132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[14:55]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Það er nú komið að lokum þessarar umræðu um Kjaradóm og kjaranefnd. Ég ætla að fara í gegnum nokkur þau atriði sem rædd voru í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Menn hafa getið um áhrif Kjaradóms og þessarar lagasetningar á forseta Íslands. Samkvæmt Kjaradómi átti hann að hækka um 6,15% frá 1. janúar og samkvæmt þessu frumvarpi er það lækkað niður í 2,5% frá 1. febrúar eða um 3,65%. Rökin fyrir því að ekki megi skerða laun forsetans hafa menn rakið til ákvæða í stjórnarskrá, en þar stendur í 9. gr. 2. mgr., með leyfi herra forseta:

„Ákveða skal með lögum“ — ég endurtek með lögum — „greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra, sem fara með forsetavald.“

Og síðan:

„Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans.“

Það er þetta ákvæði sem menn hafa fett fingur út í en það hefur eiginlega enginn talað um fyrri hlutann þar sem stendur að ákveða eigi með lögum en ekki með dómi, sem er dálítið athyglisvert. Ég skoðaði greinargerð með því frumvarpi að stjórnarskrá sem samþykkt var 1944. Þar segir svo um 9. gr., með leyfi herra forseta:

„Fyrri hluti síðari mgr. er hliðstæður því sem um konung hefði gilt.“

Forsetinn er í rauninni ígildi konungs sem er dálítið athyglisvert. Síðari hlutinn er aftur á móti nýmæli í íslenskum lögum, þ.e. ákvæðið um að óheimilt sé að lækka greiðslur þessar til forseta á kjörtímabili hans. Og áfram segir, með leyfi herra forseta:

„En ákvæðið miðar að því að hindra að fjárhagslegum þvingunarráðum verði beitt gegn forseta eða Alþingi eftir á reyni með þessum hætti að ná sér niðri á forseta.“

Það á að koma í veg fyrir að Alþingi nái sér niður á forseta með að lækka launin hans.

„Með fyrirmælunum er einungis verndaður réttur forseta til sömu krónutölu og hann í upphafi hafði, en engan veginn tryggt að kaupmáttur krónunnar haldist óbreyttur.“

Herra forseti. Nú skil ég nokkurn veginn íslensku og að mínu mati segir þetta mér það að þau laun sem forsetinn hafði við upphaf kjörtímabilsins megi ekki skerða að krónutölu. Ég get ómögulega skilið þetta öðruvísi, herra forseti.

Menn hafa nefnt til sögunnar að þegar skattfrelsi forsetans var afnumið árið 2000 hafi einmitt verið vísað í þetta ákvæði og það í mínu eigin frumvarpi. Það er rétt. Enda kom fram í úrskurði Kjaradóms af því tilefni, að hann hækkaði laun forsetans úr 615 þús. kr. í 1.250 þús. Hann tvöfaldaði launin vegna þess að forsetinn missti skattfrelsið. Sem segir mér að forsetinn var með ígildi 1.250 þús. kr. og ef ekkert hefði komið til hefði hann verið skertur niður í 615 þús. við það að borga skatta. Hann hefði verið skertur úr 1.250 þús., sem voru hans raunverulegu laun af því hann borgaði ekki skatt, niður í 615 þús. og borga skatt af því. Það var þvílík kjaraskerðing, herra forseti, það hefði örugglega lækkað laun hans niður fyrir þá krónutölu sem hann hafði í byrjun kjörtímabilsins. Af þessari ástæðu taldi flutningsmaður frumvarpsins á sínum tíma að taka þyrfti mið af þessu í Kjaradómi. En sú hækkun sem við núna erum að taka af forsetanum og hefur staðið í einn heilan mánuð eru 3,65%. Það er nokkuð víst, herra forseti, og nokkuð öruggt að laun forsetans fara ekki niður fyrir þá krónutölu sem hann hafði í upphafi kjörtímabilsins. Þannig að ég er engan veginn sannfærður um að þetta ákvæði í stjórnarskránni sé brotið. Ég er bara alls ekki sannfærður. Ég er eiginlega sannfærður um það gagnstæða án þess að ég vilji þó fara að dæma í því máli, ef forsetinn skyldi nú fara í mál út af þessu og það færi fyrir Hæstarétt.

