132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skinnaverkun.

474. mál
[13:51]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ef ég heyrði rétt sagði hv. þingmaður að hátt gengi væri út af álverinu fyrir austan eða þeirri uppbyggingu. Það er ekki rétt, það er bara rétt eins og dropi í hafið miðað við margt annað. En kannski hefur mér misheyrst.

En ég held að hér hafi gerst dálítið merkilegur atburður því að hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir sagði að ég hefði haft á réttu að standa. Þetta hef ég bara aldrei heyrt áður og ég kem því mjög glöð í ræðustólinn að þessu sinni.

Einn hv. þingmaður fór að tala um loðdýraræktina en það er allt, allt annað mál því að þau skinn hafa aldrei verið sútuð á Íslandi. Þau koma því ekki við sögu hvað varðar það mál sem við ræðum nú, þ.e. skinnaiðnaðinn.

Ég vil líka nefna eitt ánægjulegt atriði í þessu sambandi og jákvætt, sem snertir einmitt Sauðárkrók, og það er fyrirtækið Sjávarleður sem sútar fiskroð og selur. Það gengur vel og er ákaflega skemmtileg nýjung í okkar hönnun og sölu á íslenskri vöru erlendis. Ég vona svo sannarlega að þetta geti gengið en Nýsköpunarsjóður á þarna hlut að máli. Mér finnst það vera dálítið mikil viðkvæmni ef margir hv. þingmenn koma hér upp til að tala um umhverfissinna og skinnaiðnað í því sambandi, en það eru bara staðreyndir sem liggja fyrir að þeir hafa beitt sér gegn því að notuð séu skinn af dýrum og þó að það hafi sérstaklega bitnað á loðdýrum á það líka við um þau skinn sem hér um ræðir.

Skoðun mín er sú að það hefði verið gaman og mjög áhugavert fyrir okkur ef þetta hefði getað haldið áfram en ég er líka þeirrar skoðunar að ekki þýði að henda peningum í einhverja starfsemi sem liggur fyrir að gengur ekki til frambúðar. Það er stundum kallað að pissa í skóinn sinn. Það er betra að hugsa um nýjungar og nýsköpun og byggja þannig upp atvinnulífið.