132. löggjafarþing — 52. fundur,  25. jan. 2006.

Nýting stofnfrumna úr fósturvísum til rannsókna og lækninga.

64. mál
[15:56]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um nýtingu og geymslu stofnfrumna úr fósturvísum til rannsókna og lækninga. Eins og kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, 1. flutningsmanns málsins, hefur tekist mjög breið sátt um málið hér þó að það, eins og einnig kom fram, hafi ekki náð fram að ganga á síðasta þingi. Hins vegar heyrist mér á umræðunni hér og á hæstv. heilbrigðisráðherra að hlutirnir séu farnir að gerast hratt, kannski óþarflega hratt en það verður vonandi ekki til þess að menn flýti sér um of. Þetta er auðvitað gríðarlega stórt mál og mörg siðferðisálitamál sem þarna koma upp og mikilvægt að sem flest sjónarmið komist að í umræðunni. Ég ætla að leyfa mér að vona að við Íslendingar skipum okkur í hóp með frjálslyndari þjóðum í Evrópu, eins og t.d. Danmörku, Finnlandi, Hollandi, Belgíu og Grikklandi, í þessu máli. Ég varð vitni að mikilli umræðu um þessi mál í Þýskalandi þegar ég bjó þar. Þar stóðu íhaldsmenn á bremsunni og þvertóku fyrir það að þessar rannsóknir færu fram, aðallega íhaldsmenn innan kirkjunnar en eins og við vitum er kaþólska kirkjan dálítið sterk í Þýskalandi og ekki alltaf skemmtileg að eiga við. Sem betur fer er sá jarðvegur ekki fyrir hendi hér á landi svo við ættum að geta komist að samkomulagi um þessi mál öllsömul.

Vegna þess að tíminn er knappur ætla ég ekki að tala mikið lengur svo hægt verði að ljúka þessari umræðu.