132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[14:12]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég átti sæti í efnahags- og viðskiptanefnd og var því viðstödd umræðu nefndarinnar um þetta mál. Það var mjög gagnleg og fróðleg umræða og víða komið við. Þess vegna finnst afar sérstætt að meiri hlutinn skuli ekki telja sig þurfa að setja í nefndarálit sitt neitt um þá umfjöllun sem þar fór fram. Það sýnir manni ljóslega að meiri hluti nefndarinnar er ekki með góða samvisku gagnvart frumvarpinu sem hér á að fara greiða atkvæði um.

Kannski má rekja það til þess að þeir hafi séð ljósið að endingu, að skynsamlegra hefði verið að fara þá leið sem við í stjórnarandstöðunni lögðum til, þ.e. að áður en úrskurður Kjaradóms tók gildi 1. janúar hefði verið skynsamlegra að koma saman til þings og fresta gildistöku þess úrskurðar um tiltekinn tíma, kannski þrjá til fjóra mánuði, á meðan menn áttuðu sig á hvernig best væri að taka á málinu. Þá hefði m.a. gefist svigrúm til þess, fyrir nefndina sem á að setja á laggirnar í kjölfar þessa úrskurðar, að endurskipuleggja það fyrirkomulag sem er á ákvörðun launa fyrir kjaradóms- og kjaranefndarfólk. Hugsanlega hefði verið hægt að taka mið af þeirri niðurstöð við að fella þennan úrskurð úr gildi.

Málið er allt erfiðara viðfangs eftir að úrskurður Kjaradóms tók gildi 1. janúar, þegar rétturinn er orðinn virkur gagnvart því fólki sem átti að fá kjarabætur með úrskurði Kjaradóms. Það að rétturinn sé orðinn virkur er góður stuðningur við þá sem ætla að sækja rétt sinn fyrir dómstólunum til að hnekkja þeirri ákvörðun Alþingis sem meiri hlutinn ætlar sér greinilega að taka.

Það kom skýrt fram í máli þeirra lögmanna sem fjölluðu um þetta að þegar rétturinn væri orðinn virkur væru miklu meiri líkur á að þeir sem leituðu réttar síns fyrir dómi vegna þeirrar leiðar sem hér á að fara mundu ná því fram að þessum lögum yrði hnekkt.

Það er full ástæða til að fara yfir það mál vegna þess að það var töluvert mikið til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd hver áhrifin yrðu ef þessum úrskurði yrði breytt með lögum. Það er töluverður þungi og alvara af hálfu dómara og Dómarafélags Íslands að láta þetta ekki óátalið yfir sig ganga og sést það best á því bréfi sem Dómarafélagið sendi efnahags- og viðskiptanefnd þar sem þeir telja að ekki sé hægt að breyta úrskurði Kjaradóms vegna eignarréttarákvæðis í 72. gr. stjórnarskrárinnar. Færa þeir rök fyrir máli sínu og komast að þeirri niðurstöðu í bréfinu til efnahags- og viðskiptanefndar þar sem orðrétt segir:

„Kæmi hins vegar til að Alþingi samþykkti breytingar í þá veru kynni félagið að telja sig knúið til að láta reyna á hvort þær væru samrýmanlegar stjórnarskránni.“

Fulltrúar Dómarafélagsins komu á fund efnahags- og viðskiptanefndar og ég marka það svo af ummælum fulltrúa Dómarafélagsins sem mættu fyrir nefndina að það liggi raunverulega í loftinu að annaðhvort einstaka dómarar eða Dómarafélag Íslands í heild sinni fari með málið fyrir dómstóla.

Alltaf þegar stjórnarskráin er undir og vafi leikur á hvort lög sem verið er að setja hér standist stjórnarskrána ber auðvitað að fara varlega í því efni og hefur niðurstaða stjórnarandstöðunnar tekið mið af því. Ég leitaði m.a. eftir því hjá þeim fulltrúum sem komu á fund nefndarinnar, bæði prófessorum og t.d. formanni kjaranefndar, Guðrúnu Zoëga, hvort það væri betra að fara þá leið sem við í stjórnarandstöðunni höfum lagt hér til og lýstum því efnislega hvaða hugmyndir væru þar uppi. Það kom fram m.a. hjá Guðrúnu Zoëga að hún teldi það til bóta að frumvarpinu yrði breytt í þá veru að þessum úrskurði yrði frestað þar til nefndin sem á að skipa hafi lokið störfum, en þó kannski ekki lengur en tiltekinn tíma. Það er raunverulega sú leið sem við förum hér og það er sú leið sem t.d. formaður kjaranefndar lýsti að væri til bóta að breyta frumvarpinu. Lagaprófessorarnir sögðu að það væri miklu minni hætta á að hægt væri að hnekkja fyrir dómstólum þeirri leið sem við værum að fara heldur en þeirri leið sem stjórnarflokkarnir hafa valið.

