132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[12:23]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um háskóla. Það verður nú að viðurkennast hér í upphafi umræðunnar að ég hef ekki lesið þetta frumvarp saman við þau lög sem gilda núna, nr. 136/1997. En engu að síður átta ég mig á þeim stóru dráttum í breytingunum sem hér eru lagðar til. Ég verð satt að segja að taka undir með hv. þingmanni Össuri Skarphéðinssyni, sem sagði áðan að hann hefði það á tilfinningunni að einhverra hluta vegna snerist þetta frumvarp ekki um nein aðalatriði. Það er akkúrat það sem maður hefur á tilfinningunni þegar maður er búinn að lesa það, meginþættir frumvarpsins eru í sjálfu sér þetta samræmda námsmat og það sem tilheyrir Bologna-yfirlýsingunni og fjallar einhvern veginn á svolítið bólginn hátt um þau atriði. En engu að síður sé ég ekki að þetta fari nægilega mikið ofan í ræturnar á aðstöðu háskóla almennt til þess að ég treysti því að nú komi allir háskólar á Íslandi til með að líta bjarta daga því hér séu að koma ný lög.

Hæstv. ráðherra Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur verður tíðrætt um að ríkisstjórnin sé að gera góða hluti og hún stefni enn hærra í málefnum háskólastigsins. Samkeppnishæfni skólanna hafi verið aukin til muna og háskólanemum hafi fjölgað gríðarlega síðan 1999, ásamt því að fjölbreytnin á háskólastiginu hafi aukist með því að einkaskólum hafi verið veitt starfsleyfi til háskólakennslu.

Að ákveðnu marki má ýmislegt af því sem hæstv. ráðherra segir í þessum efnum til sanns vegar færa. En þarna eru líka fólgnir ákveðnir pyttir sem mjög auðvelt er að falla ofan í. Það er líka auðvelt hreinlega að taka þessari klifun um samkeppnisstöðu og fjölbreytni sem einhvers konar innantómu hjali. Ég vil halda því fram þegar grannt er skoðað að sú viðbót sem hefur komið við háskólaflóruna á Íslandi hafi ekki verið nægilega fjölbreytt. Það hefur fyrst og fremst orðið aukning í þeim námsgreinum sem mikil ásókn er í en þær námsgreinar sem hafa átt erfiðar uppdráttar hvað varðar vinsældir, en eru kannski ekki síður þýðingarmiklar námsgreinar í háskólaflórunni, þær hafa átt erfitt uppdráttar og nánast átt undir högg að sækja, eins og sést best á afar tíðum greinum og öflugum málflutningi starfsmanna Háskóla Íslands, sem ganga fyrst og fremst út á að Háskóli Íslands sé í fjársvelti. Það sé ekki verið að fara að lögum hvað varðar fjárveitingar til háskólans og þar af leiðandi eigi hann afar erfitt uppdráttar að ýmsu leyti. Sú umræða hefur verið tekin hér við fjárlagaumræðu á undanförnum árum þar sem ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd harðlega fyrir að hafa ekki tekið betur á í fjármálum og rekstrargrunni Háskóla Íslands og almennt hinna opinberu háskóla.

Þannig að það er nú allt ekki eins og blómstrið eina í þessari umræðu, frú forseti. Það segir ekki allt að fjölga skólum og fjölga námstækifærum. Hitt verðum við að skoða líka, upp á hvað eru skólarnir að bjóða? Og á hvern hátt er rekstrargrundvöllur þeirra tryggður? Rekstrargrundvöllur þessara skóla á Íslandi hefur verið með mjög misjöfnum hætti. Ég hef viljað halda því fram að sjálfseignarstofnanirnar hafi notið ákveðinnar forgjafar og velvildar frá hæstv. menntamálaráðherra umfram opinberu skólana. Það er algerlega augljóst þegar skoðað er á hvern hátt þeir geta fjármagnað sig. Þar er ekki farin hin norræna leið þar sem það tíðkast að sjálfstæðir eða einkareknir háskólar hafi heimildir til að leggja skólagjöld á nemendur sína en þá skerðist ríkisframlagið til þeirra skóla sem því nemur, til þess að samkeppnisstaða skólanna sé jöfn. En ekki eins og það er hér, að einkareknir háskólar hafi heimildir til að leggja skólagjöld á nemendur sína, jafnvel hundruð þúsunda króna á ári. En fá samt sem áður á móti fullt framlag frá hinu opinbera. Þar að auki greiðir ríkissjóður umtalsvert fjármagn inn í Lánasjóð íslenskra námsmanna til að niðurgreiða lán þeirra sem taka lán fyrir skólagjöldum. Samkeppnisstaða opinberu háskóla og hinna einkareknu er því afar skökk. Mér finnst það vera eitt af aðalatriðunum í málinu. Ekki það sem þetta frumvarp fjallar um, sem eins og ég sagði áðan eru kannski fyrst og fremst þessar gæðakröfur og vottun.

