132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Stúdentspróf.

358. mál
[12:26]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Hagstofa Íslands hefur kerfisbundið safnað upplýsingum um íslenska framhaldsskóla fyrir ráðuneyti menntamála. Til að finna hve langan tíma nám til stúdentsprófs tekur að meðaltali valdi Hagstofan alla stúdenta í framhaldsskólum almanaksárið 2004. Um er að ræða nemendur sem komu inn í nemendaskrá árið 1990 eða síðar. Teknar voru upplýsingar úr prófaskrá, hvenær nemendur hófu nám, frá hvaða skóla þeir voru brautskráðir og hvenær þeir voru brautskráðir. Þannig fæst hve lengi þau stunduðu námið. Í tölum Hagstofunnar eru námshlé nemenda ekki dregin frá þegar reiknaður er meðalnámstími til stúdentsprófs og hefur það því einhver áhrif til hækkunar.

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar er meðallengd náms allra nemenda til stúdentsprófs 4,9 ár eða tæp 5 ár. Meðaltal að frátöldum fjarnemendum er einnig 4,9 ár. Ef einungis dagskólanemendur eru skoðaðir eru þeir að meðaltali 4,8 ár að ljúka stúdentsprófi.

Hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir spurði einnig:

„Hve langan tíma tekur námið að meðaltali í fjölbrautaskólum annars vegar og menntaskólum hins vegar, að frátöldum fjarnemum?“

Til að svara þessari spurningu voru annars vegar valdir skólar sem eingöngu kenna nám til stúdentsprófs, bóknámsskólar, og hins vegar skólar með blandað námsframboð sem brautskrá stúdenta samkvæmt ákveðinni flokkun. Við vitum að þeir hafa m.a. almennar brautir og fleira. Í ljós kemur að nemendur í skólum með blandað námsframboð eru, að frátöldum fjarnemum, að meðaltali 5,3 ár að ljúka námi til stúdentsprófs. En nemendur í bóknámsskólum eru, að frátöldum fjarnemum, 4,2 ár að ljúka stúdentsprófi.

Munurinn á námstímanum í bóknámsskólunum annars vegar og blönduðu skólunum hins vegar skýrist líklega fyrst og fremst af því að nemendur bóknámsskólanna hafa nánast allir skilyrði til að hefja stúdentsnámið strax að loknum grunnskóla. Margir þeirra sem hefja stúdentsnám í blönduðu skólunum hefja skólagöngu sína á almennri námsbraut til undirbúnings frekara námi á bóknámsbrautum. Það lengir námið. Í blönduðu skólana sækja líka gjarnan eldri nemendur sem hefja nám til stúdentsprófs að loknu námi á öðrum brautum eða þeir sem skipta úr bóknámsskóla í blandaða skóla.

Ég vil sérstaklega draga fram að almenna brautin er fyrirkomulag sem framhaldsskólunum var veitt svigrúm til þess að nota á sínum tíma. Hið jákvæða varðandi almennu brautirnar var að þeim var veitt sjálfstæði til að móta námið og það hefur gefist ágætlega. Engu að síður teljum við að fara þurfi sérstaklega yfir þetta. Ég bendi á það að þetta er einn af þeim punktum sem felast í þessu tíu punkta samkomulagi á milli menntamálráðuneytisins og Kennarasambandsins. Við viljum fara gaumgæfilega yfir þá möguleika sem almenna brautin gefur okkur í skólakerfinu. Það hefur sýnt sig að hún skilar því að við náum inn nemendum sem hefðu ekki fengið inni í skólakerfinu og við náum að koma þeim áfram. Það þarf engu að síður að huga að því hvernig má útfæra brautina nánar.

Ég tek undir með hv. þingmanni með að athyglisvert væri að fara gaumgæfilega yfir kynjaskiptinguna. Við vitum hins vegar að ákveðin teikn eru á lofti varðandi drengina í skólum landsins sem við þurfum sérstaklega að huga að. Ég þarf ekki annað en að minna á PISA-könnunina, varðandi 15 ára nemendur í grunnskóla, þar sem stúlkurnar í skólum landsins eru framúrskarandi í stærðfræði meðan drengirnir eru við meðaltal. Það er hlutur sem huga þarf að á mörgum stigum innan menntakerfisins.