132. löggjafarþing — 57. fundur,  1. feb. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[16:08]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það frumvarp sem hér er verið að greiða atkvæði um felur í sér auknar og rýmri heimildir til handa iðnaðarráðherra til að undirbúa fleiri stórvirkjanir í vatnsföllum landsins fyrir álbræðslur og álæði sem heltekur ríkisstjórnina. Jafnframt eru þessi rannsóknarleyfi gerð að markaðsvöru, þau geta nú gengið kaupum og sölum með leyfi ráðherra.

Frú forseti. Sum vatnsföll eru hafin yfir það að þau eigi að rannsaka með tilliti til stórvirkjana fyrir álbræðslu. Þar á meðal eru jökulvötnin í Skagafirði, Héraðsvötnin. Þar á meðal er Skjálfandafljót með Aldeyjarfossi, svo nokkuð sé nefnt. Þessi vötn á ekki að fela í hendur iðnaðarráðherra. Þau eiga að fá að renna frjáls til sjávar.

Því, frú forseti, segi ég nei við þessu frumvarpi sem hér er verið að greiða atkvæði um.