132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Uppbygging álvera í framtíðinni.

[15:05]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Að undanförnu hafa skilaboð í fjölmiðlum frá ráðherrum og öðrum ráðamönnum verið nokkuð misvísandi hvað varðar uppbyggingu álvera á komandi árum og má segja að þar reki sig hvað á annars horn. Ég vil rifja upp í því sambandi að fyrir tæpum tveimur árum sagði Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, á alþjóðlegri ál- og orkuráðstefnu að rými væri fyrir eitt nýtt álver hér á landi á næsta áratug og þegar heildarframleiðsla á áli næði 1 millj. tonna á ári værum við komin að ákveðnum mörkum. Þetta sama sagði hæstv. iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir í útvarpsfréttum í júní, að milljón tonn væri hámarkið.

Skyndilega dúkka hins vegar upp hugmyndir um stækkun í Straumsvík og tvö ný álver. Þá var það sem hæstv. umhverfisráðherra sagði að menn væru komnir fram úr sér í þessari umræðu og ef af stækkun yrði í Straumsvík væri ekki pláss fyrir fleiri álver.

Fyrir norðan var hæstv. iðnaðarráðherra að kynna hugmyndir um álversuppbyggingu á Norðurlandi og sagði þar að álver á Norðurlandi væri óháð því sem gerðist fyrir sunnan. Þó að af stækkun yrði í Straumsvík og byggingu í Helguvík kæmi það ekki í veg fyrir álver fyrir norðan og Norðlendingar hefðu aldrei verið eins nærri því að fá álver, eins og hún orðaði það. Þegar hún var spurð út í ummæli hæstv. umhverfisráðherra í þessu máli sagði hún, og ég held að ég hafi það orðrétt eftir henni, við viðmælanda, þann sem spurði: Treystu á mig, takið ekki mark á umhverfisráðherra.

Nú spyr ég: Á hverjum á að taka mark í þessu máli? Eftir höfðinu dansa limirnir, og því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Telur hann að það sé pláss fyrir stækkun í Straumsvík og nýtt álver fyrir norðan innan Kyoto-bókunarinnar og telur hann að það sé pláss fyrir allar þessar framkvæmdir fyrir árið 2012, innan ramma þeirra hagstjórnarmarkmiða sem menn hafa sett sér, m.a. um stöðugleika?