132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Eldi á villtum þorskseiðum.

185. mál
[13:15]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Vegna athugasemda hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar um fyrirhugaða vegagerð í Mjóafirði þá liggur ljóst fyrir að það þarf að gæta sín mjög á því að trufla ekki vistkerfin þegar verið er að þvera firði. Það er afar mikilvægt fyrir okkur. Ég hlýt að vísa til þess að þarna hefur farið fram umhverfismat og áform um vegagerð á þessu svæði hafa legið fyrir. Við verðum að treysta því að umhverfismatsskoðunin tryggi að ekki sé gengið á náttúruna og vistkerfinu ógnað eins og hv. þingmaður vakti athygli á. Engu að síður þarf að hafa auga með þessu og vil ég þakka hv. þingmanni fyrir ábendinguna. Ég tel að Vegagerðin leggi sig mjög fram um allar rannsóknir vegna slíkra framkvæmda og taki að sjálfsögðu tillit til þeirra krafna sem fylgja umhverfismati í þeim efnum.