132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[12:40]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma inn á eitt atriði í ræðu hv. þingmanns Ögmundar Jónassonar, sem ég er ekki alveg fyllilega sammála. Ég hefði viljað heyra betri skýringar af hans hálfu, þ.e. varðandi það að í nefndaráliti og breytingartillögum minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar sé gengið lengra en í tillögum meiri hlutans. Hv. þingmaður talar um að sú nefnd sem vonandi verður skipuð fyrir vorið komi að hreinu borði. Ég er ekki alveg sammála því. Mín túlkun er sú — væntanlega er hv. þingmaður með aðra túlkun á því — að við gerum ráð fyrir 2,5% hækkun eins og gerist og gengur á almennum vinnumarkaði. Þetta er mildari aðgerð og eðlilegt að hún fylgi þeirri þróun, a.m.k. að okkar mati. En þá líka er allt frá.

Við erum ekki með restina hangandi yfir þessari nefnd. Nefndin þarf því ekki að byrja á að taka tillit til, ef hún kæmist að þeirri niðurstöðu að hækka eigi launin, hvort það verði afturvirkt eða ekki. En hjá okkur er ekki um neitt slíkt að ræða. Ég mundi því kannski vilja fá betri útskýringar á þessu. Mér finnst að í tillögum okkar liggi skýrt fyrir að nefndin muni koma að hreinu borði. Engin afturvirkni, engir afgangar eftir frá því í desember.

Ég vildi benda á þetta en jafnframt fagna orðum hv. þingmanns. Ég er honum fyllilega sammála um að við eigum að ná samstöðu í þinginu með vorinu um hver starfsskilyrði Kjaradóms eigi að vera í framtíðinni.