132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[18:32]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstvirtur forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frumvarp. Þetta er í annað sinn sem ég kveð mér hljóðs um málið. Umræðan hefur að mörgu leyti verið fróðleg. Við höfum heyrt vangaveltur manna um hvernig þessu verði best háttað í framtíðinni, um ákvörðun launakjara þingmanna, ráðherra, dómara og annarra sem heyra undir Kjaradóm. Við höfum heyrt að vinir og félagar háttvirtra stjórnarþingmanna, ég nefni þar hv. þm. Pétur H. Blöndal sem hefur tekið þátt í þessari umræðu, hafa ekki komið á þing vegna þess hve lág launin eru. Þeir treysta sér ekki til að bjóða sig fram til Alþingis vegna launakjaranna. Engu að síður eru sömu hv. þingmenn og halda þessu fram samþykkir því að þessi launahækkun verði kölluð til baka. Hvernig skyldi standa á því? Það er vegna þess að þeir óttast að hún valdi óróa í samfélaginu og setji kjarasamninga úr skorðum þegar þar að kemur að þeir verða uppsegjanlegir. Mér finnst þessi tónn hafa verið einkennandi fyrir þessa umræðu af hálfu ríkisstjórnarinnar, ráðherra og þingmanna stjórnarmeirihlutans. Reyndar má heyra þann tón frá talsmönnum atvinnurekenda sem hafa fordæmt ákvarðanir Kjaradóms. Það er sem sagt ekki misréttið sem menn gagnrýna heldur hitt að menn komi auga á misréttið, að það valdi óróa í samfélaginu og geti hugsanlega valdið því að kjarasamningum verði sagt upp þegar þar að kemur.

Annað sem hefur verið áberandi í þessari umræðu eru þau viðhorf ráðherra og stjórnarmeirihlutans að þetta sé nokkuð sem komi þeim nánast ekki við. Kjaramisréttið í þjóðfélaginu kemur ríkisstjórninni ekkert við. Þá vilja þeir gleyma því að það er á vegum ríkisstjórnarinnar sem samið er við opinbera starfsmenn almennt. Það er staðreynd að samið hefur verið um meiri hækkanir til handa þeim sem standa efst í launakerfinu en til hinna sem standa neðar í launakerfinu. Þetta er eitt af þeim viðmiðum sem Kjaradómur horfir á þegar hann tekur ákvarðanir. Eins hefur verið ráðist í margvíslegar kerfisbreytingar í opinberum rekstri sem einnig hafa stuðlað að auknum kjaramun. Þar nefni ég t.d. hlutafélagavæðingu sem hefur orðið þess valdandi að æðstu stjórnendur í fyrirtækjum hafa hækkað mjög í launum. Kjör þeirra hafa batnað á alla lund. En þeir sem standa lægst hafa iðulega staðið í stað. Kjör þeirra hafa jafnvel versnað að raungildi.

Enn er á það að líta að í kjarakerfinu hafa verið gerðar breytingar sem ganga út á að forstjórar fyrirtækja eða ríkisstofnana fái hærri laun en tíðkast hjá þeim sem taka laun sín samkvæmt kjarasamningum eða ákvörðunum kjaranefndar eða Kjaradóms. Ég nefndi dæmi um þetta: Fjármálaeftirlitið, Íbúðalánasjóð og fleiri aðila. Þar er reynt að liðka um fyrir launahækkunum til æðstu stjórnenda og jafnframt hvílir mikil leynd yfir slíkum samningum. Þetta eru allt gerðir ríkisstjórnarinnar. Þá eru náttúrlega ónefnd afrekin á sviði skattamála sem hygla hátekjufólkinu í þjóðfélaginu, hátekju- og stóreignafólki, á kostnað þeirra sem hafa verstu kjörin. Við þekkjum að öryrkjar, sem eru á lægstu launum og ekki greiddu tekjuskatta þegar skattkerfinu var breytt undir lok 9. áratugarins, greiða núna umtalsverða skatta eða sem nemur örorkubótum tveggja mánaða. Það greiða þeir núna á ári. Þetta eru allt gjörðir ríkisstjórnarinnar. Reiðin í samfélaginu beinist að þessu.

Menn horfa á það sem er að gerast hjá fyrirtækjum, stóreignamönnum og stórbröskurum sem taka til sín milljónir, tugmilljónir og jafnvel hundruð milljóna í tekjur. Þetta er tekið inn með margvíslegum hætti, bæði í launum og öðrum kjörum. Þar er vert að nefna fjármagnstekjuskattinn. En sem kunnugt er liggur sá mannskapur allur í bómull, með 10% skatt á sama tíma og launafólk greiðir þrefalt hærra eða rúmlega það.

Við höfum komið með tillögur um breytingar hvað þetta snertir. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur sett fram fjölmörg þingmál sem lúta að kjarajöfnun í þjóðfélaginu. En ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég er því fylgjandi að þessi kjarahækkun verði tekin til baka og þar með vil ég leggja áherslu á þá forgangsröð sem hér á að vera við lýði. Á meðan öryrkjum, atvinnulausum og láglaunafólki er skammtað úr hnefa á ekki að hækka launin hjá því fólki sem bestu kjörin hefur og að sjálfsögðu á ekki að gera það hlutfallslega meira en gerist annars staðar. Helst á að snúa dæminu algerlega við og byrja á að bæta kjör þeirra sem hafa þau lökust.

Ég held að við þekkjum öll, í tengslum við þessa umræðu eða umræðu undanfarna daga og vikur, reiðina sem er í brjóstum þess fólks sem getur ekki séð sér eða sínum farborða, yfir að horfa upp á ákvarðanir af því tagi sem hér er um að ræða. Ég hef fengið fjölda símtala frá fólki, frá öryrkjum og láglaunafólki sem berst í bökkum, getur varla haldið húsnæði sínu. Það eru áhöld um að það haldi húsnæði sínu og það getur ekki séð sér og sínum farborða. Það krefst að sjálfsögðu annarrar forgangsröðunar í þessum sal. Ég mun styðja það.