132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:07]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einn árangursríkasti þáttur í starfsemi Ríkisútvarpsins á undanförnum árum er að margra mati og mínu einnig starfsemi Rásar 2. Starfsemi Rásar 2 á undanförnum árum er að mörgu leyti undirstaða fyrir þeirri grósku og útrás sem er í íslenskri tónlist og íslenskum popptónlistarmönnum á síðustu árum og missirum og hefur holdgervst í spútnikum eins og Sigur Rós og fleiri hljómsveitum. Um það hefur verið deilt á liðnum árum hvort halda beri starfsemi Rásar 2 úti. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktaði ítrekað hér forðum að selja ætti Rás 2 þó að það hafi kannski ekki verið efst á baugi þar síðast.

Í 2. tölulið 3. gr. frumvarpsins sem við ræðum hér í dag stendur, með leyfi forseta:

„Að senda út til alls landsins og næstu miða a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá árið um kring.“

Því spyr ég hæstv. menntamálaráðherra: Túlkar hún þetta ákvæði sem svo að Ríkisútvarpið muni leggja niður eða selja Rás 2 og beina kröftum sínum að rekstri einnar hljóðvarpsrásar eða verður Rás 2 áfram rekin sem slík?