132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[18:56]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins. Ég vil byrja á að fagna því að frumvarpið skuli vera fram komið. Það er rökrétt framhald á því sem gerst hefur með raforkulögin og opnun raforkumarkaðarins hér á landi. Samkeppni er orðin á markaðnum. Fyrirtækið verður að aðlaga sig að þeim rekstrarskilyrðum sem eru á þeim markaði. Með því að gera það að hlutafélagi mun það verða „rekstrarhæfara“, stjórnunarlega þegar því hefur verið breytt í hf. Boðleiðir eins og við þekkjum verða styttri og fyrirtækið verður meira straumlínulaga og mun eiga auðveldara með að takast á við verkefnið. Við þekkjum þess dæmi með hf.-bankana eða fyrrum ríkisbankana sem nú eru í hlutafélagsformi að þeim hefur vegnað vel í hinu nýja rekstrarformi.

Hér hefur komið til umræðu sala á Rarik hf., hvort selja eigi fyrirtækið eftir að búið er að háeffa það eða ekki. Þetta er eðlileg og sjálfsögð umræða. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur sagt í umræðunni að það sé ekki stefna núverandi ríkisstjórnar að selja Rarik hf. Hins vegar veit enginn auðvitað hvað gerist þegar til framtíðar er litið. Þá munu einhverjir segja: Jú, það stendur til að selja fyrirtækið. (Gripið fram í.) Stefna okkar allra sem erum ábyrgir aðilar og sitjum á hv. Alþingi hlýtur að vera að hafa þetta í sífelldri endurskoðun. Það kann að vera að Rarik verði áfram hlutafélag. Það kann líka að vera eftir einhvern tiltekinn tíma að það sé rökrétt framhald að selja fyrirtækið. Við skulum ekkert útiloka það. Ef það er skynsamlegt og sjálfsagt að gera það og öll rök hníga í þá átt er auðvitað eðlilegt að farið verði yfir þá skoðun, eðli málsins samkvæmt. Þannig höfum við gert það með bankana, Símann og mörg önnur fyrirtæki. Það er því að sjálfsögðu ekki hægt að festa það til eilífðarnóns að þetta fyrirtæki verði aldrei selt. Það dettur engum í hug að halda því fram. Það er útilokað mál.

Hvað segja t.d. Vinstri grænir ef Rarik yrði selt og fjármununum að hluta til varið til að efla raforkukerfið á landsbyggðinni eins og hv. þm. Jón Bjarnason hefur verið að tala um, að þrífösuninni mætti hraða? Þegar Síminn var seldur var tiltekinn hluti þess fjár tekinn til að styrkja dreifikerfi Símans. Það mætti vel hugsa sér eitthvað slíkt. Þá kæmi það landsbyggðinni og atvinnulífinu þar til góða.

Við berum klárlega ábyrgð á því að hafa þetta í sífelldri endurskoðun, annars erum við ekki starfi okkar vaxin, vegna þess að okkur ber skylda til þess að þeir sem eru handhafar hlutafjárins sjái til þess að farið sé sem best með þetta fyrirtæki þjóðinni til heilla.

Það er í rauninni með ólíkindum hve vinstri grænir eru hlutafélagafælnir. Mér er það óskiljanlegt að einn stjórnmálaflokkur geti haft það á stefnuskrá sinni að vera hlutafélagafælinn og vilji í rauninni bara ríkisvæðingu fyrirtækja. Ég hugsa að það sér einstakt á Vesturlöndum hvernig menn hugsa þetta mál hér.

Mig langar, frú forseti, að fara örfáum orðum um það mál sem kom til tals áðan, sem er raforkuverðið. Menn fóru vítt og breitt, kannski eðli málsins samkvæmt, í sambandi við þá breytingu sem orðið hefur á sölukerfi okkar. Mönnum á að vera ljóst að nú er kerfið þannig að búið er að aðskilja framleiðslu, flutning og sölu og það eru alveg skýr skil þarna á milli. Það er jafnframt skýrt og okkur á að vera það fullkunnugt á hinu háa Alþingi að það eru niðurgreiðslur í kerfinu í dag og þær eru skýrar og klárar. Þær birtast í fjárlögum. Það eru á milli 1,2 og 1,3 milljarðar, ef ég man rétt, sem annars vegar er varið í flutningskostnað og hins vegar í niðurgreiðslur. Að öðru leyti er þessi markaður opinn.

Það háttaði svo til á Íslandi um árabil, rétt fyrir 1990 og líklega til 1995 eða 1997, að þá var til gríðarlega mikil óráðstöfuð raforka, óseld raforka á Íslandi. Þá kom fram tilboð frá orkufyrirtækjunum um sölu á raforku með afslætti, mig minnir að það hafi verið króna á kílóvattstund, ef hlutaðeigandi aðilar mundu auka kaup sín frá því sem áður hafði verið. Iðnfyrirtæki og önnur fyrirtæki voru hvött til aukinnar raforkunotkunar. Þetta skilaði sér að mörgu leyti vel til fyrirtækjanna, þau gátu nýtt sér þetta tilboð og gerðu það mörg hver á jákvæðan hátt. Það kann að vera, eins og kom fram í umræðunni áðan, að hluti af slíku sölukerfi eða tilboði sitji eftir í kerfinu og það sé skýringin á því sem hér kom fram áðan um verð til einstakra iðnfyrirtækja.