Nú fagna ég því í sjálfu sér að hér skuli vera komið fram frumvarp sem lýtur að gæðakröfunum og vottuninni. Ég hef kynnt mér Bologna-ferlið og mér sýnist það vera afar vandað ferli sem er svona fyrirskrifað. En ég verð samt að segja að það er ákveðinn uggur í brjósti mér og ég upplifi kannski ákveðna tvöfeldni í skilaboðunum. Því annars vegar er lögð áhersla á að það þurfi að auka sjálfstæði háskólanna en á hinn bóginn er sagt að nú eigi að steypa allt í sama mót, að allir eigi að fara inn í Bologna-ferlið og gæðamatið og að vottunin þurfi að vera eftir stöðlum sem eru eins frá skóla til skóla.

Þannig að ég spyr: Er hér ekki um einhvers konar tvískinnung að ræða? Á hvern hátt getum við aukið sjálfstæði skóla en um leið sett þá inn í mót sem er sameiginlegt öllum skólum í Evrópu? Ég held að við þurfum að gá að því hvort skólarnir okkar hafi svigrúm sem í sé fólgið akademískt frelsi, akademískt sjálfstæði og að við stöndum vörð um akademískt samfélag háskólanna. Háskólasamfélagið er mjög sérstakt samfélag. Í mínum huga lýtur það öðrum lögmálum en önnur menntasamfélög, þ.e. grunnskólastigið eða framhaldsskólastigið þar sem lagður er ákveðinn grunnur að því er síðar verður á háskólastiginu. Á háskólastiginu blómstrar samfélag fræðanna og menn lifa í sambýli, fræðimenn, nemar, kennarar sem hafa rannsóknarskyldu, það er svona ákveðin gerjun, ákveðin deigla í þessu samfélagi sem er alveg einstök. Það er upp úr þessari deiglu sem nýsköpun í samfélaginu verður til og það er upp úr þessari deiglu sem það er tryggt að menntastig þjóðarinnar hækkar og að við höldum áfram veginn til framfara. Þess vegna tel ég að þetta fræðasamfélag, hið akademíska samfélag sé lykilatriði hvað varðar gæði og eflingu háskólastigsins á Íslandi. Mér finnst ekki mikið talað um þetta akademíska samfélag í frumvarpinu og ég sé ekki að það sé verið að búa hér til umgjörð fyrir slíkt samfélag.

Nú vil ég taka fram, frú forseti, að ég gef frumvarpinu svo sem allan sjens, eins og unglingarnir segja, og kem til með að taka þátt í vinnu við það í menntamálanefnd og kem þar til með að koma fram með þær spurningar sem hvíla á mér en þær varða nokkra þætti frumvarpsins. Einn þeirra þátta var nefndur af hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni og varðar hina sjálfstæðu matsstofnun, sem þingmaðurinn gerði að umtalsefni og hefur hugmyndin kviknað í umræðum um málið í samfélaginu hvort með þessum nýju gæðakröfum og vottunarferli þurfi ekki að setja á stofn sjálfstæða matsstofnun. Eða á hvern hátt sér hæstv. ráðherra það fyrir sér að starfsmenn menntamálaráðuneytisins geti sinnt slíkri gæðavottun? Hvernig þarf t.d. menntun að vera háttað og kröfum sem verður að gera til þeirra sem standa í þeirri vottun og leggja mat á skólana? Ætlar hæstv. ráðherra að láta það eiga sér stað allt saman bara inni í ráðuneytinu í kringum sitt eigið borð? Ég hef verulegar efasemdir um að það sé af hinu góða.

Ég hefði haldið að hér þyrfti að koma til sjálfstæð stofnun sem hefði þessar mælistikur á hendi sinni, matsstofnun þar sem vel menntað fagfólk í þessum fræðum höndlaði með til að tryggja mætti að allir sitji við sama borð og til að tryggja megi að farið sé að öllu eins og fyrirskrifað er.

