132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Þjónustusamningur við SÁÁ.

293. mál
[13:45]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um málefni er tengjast sjúkrahúsinu Vogi og SÁÁ og þjónustusamningum þess við heilbrigðisráðuneytið um þá mikilvægu heilbrigðisþjónustu sem þar er veitt og gagnast hefur þúsundum Íslendinga í gegnum tíðina.

Það er margt sem kemur nýliða hér í þinginu á óvart þegar hann kynnist fjárlagavinnunni í fjárlaganefnd Alþingis, kannski ekki síst sú lausung og skortur á aga og vönduðum vinnubrögðum sem virðist vera að finna víða í ríkisrekstrinum. Þessi fyrirspurn var lögð fram á milli 2. og 3. umr. fjárlaga, hygg ég, þegar mér varð ljóst að enn höfðu ekki hafist viðræður við SÁÁ um þjónustusamning sem þó rann út um síðastliðin áramót. Það undraði mig sitjandi í fjárlaganefndinni að við værum að afgreiða fjárlög fyrir yfirstandandi ár án þess að fram hefðu fram viðræður um þann þjónustusamning sem á þessu ári ætti að gilda og taka afstöðu til þeirra álitamála sem þar eru uppi. Ég undrast enn þau vinnubrögð og spyr sem sagt hæstv. heilbrigðisráðherra hvernig á þessum seinagangi standi og hverju það sæti að mikilvæg heilbrigðisstofnun þurfi að búa við slíka óvissu. Ekki síður undrast ég nú þegar ég hef fregnað að enn sé ekki búið að ljúka gerð þjónustusamningsins og fyrri samningur sem fyrr segir gilti til síðustu áramóta. Ég spyr hæstv. ráðherra þess vegna hverju það sæti og sömuleiðis um afstöðu hans til þeirra álitamála sem þar eru uppi um húsnæðiskostnað samtakanna, um þá þjónustu sem áður hefur verið fjallað um við ópíumfíkla og kostnað við hana og hvort ráðherrann sé tilbúinn til að koma til móts við það um lífeyrisskuldbindingar og önnur álitamál sem uppi hafa verið í þeim viðræðum. Sömuleiðis spyr ég hvernig ráðherrann ætli að standa að rekstri sjúkrahússins á yfirstandandi ári, hvort hann geri ráð fyrir því að ljúka þessum þjónustusamningi nú fyrir mánaðamótin þannig að hann gildi fyrir þetta ár og hvort hann ætli þá að sækja aukafjárveitingar til að geta staðið undir þessari starfsemi. En fyrst og fremst vil ég vita hvort þetta séu almenn og viðtekin vinnubrögð í ráðuneytinu við gerð rekstraráætlana og samninga við þá aðila sem veita mikilvæga samfélagsþjónustu í landinu.