132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[14:38]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra er svo tíðrætt um þær leiðir sem stjórnvöld hafa farið til að efla háskólastigið, þ.e. leið samkeppninnar. Í mínum huga er það sambærilegt við leið markaðarins því að markaðurinn byggir á samkeppni. Það vita allir að hægri sinnaðir stjórnmálamenn nota lögmál markaðarins og heimfæra þau upp á hið opinbera kerfi og það er það sem hæstv. menntamálaráðherra hefur verið að gera.

Svo segir hún stöðugt að það sé verið að setja mikla fjármuni í háskólastigið og að ríkisskólarnir eða opinberu skólarnir fái meira á hvern nemanda en sjálfseignarstofnanirnar. Þetta er ekki alls kostar rétt hjá hæstv. ráðherra því hún svarar aldrei einstökum þáttum þeirrar gagnrýni sem hér er færð fram. Einkaskóli sem hefur tök á því að leggja skólagjöld á nemanda ofan á hið opinbera framlag hefur meira umleikis með hverjum nemanda en ríkisskóli, og þá er ég auðvitað (Forseti hringir.) fyrst og fremst að tala um kennsluþáttinn (Forseti hringir.) því að hæstv. ráðherra má ekki gleyma því að skólarnir fá annars vegar fyrir kennsluþátt og hins vegar fyrir rannsóknarþátt.