132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[19:13]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það væri gagnlegt og fróðlegt að taka við annað tækifæri umræðu um fjárfestingar við Kárahnjúka en ég hef þar allt aðra sýn en hv. þingmaður.

Talsmaður Sjálfstæðisflokksins talar mjög skýrt í þessari umræðu: Allir hlutir eru til sölu ef rétt verð er boðið. Ég get skilið að hv. þingmaður geti ekki sagt um það núna, svo vitnað sé í orð hans, hvenær eigi að selja, hvenær rétt sé að selja Rarik, en það er alveg ljóst og hefur komið hér mjög skýrt fram við þessa umræðu að talsmenn Sjálfstæðisflokksins telja það vera á borðinu að íhuga sölu á Rarik gagnstætt því sem hæstv. ráðherra hefur haldið fram.

Ég kann alltaf vel að meta það þegar menn koma hreint fram og lýsa skoðunum sínum og afstöðu eins og hv. þingmaður gerði áðan varðandi söluna á Rarik.