132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Breytingar á skattbyrði.

[15:02]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nýverið afhjúpaði prófessor við Háskóla Íslands rækilega hvernig ríkisstjórnin hefur orðið sér til háborinnar skammar með mikilli skerðingu á kjörum öryrkja, m.a. með því að taka aftur með aukinni skattbyrði þá litlu hækkun sem orðið hefur á lífeyrisgreiðslum. Enn er flett ofan af gjörðum ríkisstjórnarinnar þar sem sami prófessor sýnir fram á í ítarlegri og faglegri úttekt það sem við í stjórnarandstöðunni höfum margoft bent á, að skattbyrði hafi aukist á fólk með lágar og meðaltekjur eða hjá um 90% heimila í landinu. Samt leyfir fjármálaráðherra sér að halda því fram að skattar hafi lækkað og þar hreinlega skrökvar hann að þjóðinni.

Fjármálaráðherrar íhaldsins, þeir Friðrik Sophusson, Geir Haarde og Árni M. Mathiesen, hafa allir siglt undir fölsku flaggi og eiga Íslandsmet í skattpíningu á almenning í bullandi góðæri, skattpíningu á lífeyrisþega, skattpíningu á lágtekjufólk, skattpíningu á fólk með meðaltekjur, raunar alla nema ofurforstjórana og efnafólkið. Fjármálaráðherrarnir þrír hafa allir sem einn á síðustu tíu árum vísvitandi aukið skatta á almenning í landinu eins og flokksbróðir þeirra, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, hefur réttilega haldið fram og viðurkennt. Bæði ríkisskattstjóri og Gylfi Magnússon, dósent í viðskipta- og hagfræðideild, taka undir með Stefáni Ólafssyni um að skattbyrði hafi aukist hjá almenningi og mest hjá þeim lægst launuðu. Að segja annað er hrein blekking og fjármálaráðherra á að viðurkenna þá staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn er mesti skattpíningarflokkur Íslandssögunnar gagnvart almenningi í landinu.

Þessi skattpíningarflokkur hefur á síðustu tíu árum skert skattleysismörkin um 16 milljarða miðað við neysluvísitölu og 35 milljarða miðað við launavísitölu. Það er skýringin á því af hverju skattleysismörkin eru aðeins 79 þúsund en ættu að vera 105 þúsund ef þau hefðu haldið í við neysluvísitölu. Þetta fjármagn var tekið úr vösum almennings og fært yfir til ofurforstjóranna og efnafólksins til að létta af þeim sköttum. Þannig fá forstjórarnir með ofurkjörin 2,3 milljónir í skattalækkanir á ári þegar skattbreytingarnar eru að fullu komnar til framkvæmda árið 2007. Þetta hefur gerst á sama tíma og barnabætur og vaxtabætur hafa líka verið skertar og lítils háttar aukning nú á barnabótum nær ekki einu sinni að halda í við þær greiðslur sem barnafjölskyldur fengu þegar þessi ríkisstjórn tók við 1995.

Veruleg aukning hefur líka orðið í gjaldtöku og lyfjakostnaði einstaklinga í heilbrigðiskerfinu. Þannig pínir Framsóknarflokkurinn almenning gegnum aukna gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu og Sjálfstæðisflokkurinn í gegnum gífurlega aukningu á skattbyrði en allur almenningur þarf nú að greiða minnst einum mánaðartekjum meira í skatt en þeir gerðu fyrir tíu árum.

Það er engin málsvörn í því, virðulegur forseti, að halda fram, eins og stjórnarflokkarnir gera, að launahækkanir og aukinn kaupmáttur sé skýringin á aukinni skattbyrði. Lítum aðeins á það. Kaupmáttur efnafólks hefur hækkað um 56% en kaupmáttur láglaunamannsins aðeins um 28%. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hvernig stendur þá á því að auknar kjarabætur til efnafólksins skila sér í lægri skattbyrði hjá þeim eða um 4,5% en aftur á móti skila auknar kjarabætur til lágtekjufólksins sér í 14–15% aukningu á skattbyrði?

Rökleysa stjórnarflokkanna sést líka á því að launin hafa einnig verið að hækka víða á Vesturlöndum og samt hefur skattbyrði þar lækkað eða staðið í stað meðan hún eykst hér hjá 90% þjóðarinnar. Það er ekkert náttúrulögmál að skattbyrði aukist með vaxandi tekjum heldur skiptir þar máli hvernig ríkisstjórnin hefur hagrætt í skattkerfinu til hagsbóta fyrir hálaunafólk, m.a. með gífurlegri skerðingu á skattleysismörkum.

Það er skattbyrði á rauntekjum sem skiptir öllu máli sem sést best af því að á árinu 1988 var ekki greidd ein króna af tekjum sem samsvara að raungildi 100 þús. kr. í dag en nú er greiddur af þessum 100 þús. kr. 9–10% skattur. Stjórnarflokkarnir hafa verið í forustu fyrir því að gera þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari og brýnasta verkefni þeirra 90% þjóðarinnar sem skattbyrðin hefur verið aukin hjá er að koma ríkisstjórninni frá. Skattkerfi skattpíningarflokkanna lítur þannig út að þeir tekjuhæstu greiða að meðaltali 12% af tekjum sínum í skatt en allur almenningur greiðir að meðaltali um 25% af tekjum sínum í skatt. Fyrir þetta óhæfuverk á að refsa stjórnarflokkunum í næstu kosningum og ég segi: Burt með þennan fjármálaráðherra sem skattpínir þannig almenning.