132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Endurbætur á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði.

373. mál
[15:09]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins endurtaka það að við munum horfa á þetta mál með fullkomin öryggissjónarmið í huga. Ég geri mér alveg grein fyrir aðstæðum fyrir vestan hvað þetta varðar. Ég vil jafnframt undirstrika að sjúkraflugið, sem við ætlum að skipuleggja á landsvísu, er með sérútbúinni vél sem alltaf er tilbúin, með áhöfn sem líka er tilbúin að fara með vélinni með sérþjálfuðu fólki þannig að þetta er stökk fram á við í þjónustunni. En við munum að sjálfsögðu líta á aðstæður fyrir vestan áður en þetta kemur til framkvæmda og við munum hafa í huga að fulls öryggis sé gætt.