132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Fsp. 3.

[15:19]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hygg að mörgum okkar hafi brugðið nokkuð í brún í gærkvöldi að heyra virtan fræðimann á sviði íslenskrar tungu og bókmennta, Pál Valsson útgáfustjóra, lýsa þeirri skoðun sinni að sér þætti allt benda til að íslenska yrði vart eða ekki töluð hér á landi eftir 100 ár. Páll lét þetta álit sitt í ljósi í erindi á ráðstefnu áhugahóps um stöðu tungumálsins sem var haldin í Norræna húsinu í gær.

Flestir geta tekið undir það að íslensk tunga er viðkvæm fyrir áhrifum erlendis frá, ekki síst á þessum tímum alþjóðavæðingar þar sem tækniframfarir gera það að verkum að heimurinn verður sífellt minni. Eflaust er hún rétt, sú ábending að við Íslendingar höfum sofið á verðinum undanfarin ár þegar tungumálið okkar er annars vegar. Kannski blekkir það okkur að við teljum að þjóðin hafi byggt upp gott skólakerfi sem tryggi að uppvaxandi kynslóðir læri að tjá sig á því sem kalla mætti góða íslensku. Ég komst ekki hjá því að velta þessu fyrir mér í morgun þegar ég las blöðin og fréttir af þessari ráðstefnu í Norræna húsinu. Er víglínan þegar varnir íslenskunnar eru að breytast og færast til þannig að við þurfum nú að fara að hugsa um að verja grundvallaratriði eins og þau að raða orðum rétt saman í setningar? Þurfum við nýja vakningu hér á landi til að bjarga tungumálinu okkar? Líklega er þörf á því. Það er að minnsta kosti þörf á að þetta sé rætt á hinu háa Alþingi.

Ég kem því hér upp til að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort ríkisstjórnin hyggist beita sér fyrir einhverjum aðgerðum, umfram það sem gert er í dag, til að verja og styrkja stöðu íslenskrar tungu. Og þá hvaða? Hvað getum við Íslendingar gert til að forða því að hér á hinu háa Alþingi verði kannski eftir 150–200 ár ekki lengur töluð íslenska, heldur ísl-enska?