132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[14:28]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var afar furðuleg ræða hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni. (GHall: Hún var góð.) Nei, hún var alls ekki góð, hún var reyndar alveg furðulega slæm. Ég talaði ekkert um að nýir Íslendingar eigi ekki að greiða skatta og skyldur hér á landi. Það kom ekkert fram í mínum málflutningi um það. Auðvitað eiga þeir að gera það. Síðan segir hann að það sé eitthvað furðulegt að við eigum að taka fagnandi á móti þeim hingað. Ég var bara að benda á að til þess að verða íslenskur ríkisborgari, að sækja um þau mikilvægu og góðu réttindi, þurfi ekki að hækka allt í einu eitthvert gjald upp í 10 þús. kr. sem enginn getur útskýrt, ekki einu sinni hæstv. fjármálaráðherra, hvað stendur á bak við. — Nú hlær annar hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Ég skil ekki svona málflutning. Tökum við á móti nýjum Íslendingum með þessu sjónarmiði? Mér er algerlega ofboðið. Og að ég hafi verið að tala eitthvað um að þetta fólk eigi að fá að vaða hér uppi og borga ekki skatta og skyldur eins og aðrir kom bara alls ekki fram í ræðu minni.