Ákvæðið í 2. mgr. 1. gr., svokallað frystingarákvæði, var nokkuð til umræðu þar sem verið er að taka úr sambandi ákvarðanir Kjaradóms og kjaranefndar það sem eftir lifir þessa árs þar sem dómurinn og kjaranefndin eiga einungis að taka mið af samningsbundnum hækkunum kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði. Það kom fram í nefndinni að hækkanir eru í pípunum hjá BHM-félögum um allt að 3,8% og það lá nokkurn veginn fyrir að kjaranefnd hefði að óbreyttu, ef Alþingi hefði ekki verið að hlutast til í málinu, og eftir atvikum Kjaradómur, tekið mið af þeim hækkunum sem þar koma fram í maí. Frumvarpið tekur á því að kjaranefnd og Kjaradómur geta ekkert gert að því er varðar aðrar hækkanir á þessu ári. Formaður Kjaranefndar lýsti því svo að það leiddi til þess að það byggðist upp þrýstingur sem erfitt væri að ráða við þegar safnast hefðu upp á þessu ári einhverjar hækkanir sem kjaranefndarfólk hefði lögum samkvæmt átt að fá og þá mundi gliðna á milli kjaranefndarfólksins annars vegar sem hefur ekki samningsrétt og annarra sem fá laun sín eftir samningsbundnum ákvæðum í lögum og viðbótarlaun og þess háttar í gegnum stofnanasamninga. Þetta safnaðist upp í þrýsting sem erfitt yrði að ráða við og leiðrétta. Við höfum auðvitað áhyggjur af þessu. Kjaranefnd ákveður laun fyrir 2.000 manns og þarna eru allar ákvarðanir hvað varðar kjör þeirra teknar úr sambandi.

Ákvæðið í 2. málsl. 2. mgr. frumvarpsins segir einungis, með leyfi forseta:

„Telji Kjaradómur eða kjaranefnd að á þessu tímabili sé sérstök ástæða til breytinga á kjörum einstakra embættismanna eða hópa, vegna breytinga á umfangi starfa eða á verkefnum og verksviði þeirra, skal þess gætt að það valdi ekki röskun á vinnumarkaði.“

Ég hafði nokkrar áhyggjur af þessu ákvæði, taldi það nokkuð óljóst og óskýrt og hafði ekki alveg á tilfinningunni til hvers það mundi leiða. En formaður kjaranefndar og að mig minnir formaður Kjaradóms líka sögðu að þetta mundi ekki hafa nein áhrif í þá veru að laun kjaradómsfólks eða kjaranefndarfólks mundu hækka út af öðrum hækkunum sem yrðu á vinnumarkaðinum á þessum tíma, heldur litu þau svo á að þetta ákvæði yrði einungis nýtt ef um væri að ræða einhverjar breytingar í störfum hjá einstaklingum sem fá laun samkvæmt úrskurði kjaranefndar eða ákvarðana hennar. Það er því alveg ljóst að verið er að frysta þessi laun út allan tímann.

Við töldum því betra, í stjórnarandstöðunni, að fara þá leið sem við leggjum hér til sem er á margan hátt skynsamlegri vegna þess að hún færir okkur fjær því að það sé Alþingi sjálft sem ákvarði launin, en að hluta er meiri hlutinn að ákveða núna 2,5% launahækkun fyrir þingmenn, ráðherra og aðra sem Kjaradómur ákvarðar laun fyrir. Með því að fara þá leið sem við viljum, að fresta þessu alfarið í tiltekinn tíma og líka þessari 2,5% hækkun þannig að engin hækkun kæmi 1. febrúar, þá væri það í höndum þeirrar nefndar sem nú á að fara að endurskoða fyrirkomulagið á launakjörunum að ákvarða hver þessi laun yrðu. Ég vil ekki upplifa það aftur, sem ég held að ekki sé ávinningur að, að stofna til einhverrar þingfararkaupsnefndar eða að þingið fari sjálft að ákveða laun sín en að hluta til er verið að gera það með þeim lögum sem hér á að fara að setja.