Athyglisvert er að skoða í frumvarpinu, frú forseti, umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Þar kemur einmitt í ljós að öll sú vinna sem fram undan er í því að búa til þessa viðurkenningu þarf að fullnægja ákveðnum skilyrðum. Viðurkenningin er bundin fræðasviðum og ljóst er að tilgangurinn á að bæta háskólakennsluna eftir því sem frumvarpið gerir ráð fyrir og einnig rannsóknirnar. Það er undarlegt í mínum huga að fjármálaráðuneytið skuli ekki sjá neina ástæðu til að gera ráð fyrir að einhvers konar aukið fjármagn þurfi að koma til. Þetta á allt saman að gerast innan ramma fjárlaganna og fjárlagaskrifstofan sér ekki ástæðu til að frumvarpið muni hafa nein áhrif á útgjöld ríkissjóðs umfram það sem felst í fjárlögum fyrir árið 2006 og langtímastefnumörkun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjárlögum næstu ára.

Ég hef efasemdir um þetta og teldi að kostnaðurinn við þessar breytingar verði umtalsverður ef á að fara þannig í málin, fara þannig í sakirnar að það sé nægilega öflugt til þess að skila þeim árangri sem í orði kveðnu virðist vera stefnt að. Mér finnst allt þetta sem varðar gæðavottunina og þessa nýju staðla hafa tilhneigingu til að vera fánýtt hjal nema til komi aukið fjármagn. Ég sé því ekki á hvern hátt hæstv. ráðherra ætlar sér að fara út í þessa nýjung sem er til staðar í frumvarpinu án þess að til komi auknar fjárheimildir.

Kunnara er en frá þurfi að segja og hæstv. ráðherra getur ekki flúið það að ríkisstjórnin hefur verið ásökuð fyrir að halda Háskóla Íslands í spennitreyju, reyndar líka Háskólanum á Akureyri sem þurfti að skera niður á haustdögum vegna þess að ekki fékkst hækkað fjárframlag til skólans. Kennaraháskólinn er stöðugt að loka á nemendur með há stúdentspróf vegna þess að fjárveitingar þær sem eðlilegt getur talist að fylgi hverjum nemanda eða nemendafjölgun koma ekki til skólans. Ég er því tortryggin að mörgu leyti á þá stefnu sem hér er talað fyrir meðan ekki koma auknir fjármunir til sögunnar.

Ég er líka yfir höfuð tortryggin á stefnu hægri sinnaðra menntamálaráðherra. Mér finnst ákveðin hætta fólgin í þeim breytingum sem hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hefur talað fyrir og reyndar aðrir hægri sinnaðir menntamálaráðherrar á undan henni. Sú hætta sem ég sé í þessu öllu saman er að breytingar á rótgrónum lögum sem starfað hefur verið eftir og ekki mikið kvartað undan geti valdið því að barninu verði kastað út með baðvatninu. Það verðum við auðvitað í menntamálanefndinni að skoða vel og alveg ofan í kjölinn í þessu máli, að hér sé ekki verið að breyta breytinganna vegna, ekki sé verið að bjóða því heim að verið sé að þynna út eða gera hluti einfaldari einföldunarinnar vegna heldur þurfum við skoða hverjar meginþarfir háskólasamfélagsins sem slíks eru. Mér sýnist frumvarpið vera fremur meinleysislegt að þessu leytinu en kannski er það vegna þess að fjármálin eru tekin þarna út fyrir sviga og alls ekki ætlast til þess að þau séu rædd hérna með.

Mér finnst leiðin út úr þeim vandræðum sem við höfum átt við að glíma varðandi vottun námsins og gæðakröfur til háskólanna, sem ég viðurkenni að hafa verið til staðar, mér finnst að leiðin út úr þeim vanda hljóti að felast í því að fjármagn til skólanna sé aukið, fjármagn til þessara þátta þurfi að auka.

