirri braut að við höfum reynt að halda okkur við ákveðinn jöfnuð að þessu leyti.

Ég ætla að bæta einu við í sambandi við FL Group. Mér datt í hug af því að ég var að tala um einkavæðingu, hvað varð um hlut ríkisins í Flugleiðum? Af hverju er FL Group sem einu sinni var að öllu leyti og síðan að hluta til ríkisfyrirtæki allt í einu bara orðið þetta einkafyrirtæki sem það er? (Gripið fram í.) Ríkið hefur átt stóran hlut í Flugleiðum. (Gripið fram í.) Já, það seldi þau. Ríkið seldi hlutinn sinn í Flugleiðum til að auðvelda það að hægt væri að fara með fyrirtækið inn á þessa braut sem nú er raunin. Þess vegna spyr ég: Er það ekki svolítið á okkar ábyrgð að halda ríkinu, hinu opinbera, inni í þeim fyrirtækjum sem annast grunnþjónustu í landinu? Ég er t.d. með raforkumarkaðinn í huga? Við stefnum hraðbyri í það að stórfyrirtæki á mælikvarða okkar, eins og orkufyrirtækin, lendi inn á sömu braut og þá er það þessi ríkisstjórn sem nú situr sem er ábyrg. Hún klórar ekki yfir það með breytingu á lögunum um Kjaradóm og kjaranefnd.

Frú forseti. Af þessu tilefni rifjaðist upp fyrir mér nokkuð sem ég hafði heyrt sagt um látinn þingmann, Stefán heitinn Jónsson, sem á sínum tíma var mjög mikilvirkur þingmaður. Hann flutti hér á þingi oftar en einu sinni tillögu til þingsályktunar og fór þar fyrir fríðu liði, tillögu um hámarkslaun. Það fór svo í sambandi við þetta mál að mér datt í hug að rifja upp rök Stefáns Jónssonar í því máli. Ég hef þessa tillögu í höndunum eins og hún var þegar hann flutti hana árið 1979. Hann talaði fyrir henni 1979. Hún var lögð fram 6. nóvember 1978. Í hópi meðflutningsmanna fyrrverandi hv. þm. Stefáns Jónssonar voru Helgi Seljan, Jónas Árnason, Kjartan Ólafsson og enginn annar en Ólafur Ragnar Grímsson, núverandi forseti Íslands. Í tillögutexta þessarar þingsályktunartillögu segir, með leyfi forseta:

„Alþingi skorar á ríkisstjórnina að láta undirbúa löggjöf um hámarkslaun, þar sem kveðið verði á um að ekki megi greiða hærri laun hér á landi en sem svarar tvöföldum vinnulaunum verkamanns miðað við 40 stunda vinnuviku.“

Frú forseti. Ég minni á að það er 1979 sem talað er fyrir þessari tillögu á Alþingi. Það er ekki lengra síðan en svo að hv. þingmenn létu sér detta í hug að raunhæft væri að fara fram með tillögu af þessu tagi. Ég vil ítreka það að við förum aðeins aftur í tímann með Stefáni, ekki lengra heldur en þetta þó, til 1979 og rifjum upp þann anda sem þá ríkti. Áfram segir í tillögutextanum, með leyfi forseta:

„Jafnframt verði loku fyrir það skotið að einstaklingar gegni nema einu fastlaunuðu starfi, og eins fyrir hitt að átt geti sér stað duldar launagreiðslur í formi neins konar fríðinda, umfram hámarkslaun. Með breytingu á skattalögum skal að því stefnt að einkafyrirtæki hagnist ekki á lögbundinni lækkun hæstu launa, og skal því fé, sem rennur til ríkissjóðs af þessum sökum eða sparast með niðurskurði á launum embættismanna í efstu launaþrepum, varið til almennrar kjarajöfnunar og annarra félagslegra umbóta.“

Þannig lýkur, frú forseti, tillögutexta þeirra félaga frá 1979. Andinn í þessum texta sýnir okkur að menn töldu þarna strax vera þörf á ákveðinni vakt, ákveðinni varðstöðu af því að standa þyrfti vörð um það að launabilið yrði ekki svo breitt að óbrúanlegt yrði. Þess vegna m.a. sýna þeir líka sína stéttvitund á þennan hátt, að þeir telja að það fé sem rynni í ríkissjóð við þessa aðgerð eigi að renna til almennrar kjarajöfnunar og til annarra félagslegra umbóta. Það skiptir nefnilega máli, frú forseti, að þeir sem meira bera úr býtum taki á sínar herðar stærri hluta af velferðarkerfinu. Það hvernig þessi ríkisstjórn hefur heimilað að öryrkjar og láglaunafólk sé farið að bera skattbyrðar sem aldrei var — sem ekki var á þeim tíma þegar Stefán Jónsson mælti fyrir þessari tillögu sinni — er ábyrgðarhluti og það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar sem þar á í hlut. Og að hátekjufólk skuli greiða lægra skatthlutfall, eins og vikið hefur verið að í máli ræðumanna sem hér hafa talað á undan, er auðvitað ósvinna og það er ekki hægt að láta það viðgangast að láglaunafólk og öryrkjar séu að greiða jafnstórt hlutfall af sinni innkomu í skatt og raun ber vitni. Þeir sem meira bera úr býtum þurfa að axla þær byrðar sem af okkar sameiginlegu sjóðum leiða.