Þá var eignarrétturinn ræddur í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, þ.e. að laun væri eignarréttur. Eins og ég gat um í 1. umr. get ég engan veginn fallist á það því þegar ég ræð mig til vinnu eða þegar fólk ræður sig til vinnu almennt, þá leggur það fram vinnuframlag og fær laun í staðinn og yfirleitt stenst þetta á, mönnum er borgað réttlátlega, þ.e. samningurinn um að taka sér vinnu, leggja fram vinnuframlag og fá laun í staðinn, verðmæti þess samnings er yfirleitt núll. Það er ekkert sérstakt við þann samning í sjálfu sér, ekki frekar en ef ég sel bílinn minn á milljón þá afhendi ég bílinn og fæ milljón í staðinn og það er ekkert verðmæti í þeim samningi sem slíkum. Í vinnusamningnum hafa launin því ekkert verðmæti í sjálfu sér af því að vinnan kemur á móti. Hins vegar gæti launahækkun hugsanlega verið eign ef hún væri ákveðin til allrar framtíðar og ekki hægt að breyta henni. En nú er það svo að þeir launþegar sem þiggja laun samkvæmt Kjaradómi og kjaranefnd ákvarða ekki laun sín sjálfir og þeir verða að sæta ákvörðun annars staðar frá, frá Kjaradómi eða Alþingi sem setur lög um Kjaradóm. Valdið liggur því hjá Alþingi, enda eðlilegt þar sem Alþingi hefur fjárveitingavald. Enginn annar má ráðstafa peningum úr ríkissjóði nema Alþingi. Með þeim rökum getur Alþingi því að sjálfsögðu gripið inn í og hækkað eða skert laun þeirra sem þarna þiggja laun, af því að þeir ákveða það ekki sjálfir. Alþingi er heimilt að gera það núna. Það brýtur þá ekki á nokkurn hátt gegn stjórnarskránni af því að Alþingi hefur fjárveitingavald samkvæmt henni, þ.e. 41. gr. stjórnarskrárinnar.

Þá var nokkuð rætt um jafnræðisreglu, að ekki mætti skerða laun þeirra sem fá laun samkvæmt Kjaradómi og miðað við þá sem fá laun samkvæmt kjaranefnd. Nú er fólk með alls konar kjör um allt þjóðfélagið. Það er verið að hækka þennan og ekki hinn. Það hefur hingað til ekki verið talið brjóta einhverja jafnræðisreglu þótt einn fái hærri laun en annar eða einn sé lækkaður í launum með verðbólgu eða með beinum hætti. Það hefur hingað til ekki verið talið brjóta neina jafnræðisreglu þannig að ég get ekki fallist á þessa grein, líka vegna þess að það kom fram hjá gestum nefndarinnar að þessi lagasetning væri nægilega almenn til að beinast ekki gegn einstaklingum. Það hefði verið verra ef eingöngu þingmenn hefðu verið látnir sæta henni. Það hefði þá verið þrengri hópur og þá er ekki hægt að tala um að um almenna aðgerð sé að ræða.

Á móti þessum rökum og móti þeim sjónarmiðum sem þarna koma fram um forseta Íslands, eignarréttinn og jafnræðisregluna þá koma að sjálfsögðu þau stóru mál sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson ræddi um. Ég tek undir hvert orð sem hann sagði um hættuna á víxlverkun launa og verðlags sem við höfum afskaplega bitra reynslu af. Allir tapa á því og sérstaklega þeir sem verst eru settir, frú forseti. Þess vegna er meginsjónarmiðið að gæta þess að hin viðkvæma staða á launamarkaði fari ekki úr skorðum. Það er meginmarkmiðið á bak við þessa lagasetningu og ryður öðrum minni háttar markmiðum eða sjónarmiðum á brott.

Eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði höfum við undanfarið orðið vitni að ákveðinni tilraun sem sýnir einmitt hversu vinnumarkaðurinn er viðkvæmur. Ákveðinn borgarstjóri hér á landi ákvað að hækka laun lægst launaða fólksins, mjög göfugt markmið og hefur verið reynt oft og tíðum. Því miður fóru launahækkanirnar dálítið upp launastigann þannig að mér er sagt að jafnvel fólk sem hefur yfir 200 þúsund og þar af hærra hafi fengið launahækkun líka. Og hvað gerist? Allt í einu rignir inn uppsagnarbréfum hjá þeim hinum sama borgarstjóra og hann situr allt í einu á bólakafi í uppsagnarbréfum óánægðra starfsmanna vegna þess að hann hækkaði launin, frú forseti. Þetta segir okkur hve viðkvæmt er að grípa inn í það jafnvægi sem er, allt í einu er fólk sem er með menntun verr sett en þeir sem ekki hafa menntun. Þess vegna þurfum við að fara mjög gætilega og mér finnst þessi tilraun borgarstjóra hafa sýnt okkur hvað við þurfum að fara varlega í þessum efnum og þess vegna er þetta frumvarp lagt fram.

