132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[12:47]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvers vegna ættu ákvarðanir um launakjör þingmanna alltaf að vera óvinsælar? Er það ekki bara ef þær eru ranglátar eða siðlausar? Hvers vegna er ekki hægt að taka ákvarðanir um þessi launakjör sem menn telja réttlátar? Ég held að það sé hægt.

Ég spyr hv. þingmann sem á eftir að koma inn í umræðuna: Hvers vegna vill þingmaðurinn að hátekjufólkinu, þeim sem tróna á toppnum, beri sama hlutfallshækkun og láglaunafólkinu, lægsta fólkinu, sama hlutfallshækkun miklu fleiri krónur að sjálfsögðu? Hvaða náttúrulögmál eru þetta? Ég bara spyr.

Ef menn vilja taka þessa kjaraákvörðun inn í (DJ: Þetta er útúrsnúningur.) Þetta er ekki útúrsnúningur, nei. Það hefur margoft verið samið um krónutöluhækkun í samningum. Ég hef staðið að slíkum samningum. (PHB: Ekki þú.) Ég hef gert það jú, við höfum gert það og það hefur margoft verið gert. Jú, jú. Ég get farið í ítarlega umræðu um þetta við hv. þm. Pétur H. Blöndal.

Ef þingið vill taka inn á sitt borð ákvarðanir um launakjör alþingismanna og ráðherra, gott og vel, þá er ég því fylgjandi en þá skulum við vera sjálfum okkur samkvæm og ganga alla leið. Hér er þingið hins vegar, samkvæmt tillögu stjórnar meiri hlutans, að taka þetta ákvörðunarvald í eigin hendur og grípur einhverja tölu úr samningum úti á vinnumarkaði, 2,5% og telur sig eiga rétt á því líka. Hvaða rétt telur Alþingi og stjórnarmeirihlutinn sig eiga á því? Ég hélt að við værum að grípa til þessara ráðstafana til að draga úr kjaramismun í samfélaginu. Er engin meining á bak við það? Við leggjum þess vegna til að dómnum verði ýtt út af borðinu að öllu leyti og menn gangi að hreinu borði.