132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[12:23]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég harma að ekki skuli hafa náðst þverpólitísk samstaða hér á Alþingi um afgreiðslu þessa máls. Þegar óánægjualdan í þjóðfélaginu reis í kjölfar úrskurðar Kjaradóms 19. desember sl. lýsti stjórnarandstaðan á Alþingi því yfir, og gerði reyndar kröfu um, að þing yrði kallað saman þegar í stað til að bregðast við kröfu þjóðfélagsins. Hver var sú krafa? Af hverju stafaði sú reiði sem gerði vart við sig í þjóðfélaginu á þessum tíma? Hún stafaði af því mikla kjaramisrétti sem þjóðin er að verða vitni að. Við erum að verða vitni að því annars vegar að stóreignamenn, sem margir hverjir hafa komist yfir auð sinn vegna pólitískra vildargreiða, eru að höndla hér, einir og sér, eru að höndla persónulega, fyrir marga milljarða, í einu tilvikinu 5,5 milljarða á einu bretti. Þetta eru einstaklingar sem búa yfir þessum auð sem þeir hafa safnað til sín í skjóli þeirrar ríkisstjórnar sem situr að völdum. Annars vegar er fólk að horfa upp á þetta, upp á starfslokasamninga sem nema hundruðum milljóna kr., upp á mánaðarlaun sem eru talin í milljónum, tugum milljóna og jafnvel hundruðum milljóna. Hins vegar horfum við til láglaunafólksins og millitekjufólksins, að ekki sé talað um öryrkja og atvinnulausa sem eru búin slík afarkjör að fólk nær ekki endum saman, á ekki fyrir nauðþurftum.