Við þessa umræðu tel ég ástæðu til að vitna aðeins í bréf Félags forstöðumanna ríkisstofnana sem voru mjög harðorðir þegar þeir komu á fund nefndarinnar og töldu gengið mjög á rétt kjaranefndarfólks með þessu frumvarpi. Kannski áttuðu sig ekki allir á því, a.m.k. ekki í upphafi þegar úrskurður Kjaradóms lá fyrir og fyrir lá að Alþingi mundi taka á því máli, að löggjöfin snerti kjaranefndarfólk með einhverjum hætti. Það gerir það svo sannarlega að því er varðar viðmiðunarstéttir þegar í pípunum eru launahækkanir á þessu ári. En það segir, og það er mjög vitnað til þeirrar sérstöðu kjaranefndarfólks að hafa ekki samningsrétt, í bréfi eða ályktun stjórnar Félags forstöðumanna ríkisstofnana, með leyfi forseta:

„Um einstök atriði frumvarpsins þykir verða að gera athugasemdir við 2. mgr. 1. gr. þess. Gengur það orðalag gegn meginanda gildandi laga og er í reynd grundvallarbreyting á eðli og fyrirkomulagi því sem Kjaradómi og kjaranefnd er ætlað að starfa eftir. Í athugasemdum með 1. gr. frumvarpsins kemur fram að Kjaradómi og kjaranefnd sé beinlínis bannað að taka tillit til launahækkana einstakra hópa eða launaskriðs sem verða kunni. Er þetta varhugavert og álitamál að fái staðist, að laun þröngs hóps starfsmanna hins opinbera séu fryst með þessum hætti. Sérstaklega þykir þetta vera vafasamt í ljósi þess að það er tilgangur og eðli laganna um Kjaradóm og kjaranefnd að launaákvarðanir þeirra taki tillit til þróunar launa annarra hópa. Þá verður ekki annað ráðið með gagnályktun frá orðalagi frumvarpsins en að ætlast sé til að Kjaradómur og kjaranefnd líti fram hjá þróun launa opinberra starfsmanna sem hefur verið meginviðmiðunarhópur Kjaradóms og kjaranefndar. Er það veruleg breyting frá gildandi lögum. Vekja má athygli á að fram undan eru svokallaðir stofnanasamningar við opinbera starfsmenn þar sem þegar er búið að ákveða að laun hækki á bilinu 2,4%–3,8% í maí 2006. Að þeim samningum loknum hefði mátt ætla að kjaranefnd og eftir atvikum Kjaradómur hefði tekið tillit til þessa við ákvörðun launa skjólstæðinga sinna síðar á þessu ári. Ef frumvarpið verður að lögum óbreytt mun óhjákvæmilega skapast óeðlilegt misræmi á milli launa forstöðumanna og annarra starfsmanna stofnana.

Þá verður að gera athugasemdir við einstök efnisatriði frumvarpsins og orðalag þess. Hugtakið „afmarkaðra hópa” er ekki skýrt og óljóst við hvað er átt og hverjar skuli vera forsendur Kjaradóms og kjaranefndar þegar þeir aðilar taka ákvörðun hvort og þá við hvaða kringumstæður launabreytingar skuli verða. Bann við að taka tillit til launaskriðs er einnig alvarlega umhugsunarvert.“

Þeir gagnrýna þetta áfram í þessu bréfi og vísa til þess að þeim einstaklingum í þjónustu hins opinbera sem gegna þeim störfum sem talin eru upp í lögum um Kjaradóm og kjaranefnd, er með þeim lögum gert skylt að hlíta launaákvörðun Kjaradóms og kjaranefndar og þannig sviptir samningsfrelsi um laun sín.

Það er ljóst að það er mjög þungt í fulltrúum þeirra hópa sem kjaranefnd ákveður laun fyrir út því að þessi leið skuli vera farin. Þeir segja að verði frumvarpið að lögum skapist réttaróvissa svo og mörg lagaleg álitaefni. Ég býst því við að málinu sé ekki lokið af hálfu þessara aðila þó að ég viti í raun og veru ekki um það en eitt er víst að það var mjög þungt í þeim hljóðið.

