132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[16:30]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur fyrir að mörgu leyti ágæta ræðu. Hún skilgreinir ástandið eins og hún sér það og það er margt til í því að það er ekki glæsilegur akur um allt land hvað byggðamál varðar. Við vitum það, mörg byggðarlög glíma við ákveðna erfiðleika í því samhengi. Annars staðar gengur betur, sem betur fer.

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður talaði mikið um atvinnulífið á landsbyggðinni. Að sjálfsögðu er það undirstaða blómlegrar byggðar að fyrirtækin geti dafnað og vaxið og verið öflug á viðkomandi svæðum. Við hv. þingmaður erum væntanlega sammála um það. Hv. þingmaður stóð samt að því að leggja fram tillögu á síðasta hausti um það að hækka tryggingagjald um 400 millj. kr. sem bitnar á atvinnulífinu og jafnframt á fyrirtækjum á landsbyggðinni sem ekki eru öll jafn vel sett. Við, þingmenn stjórnarmeirihlutans, lögðumst gegn þessum auknu álögum sem Samfylkingin vildi setja, m.a. á atvinnulífið á landsbyggðinni. Því spyr ég hv. þingmann hvort hún standi við þá stefnu Samfylkingarinnar að auka beri álögur á fyrirtæki á landsbyggðinni með þessum hætti.

Í öðru lagi spyr ég hv. þingmann um sjávarútvegsstefnu Samfylkingarinnar, hvort hún sé á hreinu. Stendur Samfylkingin við fyrningarleiðina eða er hún komin með nýja stefnu í anda hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem boðaði sáttarhönd til íslensks sjávarútvegs fyrir nokkru? Það væri gott að fá svar frá einhverjum þingmanni Samfylkingarinnar um stefnuna í sjávarútvegsmálum.

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann að lokum um vaxtarsamninga en ég sé að ég næ því ekki í þessu fyrra andsvari mínu. Ég mun koma að vaxtarsamningum í seinna andsvari mínu.