132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[23:21]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar, hv. þm. Einar Már Sigurðarson, hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hygg ég einnig, og kannski fleiri, gerum einkum þrenns konar athugasemdir við frumvarpið sem hér liggur frammi. Við höfum reyndar einnig nefnt þrjú atriði þar sem við erum sammála frumvarpsflytjandanum.

Við höfum talað um rekstrarformið sem hér hefur tekið mest rúm í umræðunni. Við höfum líka, og í raun og veru fyrst og fremst, talað um hlutverk útvarpsins, innihald þess sem almannaútvarps og hvernig það rímar við þá fjármögnun, að þriðjungi með auglýsingum og kostun, sem hæstv. menntamálaráðherra gerir ráð fyrir í frumvarpinu. Við höfum líka bent á að þetta frumvarp leysi ekki það vandamál sem hefur verið hvað mest áberandi og mætt hvað mestri gagnrýni á síðustu árum og áratugum, sem er pólitísk stjórnun á Ríkisútvarpinu.

Það er ástæða til að fara yfir þennan síðasta lið. Hann hefur ekki fengið mikið rúm. Einkum hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins kosið að ræða frekar um hlutafélög og önnur rekstrarform. Reyndar hefur hæstv. menntamálaráðherra látið liggja að því að hér sé eingöngu um rekstrarformsbreytingu að ræða. Hvað varðar hin pólitísku áhrif, hina pólitísku stjórnun, er það rétt hjá hæstv. menntamálaráðherra, að ekki er gerð nein tilraun til að breyta því ásigkomulagi sem nú er á Ríkisútvarpinu að því leyti.

Við Samfylkingarmenn höfum skosið, vegna þeirrar vinnu sem við höfum lagt í á undanförnum árum, að fara í gegnum frumvarpið um Ríkisútvarpið út frá hlutverki þess sem almannaútvarps. Við höfðum sjálfstraust til að leggja þetta frumvarp til grundvallar, svo sem eins og til æfingar, til að athuga hvernig mætti gera það þannig úr garði að við gætum samþykkt það. Við gerðum það m.a. vegna þess að miklar líkur eru til þess að í framtíðinni, vonandi á næstu missirum, komist Samfylkingin í stjórn og fái þar það ágæta hlutverk að glíma við breytingar á Ríkisútvarpinu eins og það er nú. Við miðum vinnu okkar því við praktískar lausnir. Ég vil fara yfir hvað við getum ímyndað okkur að muni vinna gegn hinum beinu pólitísku áhrifum, annars vegar stjórnmálaflokkanna í gegnum þingið og hins vegar stjórnmálamannsins sem gegnir hlutverki menntamálaráðherra hverju sinni. Hvernig er hægt að sjá til að þau dofni þannig að stjórnmálamennirnir sjái um það eftirlit sem þeir eiga að sjá um fyrir hönd almennings en hins vegar skerði það ekki sjálfstæði Ríkisútvarpsins og ritstjórnarlegt frelsi þar á bæ?

Ef við tökum þetta frumvarp er auðvitað ekki við hæfi að gera ráð fyrir því árið 2006 að áfram sé ríkisstjórnarmeirihluti í útvarpsráði, sem heitir að vísu stjórn. Það er auðvitað gamla útvarpsráðið. Í raun er stjórnin mjög lík útvarpsráði eins og það vinnur núna og hefur gert í 5–10 ár. Það sýnir vel vandræðaganginn við að reyna að troða Ríkisútvarpinu inn í hlutafélagsformið hvernig til tekst með stjórnina. Í hlutafélagsforminu er gert ráð fyrir aðalfundi á hverju ári og skipað fyrir um það. Þá á eigandinn, handhafi hlutabréfsins, að mæta á hverju ári og kjósa í stjórn eins og hluthafar gera á hverju ári í venjulegum hlutafélögum. Því er þó þannig komið fyrir að hann kýs ekki sjálfur í stjórnina heldur á Alþingi að kjósa í stjórnina á hverju ári. Þá kemur upp hið skrýtna fyrirkomulag að ekki er einungis um ríkisstjórnarmeirihluta að ræða heldur hefur umboð stjórnarmannanna þrengst mjög og takmarkast. Það þrengist þannig að þeir hafa umboð í eitt ár í einu. Þeir hafa ekki umboð einhver kjörtímabil þar sem þeir geta þó hagað sér á ákveðinn hátt sjálfstætt gagnvart þeim sem gaf þeim umboðið, þ.e. Alþingi, eða réttara sagt þingflokkunum því þannig er það í rauninni.