Það var athyglisverð tillaga sem kom fram hjá fulltrúa eins hóps þeirra sem kjaranefnd ákveður laun fyrir. Hann taldi skynsamlegra að fara þá leið að láta úrskurð Kjaradóms einungis ná til þingmanna og ráðherra en að ákvarðanir Kjaradóms gengju að öðru leyti fram gagnvart öðrum hópum. Það er auðvitað umhugsunar virði hvort það hefði nægt til að lægja þær öldur sem eru í þjóðfélaginu ef farin hefði verið sú leið að láta þann úrskurð Kjaradóms sem hér á að hnekkja einungis ná yfir þingmenn og ráðherra. Það er ljóst að reiðialdan í þjóðfélaginu beinist mest gegn þingmönnum og ráðherrum, a.m.k. virðist það koma fram. En ég er ekki viss um að það hefði dugað að láta þetta ganga fram gagnvart öðrum hópum innan Kjaradóms vegna þess að reiðialdan er mjög mikil í þjóðfélaginu almennt út af því launamisrétti sem gengið hefur í gegn á undanförnum árum og missirum. Þegar úrskurður Kjaradóms lá fyrir hefur það greinilega verið eitthvað sem fyllti mælinn og þessi reiðialda braust út.

Hjá efnahags- og viðskiptanefnd voru fulltrúar frá forsætisráðuneytinu spurðir hvort ekki hefði legið fyrir, þegar menn voru að skoða það í nóvember hvort segja ætti upp samningum á almenna vinnumarkaðnum, sú hækkun sem kjaranefndarfólk ætti að fá, þ.e. 4,5% hækkun. Svarið við því var jú, að það hefði verið tekið inn í þetta mat. Samt var það niðurstaða aðila vinnumarkaðarins að launabreytingar annarra hópa væru ekki þess eðlis að það kallaði á uppsögn kjarasamninga.

Það er athyglisvert að hækkanir kjaranefndarfólksins, sem voru að hluta færðar yfir til kjaradómshópsins sem komið hefur af stað slíkri reiðiöldu, lágu fyrir í nóvember þar sem tekið var mið af þeim. Það var samt ekki niðurstaða aðila vinnumarkaðarins að launabreytingar annarra hópa, m.a. kjaranefndarfólks, væru þess eðlis að það kallaði á uppsögn kjarasamninga. Nú þegar færa á kjaradómsfólkinu sömu hækkun og kjaranefndarfólkið hefur fengið þá setja aðilar vinnumarkaðarins hnefann í borðið. Maður spyr: Af hverju var það ekki gert fyrr? Það hlýtur að hafa verið tilefni til þess fyrr að grípa inn í málið fyrst það er tilefni til þessi núna.

Ég held að það sem við höfum gengið í gegnum á undanförnum vikum og sú gliðnun sem er að verða í þjóðfélaginu í kjaramálum sýni okkur að stokka þurfi upp launakerfi ríkisins og gera það gegnsærra og sýnilegra. Ef þeim sem hæst tala um stöðugleikann, sem er auðvitað nauðsynlegt að viðhalda, meina eitthvað með orðum sínum þá ættu þeir að beita sér fyrir breytingu á launastefnunni. Hvernig væri t.d. að frysta laun þeirra sem mest hafa fyrir í tvö til þrjú ár, bæði á almenna markaðnum og einkamarkaðnum, nota þann tíma til að minnka launabilið og færa upp fólk með lágar- og meðaltekjur? Það væri fróðlegt að vita hvort samstaða næðist um það, að frysta almennt efsta lagið í þjóðfélaginu, bæði á einkamarkaði og almenna markaðnum í góðan tíma, tvö til þrjú ár. Þann tíma mætti nota til að færa upp þá sem lægstir eru, á botninum og fólk með meðaltekjur.

Mér fannst það athyglisvert, í andsvörum áðan hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, að hann talaði um börnin með byssurnar. Hættulega aðila í þjóðfélaginu sem settu allt á hvolf í kjaramálum. Þegar hann var inntur eftir því við hverja hann ætti þá var það borgin. Hv. þingmaður Einar Oddur Kristjánsson taldi sér sæma að koma upp og gera þær litlu hækkanir, sem lægst launaða fólkið í umönnunarstéttunum fékk, blóraböggla fyrir því að allt stefndi á annan endann í þjóðfélaginu. Það er ekki sæmandi að stilla málinu upp með þeim hætti. Það er ástæða til að minna þá á, sem hæst hafa látið vegna þess að borgarstjórinn vogaði sér að lyfta upp lægstu launum fólks í umönnunarstéttunum, að fram kom hjá fulltrúa kjaraþróunardeildar Reykjavíkurborgar að laun þess fólks sem Reykjavíkurborg semur fyrir lægju nálægt því sem gerist á almenna vinnumarkaðnum. Eins kom fram að launamunur þeirra sem taka laun hjá ríkinu væri á milli 6–8% hærri en hjá þeim sem taka laun samkvæmt ákvörðunum Reykjavíkurborgar.