Þegar úrskurður Kjaradóms fellur þykir hann táknrænn um þessa þróun. Krafa stjórnarandstöðunnar um að þing kæmi saman laut að því að við ræddum ekki einvörðungu um niðurstöðu Kjaradóms, að við létum ekki sitja við það eitt að ýta honum út af borðinu og stíga þannig fyrstu skrefin til að jafna kjörin innan opinbera geirans sem er sjálfsagður hlutur að gera. Nei, við vildum stíga stærri skref. Við vildum ræða úrræði sem löggjafinn gæti gripið til núna til að draga úr kjaramisréttinu í þjóðfélaginu. Við vildum t.d. ræða skattastefnu ríkisstjórnarinnar sem hefur orðið þess valdandi að álögur á láglaunafólk hafa aukist stórlega á sama tíma og stóreignafólkið er lagt í bómull, létt af því sköttum. Eða gera menn sér grein fyrir að þegar skattaáform ríkisstjórnarinnar eru komin til framkvæmda þá mun sá einstaklingur sem aflar 12 millj. kr. á ári hagnast vegna skattkerfisbreytinga stjórnvalda um 1 millj. kr. á ári. Á sama tíma og öryrkinn kemur til með að greiða sem nemur örorkubótum í tvo mánuði í skatta. Þetta er hin pólitíska stefna sem við vildum ræða. Og ekki bara að ræða heldur reyna að ná samstöðu um úrræði sem dragi úr þessu hróplega misrétti í þjóðfélaginu. Ríkisstjórnin hafnaði kröfu stjórnarandstöðunnar. Hún treysti sér ekki til að horfast í augu við afleiðingar eigin gerða. Hún vildi einskorða umræðuna við það eitt að taka á úrskurði Kjaradóms. Við höfðum lýst því yfir, og gerðum það allar götur frá því að málið kom upp á borðið, að við værum því samþykk. En við vildum ekki láta sitja við þetta eitt heldur stíga skref til kjarajöfnunar í þjóðfélaginu. Það ber að harma að stjórnvöld skuli ekki hafa haft vilja til að verða við þeim réttmætu kröfum.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagði fram tillögur hér á Alþingi í haust sem ganga út á kjarajöfnun — að létta byrðunum af láglauna- og lágtekjufólkinu og bæta stöðu þess innan velferðarkerfisins með því að draga úr og afnema helst gjaldtöku, t.d. innan heilbrigðisþjónustunnar. Við erum því fylgjandi að létta sköttum af þeim sem búa við bágborin kjör. Í tillögum okkar um hækkun fjármagnstekjuskatts er að finna ákvæði um persónuafslátt til smásparandans. Þegar eignarskatturinn kom til umfjöllunar, áform ríkisstjórnarinnar um að nema hann úr gildi, bentum við á að við ættum að aðgreina annars vegar þann hóp sem býr við góð kjör, að ekki sé minnst á ofurkjörin, stóreignafólkið, og hins vegar hina sem búa við bágborin kjör. Skyldu menn gera sér grein fyrir því að þeir sem eiga skuldlausa eign að verðmæti meira en 100 millj. kr. greiða sem nemur að meðaltali 900 þús. kr. í skatt á ári. Hann er numinn brott. Hann er numinn brott með öllu. Þetta eru geysilegar kjarabætur fyrir þennan hóp. En hinir sem ekkert eiga og hafa ekki úr að spila nema örorkubótum, atvinnuleysisbótum eða lágum launum hagnast að sjálfsögðu ekki með þessum breytingum.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði lögðum fram tillögur um að breyta eignarskattinum þannig að skattviðmiðið yrði hækkað verulega en stóreignamenn yrðu hins vegar ekki undanþegnir skatti. Okkar tillögur hafa þannig gengið út á að jafna kjörin í þjóðfélaginu. Út á það gekk krafa þjóðarinnar í desembermánuði. Niðurstaða Kjaradóms, eins og ég gat um áðan, var hins vegar táknræn fyrir þessa þróun. Að vissu leyti má segja að í öllum athöfnum ríkisstjórnarinnar í tengslum við málið felist afneitun á að horfast í augu við afleiðingar eigin gerða. Eða muna menn eftir umræðunni sem fram fór í þessum sal árið 1996, um breytta réttar- og réttindastöðu starfsmanna hins opinbera? Þar var kveðið á um í lögum að reynt yrði að færa kjaraumhverfi innan hins opinbera til samræmis við það sem tíðkast á einkamarkaði, ekki bara hjá láglaunafólki heldur líka hjá þeim sem stæðu á toppnum. Þetta var yfirlýst stefna, yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar. Nú eru afleiðingarnar að koma í ljós, ávextirnir af ræktunarstarfi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Hlustið á málflutninginn og rökstuðninginn úr stjórnarherbúðunum þegar þessi mál eru rædd. Menn hafa ekki áhyggjur af því kjaramisrétti sem dómur Kjaradóms er ein vísbendingin um. Menn hafa ekki áhyggjur af kjaramisréttinu sem slíku, heldur hinu að launafólkið, láglaunafólk, millitekjufólk, öryrkinn og hinn atvinnulausi, komi auga á misréttið og geri kröfur sér til handa. Það er ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin vill grípa til aðgerða og engin önnur.

Það kemur fram í áliti meiri hlutans í efnahags- og viðskiptanefnd að niðurstaða Kjaradóms hafi vakið sterk viðbrögð og leitt til óróa á vinnumarkaði og aðgerðir stjórnarmeirihlutans lúti að því einu að lægja þær öldur. Hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Pétur H. Blöndal, kom í ræðustól þegar þetta mál kom fyrst til umfjöllunar og sagði eitthvað á þá leið að það væri áhyggjuefni hvaða kjör þingmönnum væru búin. Það fældi fólk frá, þ.e. einhverja af vinum þingmannsins frá því að sækjast eftir slíku starfi. Hann gagnrýnir með öðrum orðum ekki kjörin sem slík heldur hvernig þessa hluti ber að. Út á það gengur gagnrýnin. Okkar gagnrýni lýtur á hinn bóginn að kjaramisréttinu, bæði í samfélaginu almennt og einnig innan hins opinbera. Við höfum orðið vitni að kjarasamningum þar sem betur er gert við þá sem standa ofar en hina sem standa neðar í launastiganum. Þetta eru staðreyndir. Þær hafa verið staðfestar í umræðum um þetta mál og umfjöllun innan efnahags- og viðskiptanefndar þingsins.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þessi mál núna þótt fullt tilefni væri til að ræða stefnu ríkisstjórnarinnar á fjölmörgum sviðum, stefnu sem hefur leitt af sér misrétti á misrétti ofan. Um það er hægt að taka fjölmörg dæmi en ég mun ekki gera það að sinni. Ég hefði hins vegar viljað leggja áherslu á að með þessu máli, með úrskurði Kjaradóms, birtist aðeins ein mynd. Þetta er birtingarmynd hins mikla misréttis sem skapast hefur í samfélaginu. Reyndar er það rangt orðalag að segja að það hafi skapast, það hefur verið skapað vegna þess að að baki því búa ákvarðanir ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans á Alþingi.

