132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[12:22]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi eitthvað mistúlkað orð mín því það kom ekki fram hjá mér að það léki mikill vafi á þessu. Ég sagði að það væri brýn nauðsyn og réttmæt rök fyrir því að við erum að taka þessar ákvarðanir sem við erum að framfylgja hér í dag. Þannig að það er nú ekki rétt. En ég fagna því sem fram kom hjá hv. þingmanni að það er ekki mikill munur á túlkunum okkar og menn geta auðvitað túlkað orð fram og til baka og það er auðvitað kjarni málsins. En það er líka þannig þegar við skoðum þessar tillögur, bæði meiri og minni hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar, að það ber kannski ekki mjög mikið á milli. Ég held að það sé mikilvægt að við klárum þessa umræðu í dag og förum að koma þessu máli í þann farveg sem það á að fara, þ.e. að þessi nefnd geti tekið til starfa því öll viljum við að þetta fari í annan farveg og verði klárað. Ég efast ekki um að við eigum eftir að ræða þá niðurstöðu, vonandi í vor áður en þing klárast.