132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Umræða um störf þingsins.

[11:09]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þau orð sem hafa fallið undir þessum lið, fundarstjórn forseta, eru með þeim hætti að ég tel mig knúna til að koma hér upp og gera grein fyrir minni hlið málanna.

Mér þykir hv. formaður menntamálanefndar hafa gert heldur lítið úr samþingmönnum sínum með því hvernig hann segir frá því að við höfum orðið að víkja af fundi í morgun sem boðaður var í gærkvöldi. Til mín bárust boðin, ég held, milli níu og tíu í gærkvöldi um að það yrði fundur milli klukkan níu og tíu í menntamálanefnd. Ég átti sjálf pantaða tíma hjá tveimur læknum á sama tíma og gerði mér ferð inn á fundinn til að geta tekið við þeim gögnum og fylgt úr hlaði þeirri yfirlýsingu sem þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram og send hefur verið fjölmiðlum og hv. þingmönnum er aðgengileg.

Það er í hæsta máta óeðlilegt að menntamálanefnd Alþingis skuli þurfa að fá ákúrur frá hv. formanni sínum fyrir að telja sig ekki geta setið undir upplestri lögfræðinga ráðuneytanna á mjög viðamiklum gögnum sem við vorum að fá í hendur og við erum búin að biðja um frá því í haust, þar sem það er alsiða í nefndinni að fyrst fái þingmenn að kynna sér gögn áður en fulltrúar ráðuneytanna koma og svara síðan spurningum þingmanna eftir að þingmenn hafa farið yfir gögnin. Ég tel því okkur hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar í menntamálanefnd ekki eiga skilið að fá þær ákúrur sem hv. þingmaður sendir okkur úr þessum ræðustóli undir þessum dagskrárlið.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson upplýsti það að málið yrði tekið fyrir, þ.e. að ríkisútvarpsfrumvarp menntamálaráðherra yrði rætt í þinginu á mánudag. Úr því að þetta mál er komið í hámæli og er rætt hér á þessum nótum þá vil ég biðja hæstv. forseta að athuga það að stór hluti menntamálanefndar verður staddur á Norðurlandaráðsþingi. Nú kom það óvænt upp að ég þarf að fara á Norðurlandaráðsþingið. Ég hef verið talsmaður Vinstri grænna í útvarpsmálunum, fjölmiðlamálunum. Ég átti sæti í fjölmiðlanefndinni fyrir hönd flokksins. Mér þykir ekki þægilegt að fá tilkynningu frá hv. formanni nefndarinnar að málið eigi að koma á dagskrá á mánudaginn þegar ég þarf að fara af landi brott í erindagerðum þingsins. Ég mælist því til þess við hæstv. forseta, ef því verður við komið með nokkru móti, að málið verði ekki sett á dagskrá þingsins því að stór hluti þingmanna menntamálanefndar verður staddur á Norðurlandaráðsþingi að sinna sínum störfum þar.