132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[20:06]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála því síðasta sem hv. þingmaður nefndi, enda hef ég talað um það á undanförnum árum oftar en einu sinni, að það eigi að skoða eignarhald á Rarik og það sé ekki sjálfgefið að ríkissjóður eigi fyrirtækið. Það hefur verið byggt upp með þeim hætti að full ástæða er til að skoða það vandlega.

En hitt vil ég benda á að mér fannst hv. þingmaður segja það varfærnum orðum að það mætti selja Rarik í pörtum. Ég er algerlega sammála því. Mér finnst það allt í lagi. Ef það er hentugra að hluti af því sem Rarik á núna í fyrirtækjum eða veitum, ef þeir eignarhlutir eru betur komnir hjá öðrum, þá má breyta því. Það er bara mjög eðlilegt. Menn verða vitanlega að skoða þann kost.

Til viðbótar langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki, ef það á í alvöru að reyna að koma á einhvers konar samkeppnisumhverfi í framleiðslu og sölu á raforku, að menn verði að sjá til þess að fyrirtækin á þessum markaði verði ekki öll í eigu ríkisins og verði nú ekki einsleit, að eitt stórt ríkisfyrirtæki verði á þessum markaði og síðan pínulitlar bændaveitur til viðbótar. Það væri auðvitað ekkert samkeppnisumhverfi. Þótt mönnum finnist það kannski svolítið bragðvont þá held ég að mixtúran verði að lokum sú að skipta þessum markaði upp með einhverjum hætti. Þannig geta burðug fyrirtæki tekist á í samkeppni. Með því yrði hægt að mynda verð í samkeppnisumhverfi. Ef við höfum gott eftirlit með því fyrirkomulagi þá má tryggja að neytendur fái besta verð sem hægt er að ná út úr framleiðslu á raforku í landinu.