132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[16:59]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að margar rannsóknir hafa verið gerðar á tengslum lungnakrabbameins og óbeinna reykinga. Það er hins vegar ekki rétt sem hæstv. heilbrigðisráðherra segir hér, þ.e. hvernig hann fer með niðurstöðurnar. Ég bendi á það að hæstv. heilbrigðisráðherra vísar hér í rétta rannsókn, og hún er frá 1998. Þetta er týnda rannsóknin sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin einhverra hluta vegna reyndi að stinga undir stól en blaðamenn komust á snoðir um. Það sem er merkilegt við þessa rannsókn umfram aðrar er að þetta er viðamesta rannsóknin sem hefur verið gerð í þessum málum. Hún stóð í 10 ár og fór fram í sjö Evrópulöndum, náði til 650 sjúklinga og 1.500 manna í öllum aldursflokkum. (Forseti hringir.) Maður hlýtur að furða sig á því þegar svona mál er til athugunar (Forseti hringir.) hvers vegna í ósköpunum svona viðamikil rannsókn, (Forseti hringir.) sú viðamesta á þessu sviði, hafi ekki verið tekin til athugunar við vinnslu frumvarpsins.