Hæstv. forseti. Mig langar til að fara aðeins áfram í greinargerð með tillögu hv. þm. Stefáns Jónssonar og félaga af því að mér finnst það kippa okkur svolítið inn í kjarna þessa máls sem við hér nú ræðum og gera okkur svolítið meðvituð um ræturnar og það hvaðan við erum komin og hvert við stefnum. Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Að hyggju flutningsmanna er unnt, með því að lögbinda ákveðið hlutfall milli almennra launa verkamanns og hæstu launa, að búa svo um hnútana að kjarabætur til handa verkamönnum verði sá biti í aski hinna hálaunuðu sem þeir fái alls ekki ýtt til hliðar ef þeir hyggjast bæta mötu sína.“

Frú forseti. Það er gaman að lesa þessi gömlu þingskjöl þar sem íslenskan er svo fögur að manni finnst maður vera að lesa ljóð. Það er af sem áður var í þeim efnum, því miður, (Gripið fram í.) þannig að að mörgu leyti gætum við tekið til fyrirmyndar ýmsa þætti sem eldri þingmenn höfðu á valdi sínu á árum áður. En svo segir áfram í greinargerð Stefáns Jónssonar, með leyfi forseta:

„Svo dæmi sé tekið þá yrði það óframkvæmanlegt, eftir setningu slíkra laga sem hér eru ráðgerð, fyrir bankastjóra eða aðra forsjónarmenn íslenskra efnahagsmála, sem nú hafa margföld verkamannslaun, að veita sjálfum sér kjarabót, svo sem við hefur borið, samtímis því sem þeir úrskurða að ekki séu efnahagslegar forsendur fyrir almennri kauphækkun, sem verkafólk hefur náð fram með harðri og kostnaðarsamri baráttu til að vega upp á móti kjararýrnun, sem runnin var undan rifjum hinna fyrrnefndu.

Því kveðum við á um tvöföld verkamannslaun sem hámark, að við tökum mið af fornri hefð hérlendri um hlutaskipti á sjó, þar sem þeim skipverjum, er mesta bera ábyrgðina á úthaldinu öllu og lífi og limum áhafnar að auki, voru ætluð tvöföld laun hásetans, hins almenna verkamanns á skipinu.“

Herra forseti. Hér rökstyðja þessir heiðursmenn sem gengu götuna á undan okkur hvers vegna þeir telji það vera heilbrigt og heilbrigðismerki að sett séu mörk við því hversu stórt þetta launabil getur orðið. Ég verð að segja að mér finnst ekki óeðlilegt að við rifjum upp þessi sjónarmið því við erum þar stödd núna að við erum að missa fótanna. Við erum að horfa upp á fólk, láglaunastéttirnar sem geta ekki framfleytt sér af mánaðarlaunum sínum og þegar við horfum til þess lifistandards sem er í þessu samfélagi þá er það skömm að hér skuli vera láglaunastéttir sem ná ekki endum saman mánaðamót eftir mánaðamót á sama tíma og hægt er að gera starfslokasamninga á þeim nótum sem ég nefndi áðan við forstjóra á borð við forstjóra FL Group.

Ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnin klórar ekki yfir þá ábyrgð með þeirri breytingu sem er til staðar í því frumvarpi sem við nú ræðum. Það þarf miklu meira til. Það þarf breytt hugarfar. Það þarf að horfa á heildarmyndina. Það þarf að ákveða á hvaða kúrs við erum og svara þeirri spurningu hvort við ætlum að stefna að sams konar samfélagi og er í Bandaríkjunum þar sem bilið á milli fátækra og ríkra breikkar stöðugt að því er virðist út úr öllu korti án þess að nokkuð sé verið að gera tilraunir til að stöðva það. Mér þykir það mjög miður ef ríkisstjórnin sem fer fyrir málum á Íslandi er á þeirri braut. En mér fannst allt of margar vísbendingar vera um að svo sé.