Það fær mig þá til að líta til þess sem hér hefur verið nefnt, þ.e. til hinna svokölluðu stofnanasamninga og viðbótarlauna í ríkiskerfinu. Ýmsir sem komu á fund nefndarinnar töldu að það hefði hækkað verulega laun viðmiðunarhópa, með ákveðnu launaskriði hjá viðmiðunarhópum sem kjaranefnd og Kjaradómur taka ákvarðanir um laun fyrir.

Ríkið er í samkeppni við almenna vinnumarkaðinn um hæft starfsfólk. Því er mikilvægt að ríkið hafi ákveðið svigrúm til að mæta samkeppni um starfsfólk. En launastefnan má þó ekki verða þannig að viðbótarlaun eða ákvarðanir í stofnanasamningum gangi einungis til þeirra sem eru í efstu lögum í ríkiskerfinu. Sjá verður til þess að slíkt gangi líka til fólks sem er á lægri launum í ríkiskerfinu og til fólks með meðaltekjur. Ég hef áhyggjur af þeirri þróun sem hefur átt sér stað, t.d. varðandi viðbótarlaun ríkisstarfsmanna sem hafa gilt örfá síðustu ár. Um slík viðbótarlaun gilda engar samræmdar reglur. Þar er um að ræða geðþóttaákvarðanir forstöðumanna hverju sinni um hvernig þeim er útdeilt. Við höfum það fyrir okkur á þinginu, það liggur t.d. fyrir í úttekt Ríkisendurskoðunar á viðbótarlaunum ríkisstarfsmanna fyrir árið 2002, hvernig þessi viðbótarlaun skiptast á milli þeirra sem vinna hjá ríkinu.

Það er ljóst af skýrslu og upplýsingum frá Ríkisendurskoðun, í kjölfar þess að ég bað um að það yrði skoðað, hvernig viðbótarlaunin koma út, t.d. hvernig þau skiptast milli kynja og milli þeirra sem fá hæstu og lægstu launin. Þar kemur fram að hæstu viðbótarlaunin fara til þeirra starfsmanna sem gegna hæstri stöðu innan hverrar stofnunar. Þannig er það. Það er ljóst, sé skipting kynja í störfum hjá ríkinu skoðuð, að þessar viðbótarlaunagreiðslur hafa frekar gengið til karla en kvenna. Fram kom að konur fá að meðaltali einungis um 56% af þeirri fjárhæð sem karlar fá. Þetta þarf að skoða. Ef einhverjir pottar eru til fyrir viðbótarlaun innan ríkiskerfisins, sem ég er ekki að gagnrýna í sjálfu sér, þá verða stjórnvöld að sjá til að um slíkt gildi samræmdar reglur og að markmið séu sett um hvernig eigi að verja viðbótarlaunum þannig að þau auki ekki á gliðnun, t.d. á milli kynja í ríkiskerfinu. En það hefur augljóslega gerst fram til þessa.

Ég hef margsinnis kallað eftir samræmdum reglum. Þegar ég sá að viðbótarlaunin voru notuð, m.a. til að auka á gliðnun milli karla og kvenna innan ríkiskerfisins, þá óskaði ég eftir því að Jafnréttisstofa athugaði málið sérstaklega. Hún taldi að upplýsingar sem kæmu fram væru of óljósar til að hægt væri að segja nákvæmlega til um hvort jafnréttislög væru brotin. En Jafnréttisstofa beindi því til fjármálaráðherra, fyrir að minnsta kosti tveimur árum síðan, að settar yrðu samræmdar reglur um greiðslur viðbótarlauna. Það var upplýst af Gunnari Björnssyni í fjármálaráðuneytinu, sem fer með launamálin, að samræmdar reglur hefðu enn ekki verið settar og er það miður, virðulegi forseti.

