132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[12:43]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Staðreyndin sú að ég hef verið því fylgjandi, út á það gekk þingmál mitt á sínum tíma, fyrir rúmum tíu árum, að Alþingi tæki ákvörðun um þessi launakjör og stæði og félli með þeirri ákvörðun. Fyrir því var ekki vilji á Alþingi. Með frumvarpi ríkisstjórnarinnar er slík ákvörðun hins vegar tekin. Alþingi hefur tekið ákvörðun um að laun þingmanna og þeirra sem heyra undir Kjaradóm skuli hækka um 2,5% 1. febrúar.

Ég er andvígur því, nema að menn vilji ganga alla leið og fara að þeim tillögum sem ég lagði fram. Alþingi tekur þessa ákvörðun. Stjórnarandstaðan á Alþingi vill hins vegar ganga lengra að því leyti að launaákvörðunum verði öllum ýtt út af borðinu og engar hækkanir komi til sögunnar. Eða hvaða náttúrulögmál telja menn þessi 2,5% vera? Hver hefur umboð til að ákvarða það fyrir allt kjaraumhverfið í landinu? Það er bara alrangt. Ég vísa því alfarið til föðurhúsanna. Hver hefur ákvörðunarvald í því efni? (Gripið fram í.) Það er ekki niðurstaða víðtækrar þjóðarsáttar, því fer fjarri. Það er bara alrangt.

Ef menn vilja taka þá línu sem ég er talsmaður fyrir, að draga úr kjaramun í þjóðfélaginu almennt og innan hins opinbera, hvers vegna ekki byrja þá á þessum toppi og setja á hann bremsu á meðan unnið verður að því að ýta upp á við þeim sem búa við léleg eða miðlungs kjör? Það er sú stefna sem ég er fylgjandi. En ríkisstjórnarmeirihlutinn á Alþingi vill greinilega að ákvarðanir verði teknar hér um laun þeirra sem heyra undir Kjaradóm. Menn verða að vera sjálfum sér samkvæmir hvað þetta snertir. Við göngum lengra að þessu leyti og viljum hreint borð fyrir nýtt ákvörðunarferli.