Það er alltaf dálítið vandræðalegt eins og ég gat um í 1. umr. að ræða um sín eigin laun og ég benti á ákveðna leið til að vega á móti því. Inn í það koma að sjálfsögðu mörg mál eins og lífeyrisréttur, starfskostnaðargreiðslur o.s.frv. Það er athyglisvert að það var lagt fram eftirlaunafrumvarp í desember 2003 sem var samþykkt. Mjög mikið hefur verið talað um að það hafi verið þingmönnum til hagsbóta. En nú hefur verið reiknað út að hinn almenni þingmaður tapaði á þessu eftirlaunafrumvarpi, hver og einn einasti þingmaður tapaði 1–3% á því. Það hefur ekki komið fram í umræðunni en væri afskaplega nauðsynlegt að það komi fram að almenni þingmaðurinn tapaði á eftirlaunafrumvarpinu samkvæmt útreikningum tryggingafræðinga og ég vil gjarnan að það komi fram. En þetta er einn anginn af því að hafa launin sýnileg og ég legg mikla áherslu á að launin verði sýnileg enda hef ég flutt um það frumvarp í tvígang að þingmenn séu með lífeyrisréttindi eins og almennir borgarar þessa lands í almennum lífeyrissjóðum og að þingfararkaupið sé ákveðið á beinni hátt og greinilegar en í dag.

Frú forseti. Í tillögum minni hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar kemur fram að þeir leggja fram eilítið öðruvísi tillögur en meiri hlutinn. Þeir leggja til að það komi engin hækkun frá 1. febrúar og sú lækkun eða sú frysting renni út 1. júní næstkomandi. og þeir ætla að setja þetta í nefnd eins og margt annað er sett í nefnd. Ef sú nefnd skilar ekki niðurstöðu og ekkert gerist þá hækka launin sjálfvirkt 1. júní. Það er oft talað um það og meira að segja stjórnarandstæðingar sjálfir hafa oft, (Gripið fram í: … talar sem stjórnmálamaður?) í þessum stól stend ég sem stjórnmálamaður. (Gripið fram í.) Nei, oft er það þannig að stjórnarandstæðingar tala um að málið sé saltað í nefnd og það er akkúrat það sem þeir ætla að gera. Og ef nefndin gerir ekki neitt eins og oft vill verða þá hækka launin. Þetta er nefnilega athyglisvert. En munurinn er sá að þær tillögur sem meiri hlutinn leggur til er að hækka launin um hálft prósent (Gripið fram í: 2,5.) 2,5 já, og skipa nefnd en ef nefndin gerir ekki neitt þá bara verður það 2,5% í heilt ár. Svo kemur Kjaradómur aftur. (Gripið fram í: Já, er það ekki já?) Já, já. En það er munurinn á þessu að ef nefndin ekki skilar niðurstöðu þá er frysting á þessum launum í heilt ár. (Gripið fram í.) Það er von að hv. stjórnarandstæðingar séu órólegir yfir þessu því þetta er merkileg niðurstaða (Gripið fram í.) vegna þess að ef nefndin þeirra skilar ekki niðurstöðu þá hækka launin 1. júní um 8% og þá er þetta allt saman sýndarleikur. Þetta var um tillögur hv. minni hluta.

Síðan ætla ég að fara í gegnum nefndarálit — það er von að hv. þingmenn í minni hlutanum séu órólegir yfir þessu — það verður enn þá meira gaman að lesa nefndarálit minni hlutans og ég hygg að lögfræðingar muni verða tregir að koma á fund nefndarinnar eftir að þeir heyra það sem hér stendur.