Jafnframt voru til taxtar á sínum tíma sem hétu annars vegar afgangsorka og hins vegar taxti sem var ótryggð orka. Ótryggð orka var afhent aðilum sem urðu þá að skuldbinda sig til þess að geta verið án þeirrar orku í mánuð eða jafnvel þrjá mánuði eða meira, þ.e. ef eitthvað kæmi upp í kerfinu þannig að ekki væri hægt að afhenda þessa orku, hún var mjög ódýr. Því er ýmislegt í forsögunni sem gerir það að verkum að það tekur tíma að koma jafnvægi á þennan markað og það kann að vera hluti af þeirri skýringu sem hér var spurt um áðan.

Þá langar mig að fara inn á aðeins víðara svið hvað varðar hlutafélagavæðingu á Rafmagnsveitum ríkisins. Mig langar, frú forseti, að vitna svolítið til ræðu sem ég var áheyrandi að ásamt fleiri fulltrúum frá Alþingi á fundi Norðurlandaráðsþings sem haldið var í síðustu viku þar sem nýr forsætisráðherra Noregs, Jens Stoltenberg, hélt góða ræðu og fór yfir þann mikla drifkraft sem væri á Norðurlöndunum og hversu Norðurlöndin stæðu sig vel á öllum mælistikum OECD. Hann fór vel yfir það mál og nefndi heilbrigðiskerfið, menntamálin og félagskerfi Norðurlandaþjóðanna, þetta skandinavíska módel sem við höfum stundum heyrt talað um, og fór mörgum orðum um það hversu vel Norðurlöndunum gengi í alþjóðasamfélaginu. Hann sagði að Norðurlöndin hefðu oft og tíðum barist í mikilli samkeppni á hinum ýmsu mörkuðum innbyrðis og út á við og sú samkeppni hefði einungis orðið til þess að skila Norðurlöndunum í heild betur fram á veginn í samkeppni við stóru þjóðirnar. Þetta var ánægjulegt að heyra.

Það kom kannski mest á óvart að hann sagði jafnframt að Íslendingar hefðu notið menntunar á Norðurlöndunum og nú þyrftu Norðurlandaþjóðirnar að huga að því hvað væri að gerast í efnahagsundrinu á Íslandi. — Ég er að vitna til ræðu Jens Stoltenbergs sem við hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hlustuðum á í Ósló. — Hann sagði að nú þyrftu norrænu þjóðirnar að líta til efnahagsundursins sem væri að gerast á Íslandi. Nú væri Ísland að sigla við hliðina á stóru þjóðunum og sumpart væri útrás Íslendinga, bæði á Englandi og Norðurlöndunum, meiri en þeirra eigin þjóða.

Mér fannst þetta mjög ánægjulegt og við megum vera stolt af þessu, stolt af árangri okkar efnahagsstjórnar og okkar lands og hversu framarlega það er á öllum mælistikum OECD á alþjóðavettvangi. Það sem ég er að leiða spurningu mína að er þetta: Hvað gerir það að verkum að stóru bræður okkar í norðri skuli nú vera farnir að líta til okkar, þessarar litlu þjóðar sem hefur notið þess í áratugi að fá menntun sína frá frændum okkar á Norðurlöndum, hefur menntast þar og fengið notið menningarlífs o.fl. — við fengum auðvitað frelsi til verslunar á sínum tíma o.s.frv. — sem þjóðar sem er að gera góða hluti?

Við þurfum að spyrja okkur að þessu og við höfum örugglega mismunandi svör, ég efa það ekki, það fer eftir því frá hvaða vinkli við horfum á málið. En ég er ekki í nokkrum vafa um að sú styrka efnahagsstjórn sem verið hefur hér á landi undangengin ár hefur skilað þar miklu. Við höfum gengið í átt til einkavæðingar og ég er ekki heldur í nokkrum vafa um að það hefur orðið þessari þjóð til heilla og er hluti af því að skila okkur fram á veginn. Við höfum aukið frjálsræði í flutningi fjármagns. Við höfum tekið þátt í uppbyggingu stóriðju eins og komið hefur fram í þessari umræðu. Það hefur skilað okkur efnahagslegum ávinningi, á því er ekki nokkur vafi. Þannig getum við haldið áfram og talið upp þá þætti sem hverju og einu okkar finnst skipta máli varðandi framgöngu okkar litlu þjóðar meðal Norðurlandaþjóðanna.

Við skulum á engan hátt fælast það að selja orku til stóriðju í dag. Við skulum líta til þess að nú eru breyttir tímar, að í dag eru fleiri en eitt fyrirtæki að leita eftir samingum um kaup á orku. Nú er dæminu snúið við, nú eru það kaupendurnir sem leita eftir því að fá keypta orku og það er öðruvísi en áður var á Íslandi þegar sendinefndir gengu á milli stóriðjufyrirtækjanna og buðu orku. Nú er beðið um tilboð í orkuna.