Þetta er töluvert kviksyndi. En úr þessu er hægt að leysa með ákveðnum hætti. Katrín Júlíusdóttir nefndi það t.d. áðan og hafði eftir mér. Ég hafði ekki nefnt þann möguleika við þessa umræðu en við höfum talað um það í Samfylkingunni og því var ákaflega eðlilegt að hún gerði það. Við höfum ímyndað okkur að þessi meiri hluti gæti verið fjölskipaður með því að bæta tveimur starfsmönnum við þá fimm sem þar eru fyrir og þá sé enginn ríkisstjórnarmeirihluti í útvarpsráðinu. Það er eðlilegast að þar sé hvorki meiri hluti né minni hluti heldur ráði menn ráðum sínum með hagsmuni fyrirtækisins í huga og komist þannig að hinu rétta, eins og gerist víða í sveitarstjórnum þar sem meiri hluti og minni hluti eru svona meira upp á punt, sérstaklega í þeim minni. Það er líka sjálfsagt að breyta þessu þannig að það sé ekki þetta eins árs kjörtímabil, jafnvel þótt viðhaldið væri þessum aðalfundi á hverju ári, heldur að kjósa stjórnina alla á þingi til lengri tíma, eins og nefnt var áður.

Hæstv. menntamálaráðherra sagði að þetta frumvarp stæðist öll tilmæli Evrópuráðsins R(96) 10, um sjálfstæði almannaútvarps. Ég er hér með tilvitnun og skal lesa fyrstu setninguna í athugasemdum um viðmiðunarreglur 5: „Til að tryggja sjálfstæði stjórnar almannaútvarpsstofnunar er mikilvægt að stjórnirnar séu ekki háðar neins konar stjórnmálalegum afskiptum eða annars konar afskiptum við starf sitt.“

Hvernig er hægt að vera meira háður stjórnmálalegum afskiptum en að vera kosinn á hverju ári til stjórnarsetu? Það er undarlegt.

Við höfum líka gert athugasemdir við ráðningartíma útvarpsstjóra. Við teljum að hann verði að hafa starfsfrið og því sé út í hött að ráða hann eins og nú er gert, að hægt sé að reka hann daginn eftir. Við spyrjum að því: Af hverju má ekki ráða hann til til fimm ára? Af hverju má ekki gera það með auknum meiri hluta í þessari stjórn eins og hún yrði? Þannig væri klárt að menn væru sammála um að ráða hann eða reka. Við höfum líka talað um, og erum ekki fyrst til þess, að eðlilegt væri að við Ríkisútvarpið starfaði einhvers konar eftirlitsráð, eins og það er kallað í evrópskum plöggum, eða akademía sem væri fulltrúi neytenda, með öðrum hætti en stjórnin er eða útvarpsráðið. Þar kæmi saman breiður hópur. Slíkt ráð gæti komið saman einu sinni eða tvisvar á ári, kannski svipað og kirkjuþing án þess að ég ætli að bera þau fyrirbrigði nánar saman. Það væri kannski fyrst og fremst ráðgefandi en fyrir hópinn þyrfti að leggja skýrslur og ályktanir. Það væri ekki óeðlilegt, ef slíkur hópur kæmist á og reyndist vel, að hann þyrfti jafnframt að gefa samþykki sitt við þeim samþykktum sem menntamálaráðherra ætlar að láta gera á hluthafafundum. Með því yrði temprað vald ráðherrans og reyndar útvarpsstjórans einnig. Þar með kæmist á kerfi í Ríkisútvarpinu sem er þess virði að prófa.

Þetta höfum við rætt um að gæti verið snjallt að gera. En því miður kemur ekkert út úr meiri hlutanum nema fúkyrði. Frá menntamálaráðherra kemur ekki annað en belgingur, sama hvað við leggjum fram. Ég vil þó nota tækifærið og koma þessu á framfæri. Ekki síst vegna þess að þá vita menn betur hvers þeir eiga von og hvaða hugmyndir við höfum fram að færa í kosningabaráttunni vorið 2007 og eftir að við tökum við stjórnartaumum á því sumri.

Ég vil segja að gefnu tilefni að vissulega höfum við, Vinstri hreyfingin — grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn ekki nákvæmlega sömu hugmyndir um Ríkisútvarpið. Ég vil þó að segja að ég treysti mér vel til að ná samkomulagi við þá flokka um málið vegna þess að báðir vilja þeir að Ríkisútvarpið sé almannaútvarp. Það er einlæg hugsjón (Forseti hringir.) hjá öllum þessum flokkum og er þeim sameiginleg.