„Lögfræðingar sem komu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd vöruðu allir sem einn eindregið við því að fara þá leið sem ríkisstjórnin hyggst fara.“ Á fund nefndarinnar kom fullt af lögfræðingum. Ég man ekki til að Baldur Guðlaugsson hafi varað við þessu.“ (Gripið fram í: … sambönd og var ekki spurður um það.) Það er alveg sama, í nefndarálitinu stendur þetta svona. Menn geta ekkert … (Gripið fram í.) Get ég fengið frið fyrir frammíköllum órólegra og vandræðalegra þingmanna sem eru komnir alveg út í horn. (Gripið fram í.) Síðan stendur í nefndarálitinu: „Lögfræðingarnir töldu víst að frumvarpið færi gegn ákvæðum stjórnarskrár um eignarrétt og jafnræði, …“ Lögfræðingarnir töldu víst, sem sagt á fundi hv. efnahags- og viðskiptanefndar dæmdu þessir lögfræðingar. Þeir töldu bara víst, (Gripið fram í: Þeir töldu víst já.) það var enginn efi, þetta bara er svona. Ég er nærri viss um að þessir háttvirtu lögfræðingar, ég hlýddi reyndar á þeirra mál, sögðu þetta ekki. Ég er viss um að þeir eru ekki sáttir við svona meðhöndlun á ummælum sínum.

Síðan kemur og þá er haft eftir lögfræðingum: „… auk þess sem orðalag 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar heimili ekki að laun forseta séu lækkuð á miðju kjörtímabili.“ Það er enginn efi í neinum huga neins staðar að lögfræðingarnir sögðu þetta, en þeir dæmdu ekki á fundi hjá hv. efnahags- og viðskiptanefnd. (Gripið fram í.) Vegna þess að meiri hlutinn vildi ekki fara að dæma um þessi atriði í nefndarálitinu, ekki eins og minni hlutinn er búinn að gera.

(Forseti (SP): Ég vil biðja hv. þingmenn að gefa ræðumanni hljóð.)

Takk. En svo gerist dálítið merkilegt. Þrátt fyrir að hv. þingmenn minni hlutans hafi svona óskaplegar efasemdir um stjórnarskrána, þrjú atriði sem þeir telja jafnvel að brjóti hana, þá leggja þeir engu að síður til í breytingartillögu sinni: Þrátt fyrir úrskurð Kjaradóms skal hann ekki koma til framkvæmda frá og með 1. febrúar. Þá er það bara allt í lagi. Þarna er ákveðinn tvískinnungur í gangi og dálítil rökleysa.

Frú forseti. Í 1. umr. ræddi ég um framhaldið og ég tel að það sé útilokað að annar en Alþingi ákvarði laun ráðherra og dómenda. Ég held að þingið eigi ekkert að skorast undan því. Ég hef reyndar bent á leið sem leysir þann vanda að menn séu að ákveða eigin laun. Það vill nefnilega svo til að hv. þingmenn eru kosnir á fjögurra ára fresti af þjóðinni og bera þá ábyrgð. Og ef þeir taka rangar ákvarðanir um eigin laun þá er annað fólk kosið á þing. Ég hef lagt til að fráfarandi þing ákvarði laun næsta þings tímanlega, t.d. í vor. (Gripið fram í: ... ekki sameinað.) Nei. Þeim úti í þjóðfélaginu sem finnst þetta vera óskaplega há laun og sjá ofsjónum yfir því geta þá bara boðið sig fram til þings og séð hvort þeir njóti trausts hjá þjóðinni til að gegna þessu embætti, það eykst þá samkeppnin um þingmennskuna og við sitjum á veikari grein. Ég held að þetta sé eiginlega besta lausnin án þess að ég vilji leggja nefndinni sem á að skipa, einhverjar reglur um það. Alþingi á að sjálfsögðu að ákvarða með lögum eins og stendur í stjórnarskránni um forseta, það stendur nefnilega í 9. gr. stjórnarskrárinnar: „Ákveða skal með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta …“ Þannig að í stjórnarskránni stendur að að ákveða eigi með lögum en ekki með dómi svo ég held að Alþingi eigi ekkert að komast undan því að ákvarða laun æðstu stjórnenda með lögum og menn geti svo haft einhver verðtryggingarákvæði innan kjörtímabilsins eða eitthvað slíkt en ég held að við komumst ekki hjá því og það verður miklu meiri sátt um það ef þetta verður gert tímanlega, áður en framboðsfrestur í prófkjörum og slíku og uppstilling lista hefur farið fram.

Ég þakka mjög góða og málefnalega umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd. Það var unnið mjög stíft og hratt og mjög vel og ég held að öll þau sjónarmið sem hafi komið fram hafi fengið góða umræðu. Ég vil líka þakka þessa umræðu. Hún hefur verið mjög góð og málefnaleg og svo vona ég að þetta mál fái gott gengi í þinginu.