Í þessu sambandi er einnig eðlilegt að litið sé til þeirra skóla sem eru til staðar á landinu og eðlilegt að spurt sé, eins og hv. þm. Hjálmar Árnason spurði úr þessum ræðustóli fyrir örfáum dögum, hvort það sé alls kostar eðlilegt og alls kostar jákvætt að átta háskólar séu reknir á Íslandi. Það er eðlilegt að við kíkjum á það hvort allir þessir háskólar standi í raun og veru undir þeim kröfum sem gera má til háskólanna. Við vitum öll að í útlöndum eru mismunandi stig skóla eða ólíkar tegundir skóla á háskólastigi. Þar eru ekkert allir skólar á háskólastigi að kalla sig þessu alþjóðlega heiti „university“. Margir eru fagskólar á háskólastigi sem gera ekki tilkall til þessa heitis „university“ enda er það heiti svo yfirgripsmikið og umfangsmikið að segja má að þýðingin og túlkunin á því feli í sér að skóli sem kallast með sanni „university“ sé í rauninni alheimsskóli, þ.e. hann spanni allar greinar, öll fræði alheimsins, það öll fræði, allar greinar veraldarinnar séu kenndar undir þeim sama hatti. Þess vegna eru t.d. risastórir háskólar eins og í Bandaríkjunum sem starfa vítt og breitt, þeir eru ekki kannski bundnir við eina litla borg eða eitt lítið hverfi í borginni heldur dreifa þeir sér mjög vítt yfir, þenja sig út yfir jarðkúluna sem einhvers konar net, einhvers konar endurspeglun af því sem veröldin hefur upp á að bjóða á sviði fræðanna.

Ég held að það sé ekkert óeðlilegt að horft sé til allra þessara þátta og við mælum háskólana okkar á þeim mælistikum sem fyrirfinnast. Það er eðlilegt t.d. að við í menntamálanefnd skoðum á hvern hátt Skandínavar eða Norðurlandaþjóðirnar hafa verið að breyta þessum málum hjá sér. Í athugasemdum við frumvarpið er gerð grein fyrir því í mjög stuttu máli hvað það er sem gert hefur verið upp á síðkastið í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Það hlýtur að vera eðlilegt að fá upplýsingar til nefndarinnar um það hvernig tekist hefur til. Breytingarnar hafa staðið yfir hjá þeim nágrannaþjóðum okkar síðan 2003. Í frumvarpinu kemur fram að í Danmörku hafi verið sett ný lög sem breyttu háskólum í sjálfseignarstofnanir og að stjórnun skóla væri ítarlegar útfærð og prófgráður skilgreindar samkvæmt Bologna-viðmiðun og svipað á við um skóla annars staðar á Norðurlöndum.

Nú er það stefna flokks míns, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að umfram allt þurfi að tryggja jafnrétti til náms á Íslandi. Það á við um háskólastigið og ekki síður um háskólastigið en önnur skólastig. Ég get alls ekki tekið undir með hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni sem talaði fyrir hönd Samfylkingarinnar áðan, sem vildi skýr svör við því hvort auka ætti við fjárframlög til háskólanna eða hvort þeim yrðu fengnar heimildir til skólagjalda eða að þær heimildir yrðu rýmkaðar. Ég verð að segja að ég er algerlega andvíg því að farið verði út á þá braut að taka skólagjöld í opinberum skólum. Ég tel að í okkar litla samfélagi þurfi, ef við ætlum að vera samkvæm sjálfum okkur og auka í alvöru menntunarstig þjóðarinnar, að sjá til þess að fólki verði ekki mismunað til náms út frá efnahagslegri eða félagslegri stöðu. Við verðum að tryggja að allir sem áhuga og getu hafa til að sækja alvarlegt háskólanám eigi þess kost. Öll gjaldtaka af því tagi sem skólagjöld innihalda dregur úr möguleikum okkar á að keyra þá stefnu um jafnrétti til náms.

Að lokum vil ég segja þetta: Háskólum hefur fjölgað mikið á Íslandi. Það er að mörgu leyti vel. Ég hef ævinlega fagnað hverju nýju tækifæri sem íslenskir stúdentar eiga til náms á háskólastigi, en við þurfum samt að spyrja okkur alvarlegra spurninga varðandi þessa fjölgun skóla. Magn er ekki sama og gæði og mér sýnist grunntónninn í frumvarpinu vera sá að nú þurfi að búa til mælistiku sem mæli gæðin. Ég tek undir það meginstef og ég held að mjög mikilvægt sé að vel takist til í þeim efnum og að óvilhallir aðilar starfi eða komi að þeim málum. Ég mæli þess vegna með sjálfstæðri matsstofnun um gæðamatið en treysti því að öðru leyti að þannig verði á málum haldið að þessi heildarrammalöggjöf um háskóla eigi eftir að skila okkur betri skólum og í framhaldinu verði það tryggt að ríkisskólarnir haldi sínum stað, stöðu sinni og að hluta til yfirburðastöðu sinni.

Svo hefði ég, og læt það verða lokaorð mín, gjarnan viljað sjá frumvörpin um opinberu skólana koma til kasta Alþingis um leið og þetta, tel (Forseti hringir.) ekki eðlilegt að hér sé skilið á milli.