132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Umræða um störf þingsins.

[11:16]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Forseti. Ég vil nú gjarnan víkja að nokkrum atriðum sem hér hafa komið fram í ræðum nokkurra hv. þingmanna eins og hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur sem hélt því fram að ég væri að gera lítið úr þingmönnum og væri að veita þeim ákúrur. Hún taldi sérstaka ástæðu til þess að gera grein fyrir því hvers vegna hún þurfti sjálf að fara af fundi.

Ég tók það fram þegar ég ræddi hér um störf þingsins að a.m.k. hluti þeirra þingmanna sem þurfti að víkja af fundi, þar á meðal hún sjálf, hefðu haft til þess eðlilegar ástæður. Það vildi samt sem áður þannig til að einungis einn fulltrúi stjórnarandstöðunnar var við umfjöllun um þessi gögn meðan fulltrúar frá ráðuneytunum voru að fara yfir þau, það var áheyrnarfulltrúinn. Þetta eru bara staðreyndir málsins.

Ég vil líka taka það skýrt fram, af því að hv. þm. Mörður Árnason vék hér að því hvernig staðið var að boðun þessa fundar, þá lagði ég sem formaður menntamálanefndar mikið á mig til þess að hægt væri að fresta þessum fundi til klukkan 10.30, þ.e. fundi menntamálanefndar, og það getur hæstv. forseti vitnað um, til þess að hv. þm. Einar Már Sigurðarson kæmist til fundarins, vegna þess að ég vissi að hann var staddur fyrir austan. (Gripið fram í: Veðurtepptur.) Ég óskaði eftir því við hæstv. forseta hvort hægt væri að verða við slíku. Það reyndist ekki vera og málið náði því ekki lengra en þangað. Hins vegar var boðað til fundarins milli klukkan fimm og sex í gær þannig að það lá fyrir með töluvert góðum fyrirvara hvenær hann yrði.

Ég tel náttúrlega í ljósi þess að gögnin hafa verið lögð fram að það sé hægt að taka frumvarp hæstv. menntamálaráðherra til umræðu vegna þess að það var forsenda þess af hálfu stjórnarandstöðuþingmanna í menntamálanefnd að þeir fengju að sjá þessi gögn. Nú hafa þeir fengið að sjá þau. Ég minni þá líka á það af því að þeir hafa ekki verið að vanda mönnum kveðjurnar hér úr ræðustól hins háa Alþingis, þar og meðal mér og fleiri hv. þingmönnum, (Gripið fram í.) að öll þessi vitleysa er komin upp vegna þess að það voru hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar með hv. þm. Mörð Árnason í broddi fylkingar sem óskuðu eftir því að gögnin yrðu lögð fram. Ég lagði mig í framkróka við það að fá þessi gögn til nefndarinnar fyrir hv. þingmann og fyrir stjórnarandstöðuna. En þegar þau voru lögð fram vildi stjórnarandstaðan ekki taka við gögnunum sem er ákaflega sérstakt vegna þess að hún sjálf og hv. þm. Mörður Árnason höfðu framgöngu um það og frumkvæði að óska eftir þeim. (Forseti hringir.)

Staða þessa mál er því þannig að hún er algjörlega stjórnarandstöðunni að kenna og þeir geta bara sjálfum sér um kennt og hætt að beina spjótum sínum að öðrum.