132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:16]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það vekur athygli að menntamálaráðherra segir í grein í dagblaði í gær að frumvarp til laga um Ríkisútvarpið lúti að rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Síðan skoðar maður frumvarpið og þá virðist vanta í það þætti sem einmitt lúta að rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Í fyrra þegar sami hæstv. menntamálaráðherra flutti frumvarp um Ríkisútvarpið sf. var þar að finna drög að stofnsamningi í frumvarpinu sem vissulega var ágætt að hafa. En nú er enginn stofnsamningur og engar samþykktir sem drög eru höfð að í greinargerðinni. Og mig langar að spyrja hverju þetta sæti úr því að frumvarpið lýtur að rekstrarformi Ríkisútvarpsins.