132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Útreikningar fjármálaráðuneytis í skattamálum -- Fríhöfnin.

[12:22]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég held að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir teljist nú varla óvilhallur dómari um það hvað mér tekst að skýra út fyrir fólki og hvað ekki. Hins vegar er einfalt að svara henni því sem hún er að spyrja um, þ.e. hvers vegna ég miða ekki við árið 1994 og árið 2004. (Gripið fram í.) Vegna þess að í ár er árið 2006 og á árinu 2005 og 2006 hafa skattar verið lækkaðir. Ef menn ætla að koma hreint fram, eins og hv. þm. Sigurjón Þórðarson talar um, eiga menn að taka það inn í dæmið til að geta skoðað stöðuna.

Ég verð líka að firra mig ábyrgð á skilningi hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar, þ.e. hvað hann skilur af þeim dæmum sem eru í fréttatilkynningunni á netinu. Þar eru bæði dæmi um það að tölurnar séu teknar og reiknað út frá þeim (Gripið fram í.) eins og þær voru fyrir 12 árum og eins og þær eru í ár, eins og skattarnir væru á næsta ári. Síðan eru líka tekin dæmi þar sem tölurnar eru reiknaðar upp miðað við þróun og þá kemur það sama út, að skatturinn hefur lækkað. Þetta sýnir sennilega það eitt að hv. þingmaður hefur ekki lesið fréttatilkynninguna alla í gegn. (SigurjÞ: Jú, jú.) Hann hefur einfaldlega ekki gert það.

Ég verð að svara hv. þm. Hjálmari Árnasyni á þann veg að samkvæmt tollalögum, sem samþykkt voru á vorþinginu og tóku gildi nú um áramótin, ber ráðuneytinu að skilgreina umsvif Fríhafnarinnar, sérstaklega komuverslunarinnar, í reglugerð. Verið er að vinna að því en engar áætlanir eru um að takmarka þau neitt sérstaklega.

Ég verð þó að segja að ég er mest hissa á því að hv. þm. Jón Gunnarsson skuli engan áhuga hafa á að ræða málefni Fríhafnarinnar og Flugstöðvarinnar heldur vilji tönnlast á útúrsnúningum varðandi skattamálin.