Ég tel að full ástæða sé til að fara nánar í það hvernig þessu er háttað. Ég mun gera það. Það getur ekki gengið að halda uppi slíkri launastefnu og verja töluverðu fjármagni í greiðslu viðbótarlauna sem leiða bæði til aukinnar gliðnunar milli þeirra sem minnst hafa og þeirra sem mest hafa og jafnframt aukist með þeim launabilið milli kynjanna. Á árinu 2002 voru t.d. greiddar sem viðbótarlaun 788 millj. kr., í einingargreiðslum úr launakerfi ríkisins sem Ríkisendurskoðun lítur á sem viðbótarlaun, nema í þeim tilvikum er samið hefur verið um að það sé endurgjald fyrir yfirvinnu sem er tímamæld. En að hluta eru viðbótarlaunin líka notuð sem yfirvinnugreiðslur þar sem ekki er krafist vinnuframlags. Þau eru líka í sumum tilvikum akstursgreiðslur sem, eins og Ríkisendurskoðun segir, eru notaðar sem viðbótarlaun. Árið 2002 fengu 702 karlar akstursgreiðslur á móti 445 konum. Að baki þeim greiðslum liggur fastur 2.000 km samningur sem skilar um 110 þús. kr. Ríkisendurskoðun metur að líklegt sé að einhver hluti þeirra greiðslna séu viðbótarlaun. Það er ástæða til að skoða þessi mál og við sjáum hvílíkur frumskógur launakerfið er, ekki bara á einkamarkaði heldur virðist það ekki eiga síður við í ríkiskerfinu.

Nokkuð hefur verið rætt, virðulegi forseti, um hvort þingið hafi heimild til að breyta launum forseta Íslands á kjörtímabilinu. Ég verð að segja að mér fannst lagaprófessorinn Eiríkur Tómasson nokkuð afdráttarlaus um það á fundi efnahags- og viðskiptanefndar að óheimilt væri að lækka laun forsetans. Ég held að hann hafi orðað það svo að hann hallaðist að því að óheimilt væri að lækka laun forsetans, þ.e. að það væri brot á stjórnarskránni. Prófessor Sigurður Líndal hafði aðeins aðrar áherslur. Hann taldi að ef hægt væri að sýna fram á að ekki hefði orðið raunlækkun á kjörtímabilinu þá gæti þetta hugsanlega gengið. En ég held að þingið sé á vafasömum brautum gagnvart stjórnarskránni sem slíkri og því ákvæði sem þar er þegar kemur að því að hnekkja dóminum gagnvart forsetanum.

Ég sé, virðulegi forseti, ekki ástæðu til að hafa orð mín mikið fleiri þótt af ýmsu sé að taka. Ég vil þó nefna að vert er að hafa áhyggjur af þróuninni í kjaramálum og þeirri gliðnun sem orðið hefur í tekjuskiptingunni í samfélaginu. Ganga þarf til þess af einurð og markvisst af aðilum vinnumarkaðarins að skoða hvað hægt er að gera til að taka á því. Við sjáum ekki bara gliðnun tekjubilsins heldur, eins og fram hefur komið á undanförnum dögum sem er reyndar ekki nýtt fyrir okkur í stjórnarandstöðunni, hefur líka orðið veruleg gliðnun á milli tekjuhárra hópa og fólks með lágar tekjur og meðaltekjur að því er varðar skattgreiðslur til samfélagsins með aukinni skattbyrði hinna síðarnefndu. Það er athyglisvert að þótt slíkur munur hafi orðið á launum milli tekjuhárra og tekjulágra þá eykst sá munur eftir skatta, þ.e. verður þrisvar sinnum meiri. Skattbreytingar ríkisstjórnarinnar hafa þannig aukið gliðnun milli tekjuhópa meira en launaþróunin. Gliðnun hefur orðið þrisvar sinnum meiri með þyngri skattbyrði hjá tekjulægstu hópunum á móti því sem gliðnað hefur á milli hópa í almennum kjörum á markaði. Það er ótrúlegt að horfa til þess sem hefur verið að gerast með skattbreytingunum. Þetta kemur mjög skýrt fram í þeirri úttekt sem Stefán Ólafsson hefur gert á því máli. Hann hefur skoðað þróunina á skattbyrðinni hér á landi í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Það vekur mann óneitanlega til umhugsunar, hafi maður í huga kjaramál einstakra stétta eða þau mál í heild sinni, að sjá frumvarpið sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og er staðráðin í að láta ganga fram óbreytt. Ég held að ef við hefðum haft meiri tíma til að skoða þetta mál þá hefði kannski verið hægt að ná meiri samstöðu milli stjórnar og stjórnarandstöðu um það. Stjórnarandstaðan telur að leiðin sem við leggjum til nái sama markmiði en með henni sé farið varlegar gagnvart stjórnarskránni, sem ég tel skyldu okkar þingmanna að hafa í huga.