132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Rækjustofninn í Arnarfirði.

354. mál
[13:48]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Verið er að gera tilraun í Arnarfirði sem ég held að sé áhugaverð út af fyrir sig þó að ég sé sammála því að útfærslan á henni geri ekki annað en að draga meiri fisk inn í fjörðinn, þ.e. í fóðurstöðvarnar. Þess vegna hefði auðvitað verið eðlilegt að draga línu þvert yfir fjörðinn innan við fóðurstöðvarnar og leyfa Bílddælingum að veiða þann fisk sem inn fyrir fer. Þá hefðu menn gert tvennt í einu. Í fyrsta lagi áttað sig á hvernig gengi að draga fisk í fjörðinn og halda honum á ákveðnum stöðum við ætistöðvarnar eða fóðurstöðvarnar og í öðru lagi að veiða þann fisk sem gengi inn á rækjuslóðina og koma þannig í veg fyrir rækjuhrun í Arnarfirði.

Ég held að Bílddælingum hefði ekki veitt af því að fá slíkan forgang. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að það er mikil veiði í Arnarfirðinum. En það eru ekki endilega skip frá Bíldudal sem stunda þær veiðar af krafti heldur miklu frekar skip frá öðrum stöðum sem hafa yfir meiri kvóta að ráða.