132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Mál Ölgerðarinnar gegn umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur.

296. mál
[14:35]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn fyrir hæstv. umhverfisráðherra um hluti sem skipta okkur miklu máli, hún varðar hollustu og öryggi matvæla. Ég er á því að hæstv. umhverfisráðherra ætti að sinna þessu af mikilli kostgæfni og ég er viss um að hún hefur örugglega velt þessu fyrir sér. Ef svo er ekki þá væri það ærið undarlegt.

Þann 17. mars í fyrra kvað úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir upp úrskurð. Þessi nefnd, fyrir þá sem ekki vita það, er ein af 58 úrskurðarnefndum í stjórnsýslunni. Ég hef svo sem miklar efasemdir um þessar úrskurðarnefndir, sem hefur komið hér fram áður. Þetta er orðinn fjöldinn allur af nefndum sem starfa einhvers staðar úti í bæ. Það kemur fram í þessum úrskurði nefndarinnar að hún líti á að lög nr. 93/1995, um matvæli, séu með öllu ónothæf í því að matvælaframleiðendum verði ekki selt sjálfdæmi um hvaða bætiefnum þeir bæta í matvörur og drykki landsmanna og í hve miklum mæli.

Flestum er ljóst að íblöndun bætiefna, svo sem vítamína í miklum mæli, getur beinlínis verið óholl og á það sérstaklega við um börn. Það hefur komið fram í úrskurði þessarar nefndar að yfirvöldum hefur beinlínis verið bannað að ætlast til þess að matvælaframleiðendur vari börn við að neyta ákveðinna drykkja. Einnig hefur hún kveðið upp þann úrskurð að yfirvöldum matvælaeftirlits er beinlínis bannað að koma í veg fyrir dreifingu matvæla sem geta verið óholl. Þess vegna ætti það að vera forgangsverkefni umhverfisráðherra, eins og ég sagði í byrjun, sem fer með málefni matvæla í ríkisstjórninni, að bregðast við þessum úrskurði. Hefur hæstv. ráðherra brugðist við þessum úrskurði og ef svo er hver hafa viðbrögðin verið? Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlit hafa beitt 19. gr. reglugerðar nr. 285/2002 sem segir að það eigi að sækja um leyfi til Umhverfisstofnunar. En nú segir í þessum úrskurði, sem ég óska eftir viðbrögðum hæstv. ráðherra við, að 19. gr. sé marklaus, það sé marklaust að menn eigi að sækja um leyfi. Það hljóta því að vera lágmarksviðbrögð hæstv. ráðherra að fella 19. gr. úr gildi. Það er með öllu óþolandi að vera með í reglum og lögum einhverjar greinar sem hafa ekkert gildi.