132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Svæðisútvarp á Vesturlandi.

486. mál
[13:07]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Svæðisútvörpin hafa fyrir löngu sannað gildi sitt sem mikilvægur miðill í heimahéraði. Nú eru rúm 20 ár síðan fyrsta svæðisútvarpið var stofnsett á Akureyri. Þess vegna finnst mér eðlilegt að sett sé upp svæðisútvarp á Vesturlandi einnig.

Hins vegar er sorglegt að heyra hæstv. menntamálaráðherra segja að með því frumvarpi sem liggur fyrir, um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins, séu allar þessar hugmyndir settar á ís. Ég kvíði satt best að segja þeim tíma, ef svo óheppilega vildi til að þetta frumvarp næði fram að ganga, vegna þess að þá er augljóst að svæðisútvörpin verða ekki sett í forgang. Menn hafa jafnvel rætt um að hluta útvarpið að einhverju leyti niður og ég held að það yrði afar slæm þróun.