132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Undirbúningur nýrrar fangelsisbyggingar.

199. mál
[15:04]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um staðarval fangelsisbyggingar á höfuðborgarsvæðinu þá var ríkinu árið 2001 úthlutuð lóð fyrir fangelsi á Hólmsheiði norðan Suðurlandsvegar. Í þeim áætlunum sem unnið er eftir er gert ráð fyrir staðsetningu fangelsis á umræddri lóð.

Hv. þingmaður spyr einnig um verkáætlun í þessu sambandi. Í október 2004 skilaði Fangelsismálastofnun mér skýrslu sem ber yfirskriftina Markmið í fangelsismálum og framtíðaruppbygging fangelsanna, en þar var samkvæmt minni beiðni farið yfir fyrirliggjandi hugmyndir og tillögur gerðar af heildaruppbyggingu á sviði fangelsismála bæði hvað byggingar varðar sem og í tengslum við nýja löggjöf á þessu sviði. Fangelsismálastofnun var í kjölfarið falið að vinna að nánari framkvæmdaáætlun og í mars á síðasta ári var tillaga mín um uppbyggingu fangelsa samþykkt í ríkisstjórn. Þar var jafnframt ákveðið að fela dómsmálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti frekari útfærslu. Ráðinn var sérstakur verkefnisstjóri sem fylgt hefur þessu verki síðan og skilaði hann í september á síðasta ári frumathugun fyrir heildaruppbyggingu fangelsanna.

Í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir framlögum til að hefja nauðsynlegar endurbætur á Akureyri auk þess sem ráðist verður í breytingar á Kvíabryggju sem miða að því að fjölga þar rýmum og bæta aðstöðu. Unnið er að frumathugun vegna breytinga sem fyrirhugaðar eru á Litla-Hrauni en ekki liggur fyrir endanleg ákvörðun um tímasetningu þeirra framkvæmda né tímasetningu framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu og verður að verkinu unnið í samræmi við lög um opinberar framkvæmdir.

Að síðustu spyr hv. þingmaður hvenær búast megi við að starfsemi verði hætt í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og fangelsinu í Kópavogi. Erfitt er að hætta rekstri fangelsis við Skólavörðustíg fyrr en nýtt fangelsi hefur tekið til starfa. Engar tímasetningar liggja fyrir hvað fangelsið í Kópavogi varðar en skipulag bæjaryfirvalda gerir ekki ráð fyrir starfrækslu þess í framtíðinni.