132. löggjafarþing — 49. fundur,  24. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[00:12]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var ágæt, yfirgripsmikil og málefnaleg ræða hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Ein lítils háttar leiðrétting þar sem vísað var í mínar skoðanir á ríkisrekstri og hlutafélagavæðingu. Í sumum tilvikum hef ég verið því fylgjandi að stofnanir og starfsemi sem áður var á vegum samfélagsins, ríkisins eða sveitarfélags, væri færð út á markaðstorgið. Ég hef talið að þar væri um að ræða samkeppnisrekstur sem ætti heima á markaði. Ég nefni Gutenberg, prentsmiðju sem á sínum tíma var rekin af ríkinu. Ég nefni SR-mjöl, verksmiðjur sem voru seldar. — Við gagnrýndum það að vísu á hvern hátt staðið var að sölunni, sem var ekki til fyrirmyndar. — Ég nefni Áburðarverksmiðjuna þar sem einnig var uppi gagnrýni um söluverð og sölumáta en það er önnur saga. Þetta vildi ég leiðrétta.

Ég vil aðeins nefna eitt varðandi einkavæðinguna eða hlutafélagavæðinguna. Þar tek ég undir með hv. þingmanni, það er ástæða til að ætla eða óttast að þetta sé fyrsta skref í ákveðnu ferli til sölu. En það er annað sem einnig hangir á spýtunni og það er að hlutafélagavæðingin rýrir réttarstöðu starfsfólksins. Það er verið að boða kerfisbreytingar á Ríkisútvarpinu sem ég tel mjög varasamar. Það er verið að færa einræðisvald í hendur framkvæmdastjóranum, útvarpsstjóranum, en hann er síðan settur undir flokkspólitískan hæl. Meiri hlutinn hér á Alþingi hverju sinni skipar stjórn yfir stofnunina sem ræður þennan sama einvald og rekur hann þannig að þar er bein tenging inn í stjórnarmeirihlutavaldið hér á Alþingi. (Forseti hringir.) Ég stóð í þeirri trú að menn ætluðu að veikja þessi tengsl en ekki treysta þau.