Hæstv. forseti. Við höfum gert grein fyrir tillögum okkar. Ég vísa þar í mál hv. framsögumanns Lúðvíks Bergvinssonar. Við teljum að aðferð okkar, við að ýta ákvörðun eða niðurstöðu Kjaradóms út af borðinu, sé heppilegri og skynsamlegri og betur í takt við þær ábendingar sem efnahags- og viðskiptanefnd fékk um málið frá sérfróðum aðilum sem til voru kallaðir. Við viljum ganga lengra en ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn að því leyti að við viljum að niðurstöður Kjaradóms frá 19. desember verði að öllu leyti settar á ís. Að öllu leyti og engin 2,5% launahækkun núna. Engin. Við viljum að fest verði í lög skuldbindandi dagsetning um að nýtt fyrirkomulag liggi fyrir um miðjan marsmánuð og að þeir sem komi til með að taka ákvarðanir fyrir 1. júní næstkomandi komi að hreinu borði. Þar horfi þeir aftur til 1. febrúar. Það er ekki þar með sagt að þeir geti ekki ákveðið að frá 1. febrúar skuli engin launahækkun koma til framkvæmda. Við bindum ákvörðunaraðilann ekki niður að því leyti.

Það sem liggur á að gera er að ná samstöðu í þinginu um með hvaða hætti eigi að ákvarða launakjör þeirra sem nú heyra undir Kjaradóm og kjaranefnd. Ég hef sett fram þingmál um það efni. Fyrir allmörgum árum setti ég fram tillögu um tiltekið fyrirkomulag. Ég ætla ekki að gera það að umræðuefni núna. Ég ætla ekki að fara út í þá sálma núna, hvað sem síðar verður þegar þessi mál koma að nýju til kasta þingsins. En síðan tek ég undir með hv. þingmanni Lúðvík Bergvinssyni með að þeir lögfróðu aðilar sem til voru kvaddir höfðu miklar efasemdir um og settu fram skýr og afdráttarlaus varnaðarorð við því að nálgun ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans kynni að brjóta í bága við stjórnarskrá.

Það er ekkert launungarmál, ég hef oft látið það koma fram opinberlega, að ég tel að menn hafi iðulega gengið of langt í að telja stjórnarskránni ógnað. Persónulega fannst mér ábendingar lögfræðinganna ekki vera sannfærandi. Ég er ekki sannfærður um niðurstöðu þeirra þótt við skírskotum til málflutnings þeirra í nefndaráliti okkar. Að sjálfsögðu, þótt ég sé ekki sammála niðurstöðum þeirra, finnst mér að Alþingi beri skylda til að taka varnaðarorð þeirra alvarlega og að haga lagasetningu þannig að ekki leiki vafi á að menn umgangist stjórnarskrána af tilhlýðilegri virðingu. Að sjálfsögðu vil ég styðja slíkt, hvað sem líður persónulegri skoðun minni á málinu.

Hæstv. forseti. Ég gæti haft um þetta fleiri orð en hér var gerð grein fyrir afstöðu okkar í ræðu talsmanns minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar og læt ég því máli mínu lokið.